05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Gríðarlegt álag á smitsjúkdómadeildina á Karólínska

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hér á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi hefur verið gríðarlega mikið álag á smitsjúkdómadeildinni frá því í lok febrúar þegar fyrstu COVID-19 tilfellin greindust. Það hjálpar mikið að á deildinni starfar hæft og reynt starfsfólk og hér hefur í yfir 25 ár verið farsóttarviðbúnaður með yfirförnum rútínum og reglulegum æfingum. Aðstaðan á deildinni er góð þar sem öll herbergi á deildinni í Huddinge hafa undirþrýsting og forrými.

Hjá okkur á smitsjúkdómadeildinni höfum við um 75 inniliggjandi COVID-19 sjúklinga og eru flestir á aldrinum 40 til 70 ára. Við gætum tekið við um 25 sjúklingum til viðbótar, en því miður standa fullkomin herbergi auð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum! Auk þess eru um 120 á gjörgæslu (nánast allir í öndunarvél) og 150-200 dreifðir á aðrar deildir sjúkrahússins, svo sem hágæsludeildir, öldrunardeildir og almennar bráðadeildir. Fjöldi sjúklinga hefur verið nokkuð stöðugur síðustu vikuna, og við sjáum ekki lengur sömu aukningu í fjölda inniliggjandi sjúklinga og áður. Við vonum því að toppnum sé náð, þó enn sé langt eftir. Starfsfólk smitsjúkdómadeildarinnar hefur unnið mikið og undir miklu álagi nú í langan tíma en samstaðan er og hefur verið frábær.

Margt hefur verið gert vel á Karólínska sjúkrahúsinu, sérstaklega það hve ótrúlega vel gjörgæsludeildir spítalans hafa náð að auka sína getu. Okkur sem störfum klínískt hefur þó fundist stjórnendur á sjúkrahúsinu almennt vera of langt frá gólfinu og því sem þar gerist. Það sem veldur mér og samstarfsfólki mínu meiri áhyggjum er að Karólínska (eins og aðrar heilbrigðisstofnanir í Stokkhólmi) hefur ákveðið að leggja sig á mun lægra stig varðandi hlífðarbúnað starfsfólks en gert er á Íslandi og í flestum öðrum löndum. Við á smitsjúkdómadeildinni höfum ekki farið eftir þessum tilskipunum þrátt fyrir þrýsting að ofan í að skipta yfir í einfaldari hlífðarfatnað. Við berjumst áfram fyrir því, og enn frekar nú eftir að í ljós hefur komið að talsverður fjöldi starfsfólks sem starfað hefur á COVID-deildum sjúkrahússins hefur veikst. Nokkrir læknar og hjúkrunarfræðingar hafa lent á gjörgæslu og ungur hjúkrunarfræðingur sem starfaði á COVID-deild veiktist og lést nú í vikunni. Við vonum innilega að þessi sorglegu atvik muni leiða til þess að yfirvöld og stjórnendur sjúkrahússins skerpi á reglum um hlífðarfatnað og öryggi starfsfólks.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica