03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Er gagn að viðbótarfjármagni í heilsugæsluna?

Unnið hefur verið markvisst að því að bæta aðgengi að heilsugæslunni. Opin móttaka er á öllum heilsugæslustöðvum þar sem hjúkrunarfræðingar taka á móti erindum samdægurs og koma í viðeigandi farveg. Læknir er tiltækur ef á þarf að halda.

Aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðismál hefur aukið sálfræðiþjónustu síðustu ár. Nú starfa sálfræðingar á öllum heilsugæslustöðvum HH og heildarfjöldi viðtala er um 16.000 á ári. Rafræn samskipti við notendur þjónustunnar í gegnum Mínar síður á Heilsuveru hafa margeflst, og heimsóknum á þekkingarvef Heilsuveru hefur einnig fjölgað mikið og vefurinn nú orðinn þekktur meðal almennings.

Gott samstarf er á milli Landspítala og heilsugæslunnar og hér eru nokkur dæmi um það:

  • Bráðamóttakan – aukið aðgengi að heilsugæslustöðvum fækkaði komum á Bráðamóttöku um 15%. Við það skapaðist svigrúm til að flytja Hjartagáttina í Fossvoginn
  • Bæklunarlækningar – undirbúningur undir aðgerðir
  • Öldrunarþjónusta – samstarf með Landakoti
  • Svefnrannsóknir – þátttaka heilsugæslunnar í skimun
  • Brjóstakrabbamein – þátttaka heilsugæslunnar í eftirfylgd

Geðheilsuteymi

Hlutverk geðheilsuteyma er margvíslegt. Fyrst og fremst snýst þjónustan um að veita meðferð og stuðning þeim sem hafa þörf fyrir sérhæfða geðþjónustu og tryggja góða samvinnu á milli þeirra stofnana og geðúrræða sem gætu nýst notendum. Þjónustan byggir á einstaklingsviðtölum, heimavitjunum og námskeiðum. Gagnsemi geðheilsuteyma mælist í ánægju þeirra sem fá þjónustu í sínu nærumhverfi sem snýr að því að valdefla einstaklinginn og styðja til sjálfbærni.

Þroska og hegðunarstöð

Á árinu 2016 var lögð mikil áhersla á að stytta biðlista og var stærsti hópurinn sem fékk þjónustu börn með ADHD án mikilla fylgiraskana.

Á síðustu árum hefur greiningar-, meðferðar- og eftirfylgdarþjónusta Þroska og hegðunarstöð (ÞHS) vegna barna að 18 ára aldri með einhverfu og aðrar alvarlegar, flóknar og samsettar raskanir verið aukin og bætt að faglegum gæðum. Á sama tíma hefur ásókn í þjónustu vegna flókinna vandamála aukist og fjármagn er ónógt miðað við þennan skjólstæðingahóp sem kemur af öllu landinu.

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Frá stofnun Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) í september 2018 hafa starfsmenn miðstöðvarinnar komið að fjölmörgum verkefnum. Lögð hefur verið áhersla á að öll þjónusta sem miðstöðin veitir sé aðgengileg öllum heilsugæslustöðvum á landinu. Meðal verkefna eru meðferð við langvinnum verkjum, skimanir og nýjar leiðbeiningar við meðferð sykursýki. Starfsmenn ÞÍH koma að gerð fræðsluefnis og leiðbeininga fyrir Heilsuveruna.

Á því rúma ári sem ÞÍH hefur starfað hefur mikilvægi starfseminnar margsannað sig. Mikilvægið má skoða sem jafnan stuðning við allar heilsugæslustöðvar á landinu. Í því felst samþætting verkþátta, innleiðing verkferla varðandi einstök heilbrigðisvandamál og ekki síst að styðja heilsugæsluna í landinu almennt þannig að hún geti sinnt sínu hlutverki á markvissan og skilvirkan hátt. Slíkt er afar erfitt að framkvæma fyrir einstakar minni einingar. Öflug Þróunarmiðstöð hefur því sýnt sig að geta stutt við þjónustu heilsugæslunnar á landsvísu og á þann hátt bætt þjónustuna, gert hana ódýrari og markvissari, varið bráðamóttökur sjúkrahúsa en síðast en ekki síst er markmiðið að beita lýðheilsuforvörnum til að draga úr þörf á heilbrigðisþjónustu með leiðbeiningum til landsmanna um sjálfshjálp.

Höldum áfram á sömu braut

Töluverðu viðbótarfjármagni hefur verið varið til heilsugæslunnar síðustu ár. Stór hluti þessa fjármagns hefur farið í einstök skilgreind verkefni eins og til dæmis geðheilsuteymi, sálfræðiþjónustu fyrir börn og fullorðna, þjónustu sjúkraþjálfara og eflingu heimahjúkrunar með þverfaglegu endurhæfingarteymi. Þá hefur töluvert fjármagn farið í styrkingu á Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu til að efla gæði, skilvirkni og þróun á verkferlum í heilbrigðiskerfi utan spítala.

Umsvif heilsugæslunnar hafa aukist til muna síðustu ár. Aðgengi að þjónustu er gott, þar sem bráðavanda er sinnt samdægurs og aukin áhersla á þverfaglega verkferla og mismunandi þjónustuform, svo sem aukna rafræna þjónustu. Þetta skilar betri heilbrigðisþjónustu og bættu heilbrigði þar sem áhersla er lögð á að veita rétta þjónustu á réttum stað á réttum tíma.

Framtíðarsýn heilsugæslunnar er að hún sé grunnstoð heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan hefur á að skipa mannauði, starfsumhverfi og skipulagi sem mætir þörfum skjólstæðinga og samfélags á hverjum tíma. Áhersla er á sveigjanleika, markvissa þróun og nýsköpun í allri þjónustu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica