05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Formaður Félags læknanema segir nema lengi hafa barist fyrir fjölbreyttum kennsluháttum

Sólveig Bjarnadóttir í viðtali

„Þetta gerðist allt svo hratt. Allt í einu var búið að setja á samkomubann og fella niður hefðbundna kennslu,“ segir Sólveig Bjarnadóttir, formaður Félags læknanema og 5. árs nemi í læknisfræði.

„Heill bekkur af læknanemum var settur í sóttkví og teknir voru upp rafrænir kennsluhættir á nánast einni helgi. Við læknanemar höfum lengi talað fyrir fjölbreyttum kennsluaðferðum. Við vissum að það þyrfti átak til en það er magnað hvað þetta hefur gengið hratt fyrir sig. Ég tel þó að enginn hafi óskað þess að vera á Zoom-fyrirlestrum allan daginn,“ segir Sólveig og hlær.

„Ég get ekki beðið eftir því að mæta í almenna kennslu. Við höfum lært að meta upp á nýtt gæði þess að hafa kennara fyrir framan sig og nemendur við hliðina á sér.“

Hún segir að gera hafi þurft töluverðar breytingar á verknáminu. Önnur starfsemi spítalans en sú sem tengist kórónuveirunni sé minni, göngudeildarþjónusta í lágmarki og fáar skurðaðgerðir.

„Margt annað hefur þó komið í staðinn. Gerður hefur verið samningur milli lífeindafræðinga og 4. árs nema um blóðtökur.“ Nemarnir hafi fengið kennslu frá lífeindafræðingum og aðstoði nú við morgunblóðtökur á legudeildum. „Mikil ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulag.“ Þá hafi nemendur sem skráðu sig í bakvarðasveitina verið kallaðir í gagnaöflun og nemendur á heilbrigðisvísindasviði starfað í rakningarteyminu.

„Læknanemar hafa allir lært mikilvægi sóttvarna og hlífðarbúnaðar á þessum vikum. Það hefur verið mjög lærdómsríkt að standa í miðjum heimsfaraldri.“

Hún segir könnun sem Stúdentaráð gerði sýna kvíða hjá háskólanemum. „Óvissa er mikil og álag vegna nýrra aðstæðna. Ég myndi segja að allir hafi verið ótrúlega þolinmóðir og sveigjanlegir við að leysa hlutina. Við höfum einnig átt mjög gott samstarf við læknadeild í að aðlaga námið. Þetta hefur gengið vel.“ Hún sakni þó bekkjarfélaganna og félagslífsins sem sé úr skorðum.

„Árshátíðinni hefur verið frestað sem og öðrum viðburðum. Það er krefjandi að vera heima allan daginn og vera í fyrirlestrum á Zoom,“ segir hún og sér fram á að best verði að blanda raun- og rafrænum heimum í framtíðinni.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica