05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Sérnáminu frestað og færður á nýja COVID-deild

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar Covid-19?

Þrátt fyrir breyttar og ögrandi aðstæður líður okkur öllum vel hérna úti. Við lítum svo á að þetta sé sameiginlegt verkefni okkar allra og með jákvæðu og uppbyggilegu hugarfari komumst við öll saman í gegnum þetta.

Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín?

Já, við höfum fengið nóg af hlífðarfatnaði og fræðslu um hvernig maður á að haga sér kringum sjúklinga, sérstaklega á þeim deildum sem vinna með COVID-19 sjúklinga.

Allt starfsfólk hefur verið duglegt að passa uppá reglurnar og hafa fókus á almennt hreinlæti, sem hefur stuðlað að öruggu starfsumhverfi.

Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu?

Já heldur betur, öllu mínu sérnámi, námskeiðum, fríum og vaktaóskum hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Í lok mars var ég fluttur af minni deild yfir á nýstofnaða COVID-19-deild bæði hérna í Álaborg og í Farsø, sem er minna sjúkrahús í um 50 mínútna fjarlægð sem var breytt í COVID-19-sjúkrahús.

Síðan þá hef ég einungis unnið á nýrri COVID-19-móttöku og legudeildum.

Þetta hefur auðvitað haft mikil áhrif á mína daglega vinnu, allt er nýtt og maður er að vinna með nýju fólki daglega, sem kemur frá ýmsum stöðum. Allar reglur og flæði er nýtt og við þurfum öll daglega að takast á við ýmis vandamál sem koma upp í svona nýjum aðstæðum.

Á heildina litið hefur það gengið ótrúlega vel en maður þarf oft að sýna smá þolinmæði.

Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni að þínu mati?

Danska strategían fjallaði öll um að minnka kúrfuna sem allir þekkja. Það var strax farið að undirbúa auka legupláss og mönnun fyrir sérstakar COVID-19-deildir, til dæmis var þriggja hæða sjúkrahóteli breytt í COVID-19-byggingu með móttöku, legudeild og gjörgæsludeild með öndunarvélum.

Allt var undirbúið fyrir stóru bylgjuna sem gæti komið, enginn vildi upplifa ástand einsog Ítalía upplifði í byrjun faraldursins, frekar var undirbúið fyrir of mikið en of lítið.

Ég tel að sjúkrahúsið og heilbrigðiskerfið hafi brugðist hárrétt við. Það eina sem ég gæti sett út á var takmörkun á sýnatökum, sérstaklega hjá starfsfólki. Ég hefði viljað rýmri möguleika fyrir sýnatökur og skipulagðari einangrun og sóttkví samhliða rakningu á smitum.

En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld?

Það er klárt að enginn veit hvað er best í svona stöðu. Hér var til dæmis öllu lokað ásamt landamærunum, sem hefur auðvitað skapað erfiðleika fyrir okkur einsog aðra, sérstaklega með lítið barn sem kemst ekki lengur til dagmömmu. Það hefur mikið verið fylgst með hvernig nágrannalönd okkar hafa brugðist við eins og Svíþjóð og Ísland sem bæði hafa haft öðruvísi taktík en Danmörk.

Þegar á heildina er litið er ég ánægður með hvernig var brugðist við en ég bíð spenntur eftir nánari greiningu milli landa til að sjá nánar hvernig er best að bregðast við svona aðstæðum.

Telur þú að þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju?

Já, það er alveg klárt. Ég er viss um að í framtíðinni munum við öll vera varkárari við veikindi og vera betri í að sinna almennu hreinlæti bæði í vinnunni og annars staðar.

Til dæmis munum við ef til vill hætta til frambúðar að takast í hendur á spítalanum, nota meira hlífðarfatnað eins og grímu og vera frekar heima en að mæta til vinnu með kvefeinkenni eins og við Íslendingar erum vanir.

Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?

Já, ég held að eftir þennan faraldur muni heimurinn breytast. Eins og ég nefndi mun fólk verða mun varkárara með almennt hreinlæti og veikindi, það tel ég sé aðeins af hinu góða, bara meðan það fer ekki út í öfgar og fer að stuðla að kvíða og ótta hjá almenningi. Svo er spurningin hvernig ferðalög verða í framtíðinni, kannski verða settar auknar hömlur og kröfur, til dæmis um heilbrigðisvottorðum.

Ég vona að heimurinn muni sameinast betur eftir þessa krísu og hafi lært að með því að vinna saman erum við alltaf sterkari. Ég vil sjá meiri samvinnu ríkja og stofnana einsog WHO. Því miður eru vaxandi einangrunaröfl í heiminum sem stuðla sífellt að meiri sundrungu en sameiningu, neita að vinna samkvæmt rökum og vísindum og hugsa fyrst og fremst um sig sjálf. Það verður líklega með erfiðari og mikilvægari verkefnum okkar allra í framtíðinni.Þetta vefsvæði byggir á Eplica