05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Um Veikindadaga, bók Hlyns Grímssonar

Hlynur Níels Grímsson

Bókaútgáfan Sæmundur, Selfossi, 2019

Prentuð í Þýskalandi

74 bls

Fyrsta bók Hlyns, Krabbaveislan, kom út 2015, og hlaut góðar viðtökur. Þar var hið svokallaða heilbrigðiskerfi í forgrunni og rauði þráðurinn var læknisstarfið. Háðið einkenndi framsetninguna og efnistökin umfram annað, höfundurinn beindi spjótum sínum að þeim sem stýra og stjórna og drottna.

Það er allt annar bragur á þessari bók sem hér er til umfjöllunar og kom út fyrir jólin, Veikindadagar. Hlynur byrjar bókina á því að kalla til Lúkas sem segir í klassísku guðspjalli sínu: Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. Hlynur er ef til vill að biðja sér griða og jafnframt er tengingin við Biblíutexta og trú mjög sterk: upprisutímar, frelsun, upp upp mín sál, verði ljós.

Hér eru ljóð undir titlum sem tengjast læknisstarfinu og vettvangur þeirra er spítalinn, og svo ótitlaðir prósatextar sem eru áberandi nærgöngulir, fara undir húðina. Það er bæði fegurð og óhugnaður sem fylgir ljóðum sem eiga rætur á sjúkrahúsi, sorg og gleði, líf og dauði. Þyngdin er líka meiri á þessum pestartímum sem nú eru þegar allur almenningur er bæði búinn að upplifa ógnarhræðslu og fá mjög myndræna innsýn inn í völundarhús heilbrigðisþjónustunnar þar sem góðu kraftaverkin gerast og þar sem endimörk lífsins eru. Þetta gildir um ljóðin Nocturne, Helgispjöll og Aðfaranótt sunnudags til dæmis þar sem vísanir í Biblíuna og ævintýrið um Þyrnirós gera alvöruna um sturlaða fíkn og neyslu ungmenna alveg blýþunga.

Önnur ljóð veita töfrandi sýn á náttúruna, - og góða tilfinningu fyrir hraða, lykt, birtu og stemmningu. Undurfagur prósi um veiðimennsku á heiðum uppi. Svipuð tilfinning og á spítalanum, bæði líf og dauði, - ægifegurð í fugli og fiski og vötnum, en líka dulinn óhugnaður, seiður, hulin hönd, álög, forneskja. Undiraldan er þung og ágeng en samt mild.

Bókin er vönduð að allri gerð og smekklega frá henni gengið. Innihaldið hefur kostað fórnir og yfirlegu höfundarins sem uppsker ríkulega. Lesandinn fær vandaðan prósa og ljóð með mikið erindi sem talar til manns.

–VS

Menjar

 

Tóftirnar vaxnar brennijurt

sem fyrr

 

Engin kargaþýfð

eins og áður

 

Í höndum þér

ófrjó moldin

 

Farðu burt, vinur

Hér er ekki enn gróið um heiltÞetta vefsvæði byggir á Eplica