03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Brjóstaskimunin stærsta vandamálið, - yfirlæknir Leitarstöðvarinnar um fyrirhugaðan flutning

                                            
                                             Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins,
                                             óttast hnökra við flutning skimunar.

„Auðvitað vonar maður það besta og ég er alls ekki að segja að þessar breytingar séu allar neikvæðar, en það þarf að tryggja aðstöðu og fjármagn handa þeim sem eiga að taka við þessu,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, um fyrirhugaðan flutning skimunar frá félaginu.

Tíu mánuðir eru nú þar til flutningi skimanana frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslu og Landspítala á að vera lokið. Ágúst Ingi átti sæti í verkefnisstjórn sem skilaði heilbrigðisráðherra í síðasta mánuði tillögum um framkvæmd skimana að flutningi loknum. Þau Ágúst Ingi og Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, sem einnig sat í verkefnisstjórninni skiluði sérbókun með tillögunum þar sem þau lýsa áhyggjum af að yfirstjórn krabbameinsskimana verði á fleiri en einni hendi.

„Í Finnlandi voru gerðar stærri breytingar á utanumhaldi og stjórn skimana og það tók þau nokkur ár að ná upp sama dampi aftur,“ segir Ágúst Ingi. Í Noregi, þar sem stjórnin er öll á sömu hendi, gengur þetta aftur á móti mjög vel. „Þeir geta horft yfir allan ferilinn og þannig tryggt að allt frá því það er sent boð og þar til komin er niðurstaða og rannsókn, sé þetta allt ein samfella.“

Skipting milli stofnana eins og áætluð er hér getur hins vegar valdið hnökrum. Gert er ráð fyrir að Embætti landlæknis haldi utan um skimanaskrá, Sjúkratryggingar Íslands hafi umsjón með samningum, Landspítali framkvæmi frumurannsóknir og klínískar rannsóknir og heilsugæslan leghálsskimanir.

„Þetta snýst ekki um hver framkvæmir sjálfar skoðanirnar, heldur er það utanumhaldið sem við leggjum áherslu á,“ segir Ágústi Ingi. „Skimun fyrir krabbameinum þarf að vera í föstum skorðum og það þarf að fylgjast vandlega með til að við sjáum hvort þetta er að bera árangur eða ekki.“

Ágúst Ingi er svartsýnn á að mánuðirnir 10 sem eru til stefnu dugi til að tryggja hnökralausan flutning. Kvennadeildin er þó farin að undirbúa að taka við speglun, en ekki liggur fyrir hvar hýsa á frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins sem færð verður yfir til Landspítala.

„Stærsta vandamálið verður þó án nokkurs vafa er Landspítali undirbýr sig undir að taka við brjóstaskimunum. Það er höfuðverkur fyrir þau hvernig þau ætla að standa að öllum tölvukerfum og gagnagrunnum í sambandi við þetta,“ segir hann. Gagnagrunnar og tölvukerfi Krabbameinsfélagsins eru vissulega komin til ára sinna og nauðsynlegt að uppfæra þá. „En þeir eru þó að minnsta kosti til staðar og nothæfir.“

Landspítali ætlar hins vegar að skipta yfir í allt annað tölvukerfi sem ekki er þróað fyrir þessa starfsemi. „Að ætla að hafa það tilbúið held ég að sé borin von,“ segir Ágúst Ingi.

Þau Halla lýstu í bókun sinni reynslunni sem þegar er komin á flutning klínískra brjóstaskoðana til Landspítala og sem hefur skilað sér í því að þjónusta við konur hefur versnað til muna. „Þarna höfum við beint dæmi um það sem gerðist þegar starfsemin var flutt yfir á Landspítala. Það er ekkert erfitt að sjá fyrir sér, bara miðað við þá erfiðu stöðu sem Landpítalinn er í með mjög mikið af sinni starfsemi, að það sé áhyggjuefni er þeir taka yfir.“

Verkefnið sé enda viðamikið. „Við erum að tala um að færa í einu vetfangi upp á Landspítala 18-20 þúsund konur sem koma árlega í skoðun. Það koma ekki upp neinar bráðaaðstæður hjá okkur og ekkert sem truflar þar,“ bætir Ágúst Ingi við og kveðst hafa nokkrar áhyggjur af að konum verði tryggt sama aðgengi að þjónustunni og áður.

„Þetta er bara lítið brot af starfsemi Landspítala og maður veltir fyrir sér hvaða forgang skimunin mun fá.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica