05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Rokkar á milli hræðslu og ólýsanlegrar sorgar

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar COVID-19?

Líðanin er mjög breytileg og eiginlega út um allan völl. Suma daga er ég full af orku og adrenalíni, aðra uppgefin og þess á milli rokka ég á milli þess að vera reið, jafnvel hrædd eða ólýsanlega sorgmædd. Það er gífurlega erfitt að ræða við aðstandendur þeirra sem eru í dánarferlinu vegna þess að ólíkt því sem áður var, geta þeirra nánustu ekki verið við dánarbeðið. Oft aldraðir sem hafa búið saman í áratugi er síðan stíað í sundur af veirunni á lokastundu. Vil benda á að ég sé einungis veikustu COVID-sjúklingana.

Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín?

Við erum lánsöm að hafa nóg af hlífðarfatnaði. Það var áhyggjuefni í upphafi að við myndum ekki hafa nóg til að endast í margar vikur en sú varð ekki raunin.

Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu?

COVID-19 hefur umturnað öllu. Það er engin rútína lengur, allt er ófyrirsjáanlegt, ekkert hægt að plana. Við höfum aldrei verið sett í þá stöðu að vita nánast ekkert um organismann sem veldur svo alvarlegum sjúkdómi. Allt venjulegt starf hefur verið sett til hliðar og allt starfsfólk sett í það eitt að sinna COVID, annaðhvort inni á sjúkrahúsinu eða í fjarvinnu.

Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni að þínu mati?

Já. Það má alltaf finna ýmislegt sem betur hefði mátt fara þegar litið er um öxl. Ég var auðvitað sjálf þátttakandi í að ákveða hvernig við áttum að bregðast við. COVID-19 kom yfir okkur eins og holskefla þannig að það þurfti að taka ákvarðanir hratt. Á hverjum degi komu síðan upp áskoranir þar sem breyta þurfti fyrirmælum.

En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld?

Heilbrigðisyfirvöld tengd stjórnvöldum er auðvitað allt annað mál. Ég þarf ekki að útlista hversu mikið áhyggjuefni það er að vera með forseta sem talar tóma þvælu þegar kemur að heilbrigðismálum. Þrátt fyrir að hafa góðan ráðgjafa í Tony Fauci, hlustar hann ekki. Stjórnendur New York- fylkis og borgarinnar hafa staðið sig mjög vel, þá sérstaklega Cuomo. Það hefur verið upplífgandi að fylgjast með NY-búum og sjá hvernig allir standa saman í þessu. Á hverju kvöldi klukkan 7 koma allir úr á svalir (og það er fjöldinn allur af svölum á háhýsunum) og mynda hávaða, klappa eða slá í potta. Á sama tíma hafa þeir verið að umkringja spítalann með því að standa með 2 metra bili allan hringinn

Telur þú að þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju?

Ég held að faraldurinn muni breyta mjög miklu. Handabönd verða ekki lengur til. Mikið af vinnu á göngudeildum mun sennilega breytast yfir í fjarskipti þar sem við komum til með að meta sjúklingana í gegnum tölvur.

Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?

Stærra vandamál bíður okkar eftir allt þetta því það er afar líklegt að við taki fjárhagsleg kreppa. Margir munu eiga afar erfitt með að fá vinnu og svo framvegis. COVID-19 hefur líka kennt okkur að það sem við áður töldum vera lífsnauðsynjar, eru það ekki lengur. Hreint vatn og sápa hefur toppað alls konar óþarfa sem við keyptum hér áður fyrr.Þetta vefsvæði byggir á Eplica