02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Mayo Clinic 130 ára

Tuttugu og þrír íslenskir læknar hafa stundað þar nám og störf og fjórir starfa þar nú sem sérfræðingar. Fjölmargir Íslendingar hafa leitað sér lækningar þar.

Þann 30. september síðastliðinn voru nákvæmlega 130 ár liðin frá því ein frægasta og virðulegasta læknastofnun heims opnaði dyr sínar fyrir sjúklingum. Tilurð þessarar stofnunar er örugglega mörgum kunn en verður rakin hér í stuttu máli. Sagan er merkileg meðal annars fyrir það að þarna átti hlut að máli þroskasaga, einbeiting og köllun fórnfúsrar ungrar konu í fjarlægu og lítt numdu landi og ákveðni og samhugur þriggja lækna, feðga, sem tóku höndum saman um að gera þessa köllun, þennan draum að veruleika.

                                          
                                          Á myndinni eru frá vinstri.: Jóhann Ingimarsson, Þorvarður Hálfdánarson,
                                          Björg Þorsteinsdóttir og Kristinn R. Guðmundsson.
                                          Myndina tók Anna G. Ólafsdóttir.

Minnesota er eitt af miðvesturríkjum Bandaríkjanna norður við landamæri Kanada. Það er fyrst og fremst landbúnaðarríki. Þar er funheitt á sumrin en snjóþungt og nístingskalt á veturna. Tvíburaborgin Minneapolis-St. Paul er þar stærst borga en aðrar minni eru til dæmis Rochester, sem þekktust er fyrir sína Mayo-Clinic og Duluth, sem áður fyrr var gjarnan viðkomustaður vestur-íslenskra landnema, sem þarna komu yfir vötnin miklu í lok 19. aldar.

Ofviðrið

Árið 1883 var Rochester fátækur og fámennur landnemabær. Óveður voru og eru þar tíð á vissum árstímum. Víða má nú sjá hlaðin skýli fyrir fólk að forða sér í og einnig eru leiðbeiningar um hvar annars staðar megi leita sér skjóls. Sírenur gjalla ef hætta er á ferðum. Þar sem landið er flatt má sjá skýjabakka hrannast upp langar leiðir að. Þannig var veðrið þann 21. ágúst 1883. Fólk fagnaði komu rigningar sem ekki var vanþörf á, en í þetta sinn fluttu skýin einnig með sér mikinn ógnvald, hvirfilvind eða „tornedo“, sem skall á bænum. Mörg hús eyðilögðust og margir íbúar slösuðust.

Nunnur og uppbygging

Nú voru góð ráð dýr. Dr. Mayo var þá starfandi læknir í Rochester. Hann leitaði til nunna í bænum að hafa yfirumsjón með hjúkrun hinna slösuðu, sem voru fjölmargir og mikið álag fyrir svona lítið samfélag. Móðir Alfred var stofnandi reglunnar og abbadís. Hún átti sér langa sögu og mikla reynslu. Hún var dóttir velmegandi járnsmiðs í Lúxemburg og hafði frá unglingsárum dreymt um að halda til Ameríku með systur sinni að boða Indíánum guðstrú. Þangað var haldið og næstu 20 árin kenndi hún og starfaði við trúboðsskóla í miðvestrinu og stofnaði nunnureglu í Illinois. Til Minnesota kom hún árið 1876 og einnig þar stofnaði hún skóla og „Motherhouse“.

Móðir Alfred hugsaði mikið um þennan atburð og leitaði að lokum til Mayo með þá hugmynd að byggja spítala í Rochester. Sjálf var hún sannfærð um þörfina. Sagt er að Mayo hafi ekki tekið vel í þetta en lét að lokum tilleiðast, hann tæki að sér að stjórna lækningum en hún myndi safna peningum og það tókst á fjórum árum.

Undir öruggri stjórn nunnanna stækkaði spítalinn hröðum skrefum og öllu starfsliði fjölgaði ár frá ári. Synir Dr. Mayo gerðust báðir skurðlæknar (Charles og William) og í raun helgaði spítalinn sig fyrst og fremst skurðlækningum til að byrja með. Nunnur sinntu hjúkrun ásamt hjúkrunarfræðingum. Smám saman breyttist sú skoðun almennings að veikir færu aðeins á spítala til að deyja. Mikil uppbygging hefur alla tíð átt sér stað á þessu sviði í Rochester. Þar eru tvö stór sjúkrahús, St. Marys og Methodist Hospital. Þangað sækja stúdentar í læknanám eða hjúkrun og útlærðir læknar í sérfræðinám hvaðanæva að í Bandaríkjunum og frá öllum heimshornum og þar eru stunduð margskonar vísindastörf á sviðum læknisfræði. Kendall uppgötvaði kortisón þarna árið 1949 og það leiddi til Nóbelsverðlauna ári síðar. Auk þessa hefur Mayo Clinic verið verðlaunuð margsinnis sem besta stofnun á þessu sviði. Mayo Clinic er nú með útibú á tveimur stöðum í Bandaríkjunum, í Jacksonville í Flórída og í Arizóna (Scottsdale og Phoenix) svo og útstöðvar annars staðar erlendis.

Fundur Mayo Alumni

Í tilefni af 130 ára afmæli Mayo Clinic var haldinn fundur Mayo Alumni 3. ágúst í húsakynnum Landspítala við Hringbraut. Þar voru mættir þrír íslenskir sérfræðingar í læknisfræði sem allir starfa nú við Mayo Clinic í Rochester, sem er afrek útaf fyrir sig fyrir svo litla þjóð. Hver þeirra flutti erindi um sín störf í Rochester. Mikill fengur er að fá að heyra um það nýjasta sem er að gerast á sviði læknisfræðinnar hjá þessari merku menntastofnun og fá þau öll hinar bestu þakkir fyrir. Vonast er til að gera megi þetta að árlegum viðburði. Á fundinn mættu einnig margir af núverandi félögum í Mayo Clinic Alumni en alls hafa 23 íslenskir læknar verið eða eru við nám og störf í Rochester. Fyrstur til þess var Ófeigur J. Ófeigsson lyflæknir sem þar var árin 1936-1937.Þetta vefsvæði byggir á Eplica