03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Jafnlaunavottun á Landspítala. Ýmir Óskarsson

Þann 1. janúar 2018 tóku gildi lög sem skylda öll fyrirtæki og stofnanir í landinu með 25 eða fleiri starfsmenn til að gangast undir jafnlaunavottun. Samkvæmt þessum lögum þurfa fyrirtæki og stofnanir að geta sýnt fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Nú í byrjun febrúar 2020 hlaut Landspítali jafnlaunavottun.

Til þess að hljóta jafnlaunavottun þarf að meta öll störf spítalans. Það er ekki auðvelt að meta á sanngjarnan hátt yfir 240 störf á jafn stórri og flókinni stofnun og Landspítali er. Vanda þarf sérstaklega vel til verka. Skemmst er frá því að segja að læknum hefur ekki fundist Landspítali hafa sýnt vönduð, gagnsæ eða hlutlaus vinnubrögð í þessu ferli. Fékkst því jafnlaunavottunin að lokum án aðkomu lækna Landspítalans.

Landspítali ákvað að nota flókið starfsmatskerfi frá NHS (National Health Service) í Bretlandi til þess að flokka störf á spítalanum. Þetta kerfi hefur aldrei verið notað til að meta störf lækna í Bretlandi. Kerfið er byggt upp á 16 þáttum til mats á störfum og inniheldur hver þáttur mismunandi þrep. Því fleiri stig sem starfið fær því verðmætara er það talið. Mesti mögulegi fjöldi heildarstiga eru 1000 stig. Þetta kerfi á að meta öll störf innan Landspítala. Sama mælistikan fyrir yfir 240 starfstitla.

Það skiptir því öllu máli hvernig mælistikan sjálf er útfærð og unnin. Þar sem mælistikan er ekki hönnuð til að ná utan um læknisstarfið gerði Landspítali örlitlar einhliða breytingar á breska kerfinu til að reyna að aðlaga það betur íslenskum aðstæðum. Haustið 2018 gerði Landspítali forprófanir á starfsmatskerfinu. Þá var meðal annars tekið viðtal við einn deildarlækni á spítalanum en engan kandídat. Niðurstöður forprófana sýndu að afar lítill munur var á stigum deildarlæknis (537 stig), ljósmóður (565 stig), deildarstjóra (593 stig) og sérfræðilæknis (624 stig). Forprófun Landspítala á kerfinu eftir staðfærslu sýndi því glögglega að breytingarnar náðu engan veginn utan um læknisstarfið. Mælistikan er því gölluð en henni mátti ekki breyta. Lagfæra átti stigagjöfina með óskilgreindum, óljósum viðbótarþáttum. Neituðu læknar að taka þátt í slíkum vinnubrögðum þar sem grunnurinn, mælistikan, var ennþá gölluð. Matsþátturinn „Hreyfing, samhæfing og viðbragð” er gott dæmi um það. Í 4. þrepi kemur fram: „Starfið krefst háþróaðrar færni í aðstæðum sem kalla á mikla nákvæmni eða hraða“ og undir þetta þrep fellur meðal annars færni til að framkvæma skurðaðgerðir og einnig færni til að setja upp flóknar lyfjagjafir með mörg lyf og fást því sömu stig fyrir þetta tvennt. Þá er kennsla einnig lítið metin og ýmis fleiri dæmi mætti nefna.

Þeir sem kynna sér starfsmatskerfið sjá fljótt að það gefur mjög bjagaða og ósanngjarna mynd af læknisstarfinu þar sem dregið er úr virði þess miðað við aðrar starfsstéttir. Það sem verra er, Landspítali tók ekki til greina alvarlegar athugasemdir læknafélaganna og Læknaráðs Landspítala og tillögur þeirra til umbóta og sátta. Landspítali hélt áfram að þróa kerfið á gölluðum grunni og því gaf LÍ út tilmæli til félagsmanna sinna um að taka ekki þátt í vinnustofum til að ákvarða viðbótarþættina. Þann 15. nóvember síðastliðinn sendi síðan Læknaráð Landspítala frá sér eftirfarandi ályktun: „Þrátt fyrir ítrekuð andmæli og virka upplýsingagjöf af hálfu Læknaráðs og læknafélaga hafa stjórnendur spítalans haldið áfram að meta störf lækna með tæki sem tekur hvorki tillit til eðlis læknisstarfsins né menntunarkröfu lækna.

Í ársbyrjun 2020 voru niðurstöður starfsmatskerfisins svo birtar. Þar komu eingöngu fram hæstu og lægstu möguleg stig fyrir hvert starfsheiti, upplýsingar um miðgildi skorti. Í lokaútgáfunni koma sérfræðilæknar talsvert betur út miðað við forprófanir á kerfinu og fá 632 til 784 stig og yfirlæknar fá 659 til 801 stig. Almennir læknar fá aðeins 440 til 592 stig og kandídatar fá 398 til 435 stig. Almennir læknar koma því enn verr út en áður og fá ekki ásættanlegan stigafjölda sem samrýmist menntun, ábyrgð og mikilvægi vinnu þeirra. Almennir læknar vinna oftar en ekki í fremstu víglínu spítalans og bera uppi móttöku, vaktir og deildarvinnu.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er meðal annars að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði sem er gríðarlega mikilvægt og að sjálfsögðu á Landspítali að vera vinnustaður sem tryggir jafnrétti. En það er óásættanlegt að Landspítali fái samþykkta jafnlaunavottun með þessum hætti í andstöðu við lækna. LÍ og aðildarfélög þess ásamt Læknaráði Landspítala hafa unnið ötullega gegn því að notað sé matstæki sem getur ekki fyllilega metið störf lækna og munu halda því áfram. Félag almennra lækna lítur alvarlegum augum á mat Landspítala á virði starfa þeirra.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica