05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Fegin að göngudeildin lokaði ekki í faraldrinum

Raddir íslenskra lækna erlendis

 

Það tekur klukkustund að hjóla frá heimili mínu til Ballerup þar sem ég vinn á geðspítala. Venjulega hlusta ég á tónlist eða hljóðbók á leiðinni, en undanfarið hef ég haft kveikt á DR radio-appinu til að heyra útvarpsfréttir. Ég hef aldrei fylgst jafn vel með fréttum og nú.

Sem Íslendingur í Danmörku, uppalin í Svíþjóð, hefur verið áhugavert að fylgjast með hvernig þessi keimlíku lönd hafa brugðist mismunandi við heimsfaraldrinum. Danmörk er eitt af þeim löndum sem brugðust hart og hratt við, gripu til aðgerða eins og að loka landamærum, skólum, stofnunum og sendu meirihluta ríkisstarfsmanna heim. Áhersla er á stöðuga fræðslu og upplýsingagjöf til almennings. Samkomubönn og félagsforðun hafa skilað árangri og farið er að slaka á hömlum.

Fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda virka svo vel að læknar auglýsa nú eftir sjúklingum, jafnvel í fjölmiðlum. Tölur sýna færri innlagnir í ár heldur en í fyrra og hjartalæknar hafa skoðað 35% færri sjúklinga. Tilvísunum á krabbameinsdeildir og geðsvið hefur fækkað um 50-60% síðan fyrir faraldur. Talið er að veikir einstaklingar einangri sig heima hjá sér og þori ekki að leita læknis, vilji ekki „trufla“. Búist er við auknu álagi á kerfið á næstu mánuðum vegna annarra sjúkdóma.

Ró ríkir á geðspítalanum í Ballerup, enda hvorki sjúklingar né starfsmenn með staðfest smit. Færri koma á bráðamóttökuna og margir göngudeildarsjúklingar kjósa símafundi sem eru styttri en venjuleg viðtöl. Sem læknir á göngudeild fyrir flóttafólk og innflytjendur með geðræn vandamál hef ég eftirfylgd með 40 sjúklingum. Í teyminu er hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi og sálfræðingur. Sjúklingar mínir eru flestir með áfallastreituröskun eftir áföll í heimalandi sínu.

Ég er fegin að göngudeildin lokaði ekki eins og fyrst var spáð. Flóttafólk hefur átt sérlega bágt á þessum tímum. Lokun samfélagsins hefur minnt á stríðsástandið sem það flúði og í upphafi vantaði upplýsingar á þeirra tungumáli. Á tímabili ríkti óvissa og ringulreið meðal unglækna spítalans. Margir áhyggjufullir um að verða sendir í framvarðasveit fyrirvaralaust.

Sem trúnaðarmaður fyrir unglækna á spítalanum hef ég setið á reglulegum fundum með stjórnendum og fengið uppfærslur daglega. Enn hefur ekki verið þörf á okkar mannskap annars staðar. Líklega vegna þess að tugþúsundir heilbrigðisstarfsmanna (meðal annars fjöldi nema og starfsfólk sem var komið á eftirlaun) skráðu sig sem sjálfboðaliða til að hjálpa til þar sem álagið var mest.

Ég hef aldrei upplifað viðlíka samstöðu, velvilja og samkennd meðal heilbrigðisstarfsfólks og er afar stolt af minni fagstétt. Vinnubrögð okkar hafa mikið breyst og ég er sannfærð um að margt mun varanlega breytast eftir Covid-fárið sem ríkir enn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica