05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Óður til vináttunnar

ÉG VAR SJÚKUR OG ÞÉR VITJUÐUÐ MÍN

Ég lifi í tveimur löndum. Þannig er það þegar þú yfirgefur land feðranna 32 ára gamall. 

Mitt líf og vinna hefur verið í Lundúnum í bráðum 23 ár. 

Ég sinni geðveikum. Vinn með góðu, harðduglegu fólki. Miklum manneskjum allt um kring. Og sjúklingarnir eru margir mikið stórir.  

Sem aðrir hef ég sokkið inn í heim Covid-19. Ég hef haft miklar áhyggjur af mínu veikasta fólki. Og óttast að það gæti komið illa út úr þessum hamförum. 

En það er einnig einhver kraftur í því fólginn að fá að láta þekkinguna, heilbrigða skynsemi og langa reynslu njóta sín. Við, eins og aðrir, höfum gert það sem við höfum getað til að breyta verklagsferlum. Auka öryggi. Reyna að sinna okkar veika fólki og passa upp á okkar frábæra starfsfólk.  

Viðbrögð þessara tveggja landa hafa verið ólík.  

Eins og aðrir hef ég fylgst grannt með Heilagri þrenningu og öllum þeim risum sem að þessu máli hafa komið. Hef dáðst að ríkisstjórn Íslands fyrir að leyfa besta fólkinu að ráða. 

Það er sagt að fólk sýni sitt rétta andlit á tímum sem þessum. 

Bretland er með böggum hildar. Þar flýgur hver eins og hann er fiðraður. 

Fólk sem metur lítt sannleikann ræður illa við áskorun eins og Covid-19. 

Undirbúningur, skimanir og hlífðarbúnaður hafa verið í orði. Ekki á borði. 

Tveimur vikum eftir að lætin hófust fékk ég pestina sjálfur. Ég hef aldrei orðið eins veikur. Og maður hugsar um dauðann, í sínum litla súrefnissnauða heimi, einsemdina og það að treysta ekki. Hér hafa öldur brotnað af þunga. 

Læknar eru þekktir sem lélegir sjúklingar. Ég hélt að ég væri skárri, vegna reynslu af langvinnum, alvarlegum veikindum. Svo var ekki. Ótti og afneitun hafa verið við völd. 

Ég hef annars verið lánsamur í lífinu. Sennilega hefur það eitthvað með hjólreiðar að gera ... Ég hef verið umvafinn hópi yndislegra vina. Systir mín og fólkið mitt heima er stórt. Vinir sáu við mér. Komu mér í innlögn. Þar fékk ég frábæra þjónustu. Sambýlismaður minn, vinir mínir hér úti og samstarfsfólk eru kærleiksríkar manneskjur. 

Covid-19 hefur minnt mig á hvað mikilvægast er. Ég vissi að vinátta er fegurst á erfiðum tímum. Fegurri en allt. Þá vissu hef ég fengið staðfesta núna. 

Þegar ég var 19 ára í menntaskóla lærði ég að hjóla tilfinningalega. Foreldrar mínir kenndu mér það. 

Vinkona mín missti 16 ára bróður sinn. Ég tilkynnti foreldrum mínum þessar sorgarfréttir. Þeirra svar var einfalt: 

Nú eftir matinn gengur þú út í Blómabúð Kópavogs og svo ferð þú til þessa fólks og vottar þeim þína samúð. 

– En ég get það ekki ... ég get ekkert sagt ...  

– Þú þarft ekkert að segja, sagði mamma. – Þú þarft að sýna þeim hluttekningu þína og hlýju. 

Að kenna mér að hjóla var þeirra mesta gjöf. Verkfæri til að þora að tengjast öðrum djúpum böndum. 

Ég mun rísa, eins og margir aðrir, eftir þessa pest.  

Skilningur minn á því sem raunverulega skiptir máli mun vonandi sitja eftir: 

Ég var sjúkur og þér vitjuðuð mín. 

 

Með góðum kveðjum heim. Þetta vefsvæði byggir á Eplica