05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Landlæknir segir álagið hafa minnkað milli vikna


Alma D. Möller landlæknir á daglegum upplýsingafundi Almannavarna þann 27. apríl. Mynd/gag

„Við höfum séð milli vikna hvernig álagið á starfsfólki og stofnunum hefur minnkað,“ segir Alma D. Möller landlæknir. Embættið fær reglulega skýrslugjöf um ástandið á heilbrigðisstofnunum landsins nú í kórónuveirufaraldrinum. Landlæknir skoðar hvort vert sé að halda skýrslugjöfinni áfram þegar faraldrinum lýkur.

Hún segir kerfið einfalt, byggt á þremur litum, rétt eins og umferðarljós. Aðeins einu sinni í faraldrinum hefur rauðu ljósi verið flaggað. „Það var fyrir vestan. Ástandið varði í tvo daga og var leyst með bakvörðum og auknum aðbúnaði.“

Alma segir afar mikilvægt að tekist hafi að afstýra því að heilbrigðisstarfsfólk hér á landi hafi ekki þurft að forgangsraða meðferð sjúklinga sinna sem þjáist af Covid-19. Einnig að hér hafi ekki skort hlífðarbúnað. Heilbrigðisstarfsmenn víða um heim þurfi að vinna sig í gegnum slíkt áfall.

„Það varðar bæði traust almennings á heilbrigðisþjónustu og líka traust heilbrigðisstarfsfólk á stofnunum sínum. Þetta traust hefur ekki beðið hnekki hér á landi.“




Þetta vefsvæði byggir á Eplica