03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Jókerinn - kvikmyndarýni

                                  

Það hefur vafalaust ekki farið fram hjá neinum að Hildur Guðnadóttir, tónlistarkona og tónskáld, varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun þann 10. febrúar síðastliðinn. Vann hún þessi mjög svo verðskulduðu verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker og má segja með sanni að hún hafi verið landi og þjóð til sóma. Það á einnig við um þakkarræðu hennar, sem var með þeim eftirminnilegri það kvöldið og lagði áherslu á að hvetja stelpur og konur heimsins til dáða. Aðra mjög eftirminnilega þakkarræðu flutti Joaquin Phoenix, sem fékk Óskarsverðlaun fyrir besta leik, en hann lék titilhlutverkið í Joker. Þar undirstrikaði hann sameiningarmátt baráttu fyrir réttlæti, mikilvægi þess að viðhalda henni og einblína ekki á eitt form þess frekar en önnur. Þar skín í gegn áhugi hans á dýravernd, sem hann hefur verið ötull baráttumaður fyrir og hefur sjálfur verið grænkeri frá þriggja ára aldri.

                                   

                                   

Það er áhugavert að réttlæti sé svo framarlega í huga Hildar og Joaquins, ekki síst þar sem réttlæti, í orðsins fyllstu merkingu, er rauður þráður í gegnum Joker. Í grunninn er myndin saga um uppruna illmennis (köllum hann Jóker) sem er næstum jafnfrægt og hans helsta andstæða, Leðurblökumaðurinn (Batman ef maður vill ekki hljóma lúðalega). Hins vegar er áherslan nær einvörðungu á manninn á bak við andlitsmálninguna: Arthur nokkurn Dent. Arthur er einangraður íbúi í borginni Gotham (í raun New York í einu og öllu nema að nafninu til), býr hjá veikri móður sinni og starfar sem trúður. Hann á sér hins vegar langþráðan draum um að fara í uppistand og uppfylla hlutverkið sem móðir hans úthlutaði honum: að dreifa gleði og hlátri til þeirra sem á hann hlýða.

Býsna margt stendur þó í vegi hans. Arthur glímir við margskonar heilsubresti. Fyrst ber að telja viðvarandi, alvarlega depurð og hláturköst sem hann ræður ekki við. Arthur þjáist af pseudobulbar affect (annað nafn er involuntary emotional expression disorder), sem lýsir sér með óviðeigandi, ýktum hlátri eða gráti í köstum. Margvíslegar orsakir geta verið að baki, svo sem heila- og mænusigg (multiple sclerosis), heilablóðföll og heilaskaði eftir áverka (traumatic brain injury eða TBI). Síðar uppgötvast að Arthur hefur orðið fyrir miklum skaða, bæði andlegum og líkamlegum, í gegnum tíðina og þar með talið í æsku; þannig er sterkt og viðeigandi orsakasamhengi á milli undirliggjandi veikinda hans og þeirra áfalla sem hann hefur orðið fyrir.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Áberandi umræða hefur farið fram um geðraskanir og birtingarmynd þeirra í kvikmyndinni – hefur sú umræða á víxl hlaðið myndina lofi eða gagnrýni. Einnig hefur verið gagnrýnt að myndin sýni illmenni í of aumkunarverðu ljósi. Í þróuninni yfir í Jóker tekur Arthur nokkrar voveiflegar ákvarðanir, margar hverjar með ofbeldisfullum afleiðingum.

Þó harmsaga Arthurs höfði sterkt til til-finninga áhorfandans verður sífellt erfiðara að horfa fram hjá gjörðum hans. Reiði hans og vanlíðan eiga svo sannarlega rétt á sér en sama er ekki hægt að segja um viðbrögð hans við þeim tilfinningum.

Þrátt fyrir endurtekið áhorf er erfitt að mynda sér heildstæðar staðhæfingar um persónu og eiginleika Arthurs án þess að fylla í nokkuð stórar eyður (sem ég m.a. geri hér á eftir). Arthur hefur, á einhverjum tímapunkti, verið lagður inn á geðspítala. Einnig er hann á lyfjum og hittir reglulega ráðgjafa sem honum var úthlutað af borginni. Hann lýsir þrálátum neikvæðum hugsunum, depurð og áhugaleysi. Hann lýsir vonleysi, erfiðleikum við að tengjast öðrum og efast meira að segja stundum um sína eigin tilvist. Óljós skil eru á milli raunveruleika og drauma í myndinni. Því er erfitt að átta sig á hvort um sé að ræða ofskynjanir eða ekki. Oftar en einu sinni hegðar hann sér eins og hann vilji deyja.

Það má teygja skilgreiningar til svo persónan falli undir einhvern einn flokk geðraskana en raunveruleikinn er miklu flóknari. Þetta var meðal annars það sem Joaquin gerði af ásetningi – að hafa mörg atriði í fari Jókersins óljós og sveipa persónuna vissri dulúð. Hann vildi forðast að persónan yrði greind með vel skilgreind vandamál af áhorfendum. Hins vegar er enginn vafi á því að Arthur er jaðarsettur í sínu samfélagi.

Jókerinn er maður með alvarlega áfallasögu, brigðult stuðningsnet, með þrálátan sjúkdóm sem gerir honum erfiðara fyrir að tengjast öðrum, tengjast samfélaginu, vera eðlilegur. Hann þráir viðurkenningu, upplifir draumóra um hamingju, föðurást og frama. Hins vegar hefur hann upplifað merki gleðinnar, hlátur, sem hindrun og raunar sjúkdóm alla ævi. Kaldhæðnisleg örlög hans eru þau að reyna að fá aðra til að hlæja með sér. Frumraun hans í uppstandi gerir hann sjálfan að athlægi og hann mætir höfnun og háði. Síðar uppgötvar hann hluti um fortíð sína sem kollvarpa öllu sem hann hélt sig þekkja; hann missir vinnuna; upplifir djúpstæð svik. Til að bæta gráu ofan á kolsvart hætta borgar-yfirvöld að greiða fyrir lyfin hans og ráðgjafa. Veikburða líf hans hrynur á svipstundu, hann missir öll bjargráð og það sem situr eftir er hann sjálfur, hláturinn og skömmin. Hann sér fátt til að lifa fyrir og heimur versnandi fer.

Arthur fær hins vegar hugljómun – hugljómun sem réttlætir allt, útskýrir allt, gerir honum kleift að lifa með sársaukanum. Líf hans er ekki tragedía heldur kómedía. Hans hlátur er og hefur alltaf verið viðeigandi. Missir, dauði, eymd, glundroði: allt er einn stór brandari. Þessi augljóslega óviðeigandi aðlögun er rótin að breytingu hans yfir í Jóker, forsenda þess að ná sátt við sjálfan sig og öðlast innra jafnvægi. Þessi nýja túlkun hans á lífinu hefur afdrifaríkar afleiðingar.

Joaquin nær að koma þessu óaðfinnanlega til skila með leik sínum. Hann hefur áður sýnt sig að vera einn besti leikari sinnar samtíðar (sjá frammistöðu hans í The Master, Walk the Line (um Johnny Cash) og Her) en með Joker nær hann að fullnýta hæfileika sína. Mikið af persónusköpun hans er sjálfsprottin eða spuni, þar með talið hinn einkennandi hlátur hans. Dans Jókersins, sem byrjar sem tilraun til tjáningar, er fullkomið dæmi um það hvernig litlir hlutir geta gefið persónu ómælanlega dýpt.

Þrátt fyrir mikla tilfinningadýpt myndarinnar nær hin óaðfinnanlega tónlist Hildar að bæta við þessa dýpt. Hún tengir Arthur við drungalegan raunveruleika hans, þar sem selló fær sérstaklega að njóta sín með djúpum, breiðum tónum. Þetta fléttast við frábæra hönnun á Gotham og unaðslega kvikmyndatöku. Tónlist Hildar gerir leik Joaquins sannarlega að þungamiðju myndarinnar.

Hvernig tengist Joker þá réttlæti? Á sögusviði myndarinnar er mikil óánægja með ráðamenn borgarinnar og auðvaldið. Voðaverk Arthurs fléttast inn í þessa ólgu. Það eru verkföll og stöðugur niðurskurður í þjónustu borgarinnar – þetta endar með niðurskurði á þeirri geðheilbrigðisþjónustu sem Arthur nýtti. Þetta eru gamalkunn stef í listum en í Joker er áherslan frekar á upphaf og enda stefsins: jaðarsetningu og úrræðaleysi. Arthur er klárlega ekki með eitt, tvö eða þrjú aðgreinanleg vandamál. Hann er vissulega jaðarsettur en bregst við aðstæðum sínum á versta mögulega veg. Það má færa rök fyrir því að ef saga Arthurs ætti sér stað í okkar samtíma hefði verið hægt að koma í veg fyrir umbreytingu hans yfir í Jókerinn. Það er hins vegar ljóst að lítið stóð honum til boða þegar það skipti allra mestu máli. Þó þekkingin sé ekki ný af nálinni er aukin vitundarvakning um mikilvægi þess að leggja sérstaka áherslu á betri þjónustu til jaðarsettra einstaklinga innan samfélags, þótt það kunni að reynast erfitt og fjárfrekt.

Verandi sjálfboðaliði í skaðaminnkunarþjónustunni Frú Ragnheiði verður mér oft hugsað til þeirrar þjónustu sem við á Íslandi bjóðum jaðarsettum einstaklingum. Þessi þjónusta felst oftast í að hjálpa einstaklingum sem stríða við langvinnan fíknivanda, mikla áfallasögu og/eða heimilisleysi. Eftir ótalmörg samtöl er ljóst að það eina sem okkar skjólstæðingar eiga sameiginlegt er að þeir hafa sína eigin einstöku harmsögu að segja. Það er ekki til eitthvert dæmigert „tilfelli“. Að sama skapi er ekki nein ein „lausn“. Vandinn er einstaklingsbundinn og lausnin sömuleiðis. Því miður eru mörg ljón í veginum fyrir þróun árangursríkra, einstaklingsbundinna lausna. Við erum enn á þeim stað að þeir sem nota fíkniefni þráast við að leita sér aðstoðar vegna (raunhæfs) ótta við fordóma. Við erum enn á þeim stað að fórnarlömb ofbeldis lifa í skugga hræðslu og ná sjaldan að framfylgja rétti sínum. Við erum enn á þeim stað að lífsbjargandi lyf eins og naloxone eru ófáanleg fyrir þá sem þurfa mest á þeim að halda. Við erum enn á þeim stað að viðunandi meðferð hjá sálfræðingi getur kostað tugi eða hundruð þúsunda króna með takmörkuðum möguleikum á niðurgreiðslu. Við erum enn á þeim stað að tannlæknaþjónusta er ekki niðurgreidd nema í mesta lagi um 50% með mjög ströngum skilyrðum í afmörkuðum hópum samfélagsins.

Að vera jaðarsettur er ekki einkenni eins samfélagshóps – það eru fjölþættar aðstæður hverju sinni sem skera úr um hvort einstaklingur nær að fóta sig í samfélaginu eða ekki. Meðal hópa sem eru útsettir fyrir því að vera jaðarsettir er fólk með þrálátar geðraskanir, fólk með króníska verki, fatlaðir og aldraðir. Marga aldraða má skilgreina sem jaðarsetta – þeir sem geta ekki lengur verið heima, hafa fengið samþykkt færni- og heilsumat en þurfa að þola bið eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þangað til liggja þeir inni á legudeildum, í hvíldarinnlögnum og stundum jafnvel á göngum bráðamóttöku. Eylönd innan eylanda í hafsjó gulra einangrunarsloppa og blikkandi ljósa.

Auðvitað eru flestir innan kerfisins að gera sitt besta. Við erum flest að gera okkar besta. Erum við að gera nóg? Eru stjórnvöld að gera nóg? Erum við að leggja næga áherslu á þjónustu til jaðarsettra? Erum við með innviðina til þess? Hvað skal gera þegar heilbrigðisráðherra hvetur lækna til að hætta að tala um neyðarástand? Er viðunandi að legudeild sé rekin á bráðamóttöku þar sem viðunandi smitgát er því sem næst ómöguleg? Hvað gerist ef og þegar nýjustu kórónaveiruna rekur á fjörur Íslands? Þegar stórt er spurt. Kannski er auðveldara að horfa á þetta allt saman sem kómedíu.Þetta vefsvæði byggir á Eplica