03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Fréttasíðan

Samningslausir læknar

Kjaraviðræður lækna og ríkisins eru skammt komnar að sögn Sigurveigar Pétursdóttur, formanns samninganefndar Læknafélags Íslands.

„Þetta er bara eins og hjá mörgum öðrum, skammt komið. Við erum bara aðeins byrjuð að ræða saman,“ segir Sigurveig. Ekki sé enn farið að ræða um stök atriði samninganna, þó verið sé að skoða ýmsa hluta samningsins sem vandræði hafa verið með túlkun á.

Samningar hafa nú verið lausir í um ár og gefur Sigurveig lítið fyrir að óþolinmæði sé farið að gæta meðal viðsemjenda. Kjaradeilan sé ekki á leið til ríkissáttasemjara í bráð.

Deiluaðilar funduðu síðast 19. febrúar, tveimur dögum eftir að allsherjarverkfall starfsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg hófst og næsti fundur er á dagskrá þann 11. mars, tveimur dögum eftir að BSRB hefur verkfallsaðgerðir sínar. Sigurveig viðurkennir að samninganefndin fylgist grannt með því sem þar gerist þó ekki sé um sambærilega samninga að ræða.

„Læknar eru dagvinnufólk sem tekur vaktir og því höfum við aðeins aðra stöðu en margir aðrir,“ segir hún. - ase

Engin afsökun

Mistök og klúður urðu við samningu texta við myndir frá Læknadögum sem birtar voru í febrúarblaðinu. Ritstjórnarfulltrúinn gerðist sekur um karlrembu á háu stigi, og biðst hér með innilega afsökunar. - Nýr texti:

Þessi voru samankomin á Læknadögum: unglæknirinn Helga Þórunn Óttarsdóttir, hjónin Dagbjörg B. Sigurðardóttir geðlæknir og Davíð O. Arnar hjartalæknir – og sveinbarnið Davíð Bragi Gústavsson sem var 6 mánaða þegar myndin var tekin í Hörpu í janúarlok.

Kvensjúkdómalæknir vill sjá drengi bólusetta við HPV-veirunni

Bólusetja þyrfti drengi rétt eins og gert er með stúlkur gegn HPV- veirunni (Human Papilloma Virus), segir Auður Smith, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir. Veiran er samkvæmt vef Embættis landlæknis aðalorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. Talið er að um 80% kvenna smitist af henni en hún smitast við kynmök.

„Drengir fá vörtur. Þeir geta fengið krabbamein sem afleiðingu af vörtum,“ segir Auður. Það eigi við um karlmenn óháð kynhneigð en algengara sé með samkynhneigða menn en aðra að þeir fái vörtur við endaþarm og jafnvel krabbamein af veirunni.

„Þeir fá vörtur í munn, háls og raddbönd sem einnig er að verða algengara hjá konum,“ segir hún. Meginástæða þess að bólusetja ætti drengi sé þó sú að þeir beri veiruna á milli þótt stúlkur séu bólusettar og fái mótefnin.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, barnalæknir og verkefnastjóri bólusetninga á sóttvarnasviði Embættis landlæknis, segir að það hafi komið til tals að bólusetja drengi. Kostnaður við bólusetningarnar nú sé á bilinu 55-60 milljónir króna á ári.

„Okkur vantar upplýsingar um faraldsfræði HPV í öðrum meinum en leghálskrabbameini hér á landi til að geta rökstutt ávinninginn fyrir ráðherra,“ segir hún. „Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur mælst til þess að vestrænar þjóðir taki ekki upp bólusetningu drengja við HPV meðan heimsskortur er á bóluefnunum.“

Hún segir þó að frekar ólíklegt verði að teljast að 2000 skammtar árlega til drengja hér á landi hafi veruleg áhrif á þann skort. „En þessi tilmæli og kostnaður og umstang við útboð, auk gagnaskorts um væntanlegan ávinning, gera það að verkum að ólíklegt er að farið verði í nýtt útboð þar sem beðið yrði um nægilegt bóluefni til að bólusetja óháð kyni fyrr en núverandi samningur rennur út.“

Haustið 2011 hófu heilbrigðisyfirvöld bólusetningar gegn HPV- veirunni. Miðast bólusetningin eingöngu við 12 ára stúlkur og er HPV-bólusetningin þar með hluti af almennum bólusetningum barna.

Núverandi samningur rennur út um mitt ár 2023.

- gag

Auður Smith kvensjúkdómalæknir vill að drengir séu bólusettir fyrir HPV-veirunni. Hún hélt erindi um píkuheilsu á málþingi um kynlífsraskanir á Læknadögum. Mynd: Védís

Bíði ekki lengur en sex stundir frá komu

Forgangsröðun er nauðsynleg forsenda þess að Landspítali geti tekist á við vanda bráðamóttökunnar að mati átakshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um ástandið sem þar hefur skapast.

Fram kemur í skýrslu hópsins að húsnæði bráðamótttökunnar eigi að duga án viðbyggingar til ársins 2025, fækki þeim sjúklingum sem bíða þar rýmis á legudeildum umtalsvert. Er brýnasta verkefnið því að mati hópsins að tekin verði hið fyrsta stefnumarkandi ákvörðun innan spítalans um flutning þeirra sjúklinga bráðamóttökunar sem þurfa innlögn á aðrar deildir. Sjúklingar eigi ekki að bíða innlagnar lengur en sex klukkustundir frá komu og alls ekki allt að þrjá sólarhringa líkt og gerist stundum.

Lagt er til að sjúkraflutningamenn fái að meðhöndla sjúklinga í heimahúsum og aukin þjónusta veitt í gegnum síma og net. Eins verði líknarþjónusta við dauðvona sjúklinga og sérhæfð heimaþjónusta við aldraða sjúklinga tekin upp nú þegar. Ekki stendur til að auka fjárheimildir Landspítala vegna þessara verkefna.

Átakshópnum til fulltingis voru tveir erlendir ráðgjafar með sérþekkingu á sviði bráðaþjónustu og flæðis sjúklinga innan sjúkrahúsa. Í skýrslu sinni gagnrýna þeir ástandið. Bið á bráðadeild sé hættuleg þeim sjúklingum sem þar eru fastir og áhyggjuefni sé að vandinn virðist færast í vöxt. Sökin sé hins vegar ekki bráðadeildarinnar, heldur sé frekar áhyggjuefni að framkvæmdastjórn spítalans skuli kjósa að líta á spítalann sem fórnarlamb frekar en að axla ábyrgð og leita lausna.

- ase

Fjöldinn sem ekki sinnir klínískum störfum verði greindur

Mikilvægt er að tryggja störf og starfsaðstæður þess sérhæfða heilbrigðismenntaða starfsfólks sem sinnir sjúklingum á Landspítala í boðuðum aðhaldsaðgerðum spítalans. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn Læknaráðs sendi frá sér.

Spítalinn hefur boðað aðhaldsaðgerðir vegna ónógra fjárveitinga miðað við núverandi rekstur spítalans, en jafnframt lýst því yfir að reynt verði að hlífa klínískri þjónustu. Stjórn Læknaráðs segir forgangsröðunina virðingarverða, en bendir jafnframt á að víða erlendis hafi kostnaður hins opinbera við stjórnsýslu í heilbrigðiskerfinu margfaldast undanfarna áratugi samfara fjölgun starfsmanna í stjórnunar- og skrifstofustörfum. Á sama tíma hefur klínískum starfsmönnum hins vegar fjölgað mun hægar.

Stjórn Læknaráðs óskar því eftir greiningu á fjölda stjórnenda og annarra starfsmanna spítalans sem ekki sinna klínískum störfum og hvetur Landspítala til þess að birta þær niðurstöður. Rannsaka þurfi hvort þar leynist tækifæri til aðhalds. Hagsmunir og þarfir sjúklinga þurfi enda að vera höfð að leiðarljósi í þjónustu, rekstri og skipulagi spítalans.

- ase

Mörkin milli þess raunverulega og ósanninda oft óljós

                                           
                                            Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur að messa um falsfréttir á 20
                                            ára afmælisþingi Vísindavefsins/vefjarins í Þjóðminjasafninu. Guðni Th.
                                            Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði samkomuna sem fyrrum starfsmaður
                                           á plani afmælisbarnsins og vakti athygli á tveimur ólíkum
                                           eignarfallsendingum orðsins vefur. Ljósmynd Kristinn Ingvarsson.

Læknar hafa verið blekktir til að sprauta vökva sem átti að innihalda stofnfrumur í liðina á fólki, stundum með slæmum afleiðingum. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Ernu Magnúsdóttur, dósents í sameindalíffræði hjá Háskóla Íslands á 20 ára afmælismálþingi Vísindavefsins í síðasta mánuði. Yfirskrift málþingsins var Falsfréttir og vísindi og flutti Erna þar erindið „Er almenningur blekktur með falsvísindum?·“

Kvaðst Erna fá mikið af fyrirspurnum, til að mynda tengdum stofnfrumum. „Oftast veit ég svarið, en það er þó ekki alltaf augljóst hvað er satt og hvað er logið.“ Sem dæmi um falsvísindi nefndi hún fyrrnefnda stofnfrumumeðferð þar sem stofnfrumum úr naflastreng er sprautað í liðina til að endurheimta brjósk. „Þetta er meðferð sem er í boði núna og er því miður ekki byggð á vísindum,“ sagði hún. Eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum nái því miður ekki að fylgja eftir því sem sé að gerast varðandi stofnfrumur og læknar hafi verið blekktir. Mikið magn upplýsinga sé enda að finna sem gefi til kynna að þetta sé raunveruleg meðferð.

Stofnfrumurannsóknum fer stöðugt fjölgandi og bendir Erna á að ekki sé skrýtið að erfitt sé að átta sig á því hvað er satt og hvað er logið þegar stöðugt er verið að flytja fréttir af nýjum tilraunum.

„Það er hægt að gera ótrúlega hluti með vísindum í dag, þannig að það er ekki skrýtið að mörkin milli hins raunverulega og ósanninda séu orðin svolítið óljós,“ segir Erna.

Þegar sannleikskorn reynist í fullyrðingum verði að horfa á staðreyndirnar og það geti verið mikil vinna, líka fyrir þá sem til þekkja.

- aseÞetta vefsvæði byggir á Eplica