05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. COVID – Quo Vadis? Jörundur Kristinsson

Sagt er að við getum ekki séð framtíðina fyrir. Sú staðhæfing hefur sjaldan reynst sannari en einmitt nú, þá fáu mánuði sem liðnir eru af þessu ári. Kringum síðastliðin áramót fóru fréttir að berast af torkennilegum vírus sem skotið hafði upp kollinum hinu megin á hnettinum. Kannski virtust það í upphafi ekki miklar fréttir, vírusar umbreytast jú á hverjum degi. Stór hluti míns vinnudags snýst einmitt um að kljást við þetta lífveruform, vírusinn.

Umræddur vírus sýndi sig fljótlega að vera afar skæður þó leynt virðist hafa verið farið með í upphafi hversu skaðlegur hann í raun er. Hann hafði þá ekki hlotið neitt nafn. Fyrirbæri þetta af kórónavírusætt hefur á örskömmum tíma umbreytt lífi allra jarðarbúa svo um munar.

SARS-CoV-2 er hann nú nefndur og talinn eiga uppruna sinn í Kína. Sumir segja á kjötmarkaði þar. Þeir sem þar höndla munu lifa í miklu nábýli við lifandi og dauðar afurðir sínar sem þeir síðan slátra eða selja lifandi. Þarna ægir saman ýmsum dýrum og dýrategundum. Sumar þeirra kjósum við á Vesturlöndum ekki að leggja okkur til munns.

Menn telja reyndar að uppruna COVID-19 megi rekja til leðurblaka. Í iðrum þeirra munu vera hagstæð skilyrði fyrir slíkan vírus. Kjötmarkaðir þeir sem áður er getið eiga sér langa hefð. Hvort þeir eru hin eiginlega uppspretta skal ég ekki fullyrða um en svo náið sambýli manns og dýra og þeirra vessa sem þar fyrirfinnast eru líklega hættulegri en menn grunar. Þó er talið að kórónuveirufaraldurinn, SARS-CoV-1 (2002-2003) hafi byrjað á sama hátt. Drógu menn lærdóm af þeim faraldri? Héldu menn að þetta gæti ekki endurtekið sig? SARS-CoV-1 (2002-2003) náði þó ekki þeirri miklu útbreiðslu sem núverandi faraldur hefur náð. Það má velta upp ýmsum hugsanlegum skýringum á því. Margt fleira þarf nefnilega til, svo sviðsmynd sú sem nú er uppi verði raunin.

Opnun landamæra í austurátt, velmegun, miklar tækniframfarir í flugi og siglingum, ásamt hratt vaxandi alheimstúrisma þar sem fólk getur ferðast kringum hnöttinn á fáum klukkustundum eru allt mikilvæg púsl í heildarmyndinni. Flest af því sem nú er mögulegt þar, hefði verið algerlega óhugsandi fyrir nokkrum áratugum síðan.

Viðbrögð sóttvarnaryfirvalda í löndum heims voru æði misjöfn og misskjót. Umfang vandans var ekki ljóst í upphafi og margt bendir til að upplýsingum um eðli og alvarleika vandans hafi verið haldið undan með ónógri/villandi upplýsingagjöf. Hér á landi var málið tekið föstum tökum snemma og segja má að heilbrigðiskerfinu hér á landi hafi verið umbylt á örskömmum tíma til að snúa vörn í sókn. Þar hefur að mínu mati verið unnið mjög faglega af hálfu sóttvarnaryfirvalda með fulltingi stjórnenda þessa lands. Stjórnmálamenn hér á landi hafa nefnilega borið gæfu til að hlusta á fagfólk í forsvari heilbrigðismála. Það var engan veginn sjálfgefið í upphafi að svo yrði og hefur því miður ekki verið raunin alls staðar.

Baráttan hefur tekið mjög á hér sem annars staðar. Margir hafa smitast/veikst, allnokkrir látist og atvinnulífið og þjóðfélagið hefur orðið fyrir gríðarmiklum skelli og sér engan veginn fyrir endann á því.

Faraldurinn hefur með samhæfðum aðgerðum hægt mjög á sér, en fórnarkostnaður hefur verið mikill. Þegar þetta er ritað, 20. apríl, eru tvær vikur þar til hefja skal hægum skrefum tilslakanir á þeim höftum sem sett hafa verið hér á landi. Margt bendir til að sá vegur verði vandfarinn en við verðum öll sem eitt að fara varlega og varast að fórna þeim árangri sem náðst hefur.

Sú forystusveit sem valist hefur til þessa verks hér á landi hefur verið afar farsæl og ég efast ekki um að sú sveit, með okkar fulltingi og samvinnu, beri gæfu til þess áfram. Vonandi fara hjól atvinnu- og þjóðlífsins alls að snúast hægt og rólega aftur og við að ná vopnum okkar. Líklegt er að heimsmynd okkar og hugmyndir verði þó æði breytt að afloknum faraldri.

Mikilvægt er að brjóta til mergjar hverju þarf að breyta og hvað þarf að varast til að svona faraldur komi aldrei upp aftur. Ráðast þarf að rót vandans og brjóta upp þá keðju atvika sem leiðir til myndunar slíkra skæðra faraldra, nú endurtekið af völdum kórónaveiru. Ég hef þá trú að slíkt sé mögulegt. Kannski er það barnalegt að bera slíka ósk í brjósti en mikilvægt er að vita – í þeim mæli sem unnt er: Hvert ferðinni er heitið – Quo Vadis?Þetta vefsvæði byggir á Eplica