05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Aukin samkennd og tilfinning fyrir þjáningu annarra í heimsfaraldri

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar Covid-19?  

Takk fyrir að spyrja. Þetta eru mjög skrítnir tímar. Allt hefur gerst mjög hratt og öll starfsemin hjá okkur breyttist á örfáum dögum í að sjá nánast einungis um sjúklinga með COVID-19. Maður fann fyrir ónota- og óvissutilfinningu, sérstaklega í byrjun, en ég ákvað strax að reyna að taka bara einn dag í einu. Reyna að passa upp á svefninn og hreyfa mig mikið og halda þannig andlegri og líkamlegri heilsu.  

Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín?  

Nei, ég hef áhyggjur af því að ég sé ekki nægilega varin. Hlífðarfatnaðurinn sem við fáum er glær svunta, hanskar og skurðstofumaski. Maður fer því með bera handleggi inn til COVID-sjúklings. Mjög margir eru óánægðir með hlífðarfatnaðinn en hafa ekkert val. Okkur hefur verið sagt að teymi sérfræðinga á spítalanum taki ákvarðanir um hlífðarfatnað sem eru byggðar á gögnum.  

Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu?  

Já algjörlega. Stærstur hluti lækna á minni deild er að sinna sjúklingum með COVID. Öllum endurkomum innkirtlasjúklinga hefur verið breytt yfir í síma- eða fjarviðtöl og aðeins neyðartilfellum er sinnt á innkirtlamóttökunni.   

Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni að þínu mati?  

Þetta er auðvitað stærsta áskorunin sem spítalinn hefur staðið fyrir og hlutirnir hafa gerst hratt og enginn gerði sér grein fyrir í byrjun hversu stórt og langvinnt verkefni þetta yrði. Spítalinn hefur brugðist hratt við að fjölga gjörgæslurýmum og taka við sjúklingum.  Ég myndi vilja hafa betri hlífðarbúnað og að fleiri kórónuveirupróf væru tekin hjá starfsfólki spítalans sem veikist en það hefur verið skortur á sýnatökupinnum.  

En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld?  

Svíar hafa ekki farið sömu leið og aðrar nágrannaþjóðir í baráttu sinni við kórónuveiruna. Hér hefur samkomubann verið öllu rýmra en annars staðar og ekki hefur verið lögð sama áhersla á skimun og rakningu og til dæmis á Íslandi. Mér finnst Ísland og þríeykið hafa staðið sig frábærlega vel og maður finnur hversu vel íslenska þjóðin treystir þeim. Það er ekki sama uppi á teningnum hér í Svíþjóð. Margir eru mjög hugsi yfir þessari leið sem Svíar hafa valið. Svar yfirvalda þegar gagnrýnisraddir heyrast hvað varðar hærri dánartíðni hér en á öðrum Norðurlöndum er að það sé of snemmt að segja hvaða stefna hafi verið best og að spyrja verði að leikslokum. Hins vegar er erfitt að sætta sig við fjölda smita hjá eldra fólki. Ég fæ tár í augun í hvert skipti sem ég hugsa um að smit hafa greinst á helmingi allra hjúkrunar- og elliheimila í Stokkhólmi þar sem fólk er viðkvæmt fyrir veirunni og dánarhlutfallið er hátt. 

Telur þú að þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju?  

Enginn veit hvað það mun taka langan tíma þar til við erum í höfn með faraldurinn en þangað til þá mun það hafa áhrif á störf mín. Eftir það þá held ég að ég muni sinna sömu störfum eins og fyrir COVID-faraldurinn og ég hlakka mikið til að fá þau verkefni aftur.  

Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?  

Já, það verður mikil breyting. Þegar við verðum svona varnarlaus gagnvart heimsfaraldri eins og COVID þá sér maður aukna samkennd og tilfinningu fyrir þjáningu annarra. Vonandi mun þetta leiða til viðvarandi breytinga í hegðun og hugsanarhætti okkar og við hægjum meira á og minnkum að vera í kappi og stressi við tímann og veraldleg gæði. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica