02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Aðeins 14% umsókna hlutu styrk hjá Rannís

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir

               

Úthlutun úr Rannsóknarsjóði Rannís styrktarárið 2020 sló vafasamt met hvað varðar lágt úthlutunarhlutfall. Það reyndist 14% í ár en 17% í fyrra. Á undanförnum 5 árum hefur úthlutunarhlutfallið lækkað úr 25% í 14%. Styrkir til klínískra rannsókna og lýðheilsu fengu aðeins tveir umsækjendur og upphæðin sem verkefnin fengu var alls 22,3 milljónir, ríflega helmingi lægri upphæð en í fyrra.

Sigurður Björnsson, sviðsstjóri rannsóknar- og nýsköpunarsviðs Rannís, segir að meira fé þyrfti til vísindastyrkjanna. „Umsóknum fjölgar á hverju ári en sjóðirnir stækka ekki að sama skapi, þannig að það segir sig sjálft að það sitja margir eftir, óánægðir,“ segir hann.

„Hlutfall verkefna sem við getum styrkt er komið vel undir 15% – er 14% í Rannsóknasjóði og 12% í Tækniþróunarsjóði en þetta eru stærstu og öflugustu sjóðir okkar. Við hefðum viljað sjá þetta hlutfall fara í 20-25%,“ segir hann.

Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, segir allsherjar umskipti hvað varðar sýn manna á vísindi og um hvað þau snúast verða að eiga sér stað. Björn, sem einnig gagnrýnir orð heilbrigðisráðherra hjá Læknaráði í viðtali hér í blaðinu, segir stöðu vísinda afar slæma.

„Þetta er ríkisstjórnin sem leggur í orði mikið vægi á vísindi á Íslandi,“ segir hann. Gjörðir fylgi þeim ekki. „Við sjáum það á úthlutun Rannís og við sjáum það þegar við horfum á hlutfall fjár af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála.“

-gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica