05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Fjarbúð á tímum faraldurs og flugviskubits. Gerður Gröndal

Við hjónin búum í tveimur löndum, Íslandi og Hollandi, stundum erum við saman í sama landinu, en oft erum við aðskilin, og búum þá í svokallaðri fjarbúð. Fyrst fannst fólki þetta rosakúl, að ferðast mikið og vera með silfurkortið og alltaf í „Saga-lounginum“. „Vá, hvað þið eruð dugleg að hittast og viðhalda ástinni.“ En svo kom flugviskubitið og fólk setti upp svip þegar minnst var á öll ferðalögin. „Eruð þið ekkert að kolefnisjafna?“ „Þarftu ekki að fá þér rafmagnsbíl til bæta fyrir þetta?“ Ég bara brosi, flokka allt ruslið samviskusamlega, kolefnisjafna ferðirnar og nota bílinn eins lítið og mögulegt, labba í Melabúðina og hreyfi hann ekkert um helgar. Skoða bílaauglýsingar til að kaupa rafmagnsbíl næst. Passa mig líka að vera ekkert að básúna út allar ferðirnar á Facebook . . .

Hvað gerist svo? Kemur ekki ný veira, heimsfaraldur, tilmæli um farbann á lækna, og við bæði yfirlæknar og beðin að vera um kyrrt hvort í sínu landinu. Hve lengi verður þetta, hvað með ástfangið fólk sem verður að hittast? Nýgift og allt. Og um leið svo skyldurækin og full af ábyrgð á öllum ónæmisbældu sjúklingunum sem við þurfum að vera til staðar fyrir. Minn maður er hugrakkari en ég og var líka kominn af stað hingað til Íslands rétt þegar tilmælin komu. Við nutum daganna saman eins og okkar síðustu en að kveðjast og vita ekki hvenær við myndum hittast næst, var nær óbærilegt. Bara hægt að bíða og vona, hljótum að geta hist um páskana, á afmælinu, en svo hélt faraldurinn auðvitað áfram og enn höfum við ekki haft tækifæri til þess að hittast í eigin persónu síðan helgina góðu.

En allt verður að setja í samhengi og enginn nýtur lífsins sem ekki nær að hugsa jákvætt og lyfta andanum yfir daglegt amstur, jafnvel heimsfaraldur. Hörmungar dynja á fjölda fólks, bæði heilsufarslega og efnahagslega, og væntanlega á enn fleiri vegu. Þá er ekki hægt að kvarta, en vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og allar minningar um samveru og ferðalög um víða veröld. Láta sig dreyma um allt það sem hægt verður að gera aftur þegar þessu lýkur, og þessu mun ljúka.

Við höfum öll lært margt nýtt, verið sveigjanleg, kreatíf og útsjónarsöm, bæði í einkalífi og starfi. Á Landspítala og í heilbrigðiskerfinu öllu höfum við samhent gengið veginn áfram og virðumst hafa haldið vel á málum eins og staðan er í dag. Við getum verið stolt af frammistöðu okkar en um leið vona ég að við getum haldið samstöðunni áfram og eflt starfsemina okkar enn frekar í framtíðinni.

Eitt af því sem við höfum tileinkað okkur á þessum tímum eru fjarfundirnir. Það bara gengur ágætlega, að sumu leyti mun þetta verða besta lausnin til að takmarka ferðalög en mikið er þetta nú leiðigjarnt til lengdar. Það er gæfa mín í vinnunni að eiga einstaka kollega, mörg þeirra mun tæknivæddari en ég. Hafði það kannski á tilfinningunni að þau væru bara ánægð með þetta fjarfundastand og myndu leggja til að hafa þetta svona áfram. Hef sjaldan verið fegnari en þegar þau kvörtuðu á síðasta fundi og sögðust hlakka til að vikulegu fundirnir okkar yrðu með hefðbundnu sniði, þar sem við hittumst öll og berum saman bækur okkar. Það er bara allt öðruvísi og gefur hinn sanna kontakt.

Varðandi fjarbúðina okkar, þá getum við hjónin lifað af á meðan þetta varir, með rómantískar bréfaskriftir, símann, Facetime og annað svipað fjarfundunum. En hugsið ykkur vesalings fólkið á hjúkrunarheimilunum sem ekki fær að hitta sína nánustu og geta í ofanálag kannski ekki nýtt sér nútíma fjarskipti. Okkar allra vegna get ég ekki beðið þar til heimsfaraldurinn hræðilegi gengur yfir. Persónulega þá hlakka ég svo til að hitta manninn minn og er sannfærð um að ástin sigrar faraldra og reyndar flugviskubit líka. Góðar stundir!

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica