01. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Fréttasíðan

10% þurfa gangráð fjórum árum eftir ósæðarlokuskipti

Um 10% sjúklinga sem gangast undir ósæðarlokuskiptaaðgerð hér á landi þurfa gangráð rúmum fjórum árum eftir aðgerð. Þetta er niðurstaða rannsóknar 9 íslenskra lækna sem birtist í Scandinavian Cardiovascular í desember.

„Það er vel þekkt að ef fjarlægja þarf mjög kalkaða ósæðarloku getur orðið truflun á nálægu leiðslukerfi hjartans. Því þurfa sumir sjúklingar gangráð á fyrstu tveimur vikunum eftir aðgerðina sem þeir hafa ævilangt. Hér á landi var tíðnin aðeins 3,8% sem er ívið lægra en á mörgum stærri hjartaskurðdeildum erlendis,“ segir Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir og einn læknanna 9 sem stóðu að rannsókninni.

Hann nefnir að sérstaða rannsóknarinnar sé sú að öllum sjúklingunum hafi verið fylgt eftir í mörg ár eftir aðgerðina. Fyrsti höfundur greinarinnar er Sindri Aron Viktorsson, sérnámslæknir í skurðlækningum.

Samkvæmt greininni náði rannsóknartíminn frá árinu 2002 til 2016 og til 712 sjúklinga, en 557 þeirra var fylgt eftir.

 

Blása á fregnir um uppsagnir

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja segir á heimasíðu sinni engar áætlanir uppi um að leggja niður deildir á stofnuninni eða segja upp fólki.

„Það er þó ekkert launungarmál að HSS stefnir í hallarekstur á árinu, sem rekja má til þess að fjárveitingar til stofnunarinnar hafa ekki tekið mið af þjónustuþörf á Suðurnesjum og verulegri íbúafjölgun á svæðinu undanfarin ár,“ segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni.


Leiðrétt

Hanna Björg Henrysdóttir á geislaeðlisfræðideild 10-K á Landspítala er eðlisfræðingur en ekki geislafræðingur eins og misritað var í síðasta tölublaði.


Sjúkrahúsrúmum fækkar hér á landi

                                 

Sjúkrahúsrúmum hefur fækkað undanfarinn áratug. Alls voru rými 3,1 á 1000 íbúa á árinu 2017, það er mun minna en í löndum Evrópusambandsins þar sem þau eru 5,0 að meðaltali. Þetta kemur fram í yfirliti OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, fyrir árið 2019 um heilbrigðismál.

Bent er á að nokkrum bráðarýmum á sjúkrahúsum hafi verið breytt í umönnunarrými til lengri tíma. Þá er einnig bent á að innlögnum á sjúkrahús hafi fækkað, og að meðal-talsdvöl á sjúkrahúsi hafi verið 6 dagar árið 2017 sem sé styttra en ESB-meðaltalið en það er um 8 dagar.

Nefnt er í skýrslunni að innlagnir á sjúkrahús vegna langvinnra sjúkdóma sem hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá séu færri á Íslandi en í flestum ríkjum ESB, og áberandi færri í vissum tilfellum – einkum vegna sykursýki þar sem Ísland sé með lægstu tíðni í Evrópu.


Bandarískir þingmenn áhyggjufullir vegna kínverskrar lyfjaframleiðslu

Nokkrir meðlimir öldungadeildar Bandaríkjaþings, þar á meðal öldungadeildarþingmennirnir Tim Kaine, Elizabeth Warren, Tom Cotton og Mitt Romney, telja að þjóðaröryggisáhætta hafi skapast við að treysta öðru ríki fyrir að framleiða þau lyf sem nýta eigi í landinu.

Þingmennirnir hafa sent bréf til Mark Esper varnarmálaráðherra í kjölfar birtingar ársskýrslu bandarísku efnahags- og öryggismálanefndar og nefna fyrst og fremst áhyggjur vegna Kína.

„Það er áríðandi að lykilstofnanir taki á þeirri hættu sem stafar af því að treysta á erlenda lyfjaframleiðendur,“ segja þingmennirnir. Greint var frá málinu í fréttum CBS 19 þann 10. desember.

Erlendir fjölmiðlar eins og Bloomberg Businessweek og The Guardian hafa birt fréttir um óhreinindi í lyfjum framleiddum í Kína, meðal annars blóðþrýstingslyfinu Valsartan og magalyfinu Ranitidine sem einnig kallast Zantac. Framleiðandi seinna lyfsins, Glaxo-SmithKline, hefur innkallað það á heimsvísu. Óhreinindin voru talin stafa af breyttum framleiðsluháttum

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfja-stofnun hefur reynst erfitt að einangra hvaðan mengunin í lyfjunum sé sprottin. Ekki sé hægt að útiloka að hún hafi verið þar fyrir en með nýrri greiningartækni hafi hún komið fram.

Vel er fylgst með málinu og Lyfjastofnun er í samstarfi við evrópsk lyfjayfirvöld. Aðgerðir í málum sem þessum eru almennt samræmdar. Ekki er tilkynnt um mál sem þessi séu lyfin ekki á borðum landsmanna, því varhugavert er að hræða fólk frá lyfjatöku.


Læknaráð ályktar um óhóflegt álag á læknum

Stjórn Læknaráðs lýsti um miðjan desember yfir áhyggjum af starfsskilyrðum og vinnuálagi á læknum Landspítala. „Setja þarf upp viðmið fyrir hámarksfjölda sjúklinga á hvern lækni sem gæðavísi fyrir þjónustu,“ segir í ályktuninni.

„Fari hlutfallið yfir ákveðin mörk skal grípa til viðeigandi ráðstafana.“ Læknaráð vísaði í margumrædda skýrslu McKinsey frá árinu 2016 sem sýnir að læknar á Landspítala sinni fleiri heimsóknum og innlögnum á hvert stöðugildi en starfssystkyni við erlend samanburðarsjúkrahús geri.

Ebba Margrét Magnúsdóttir er formaður Læknaráðs. Mynd Védís.


Fimm verktakar vilja byggja nýja spítalann

Fimm sækjast eftir því að byggja nýja meðferðarkjarnann við Hringbraut fyrir Landspítala: Eykt, Íslenskir aðalverktakar, Ístak, Rizzani De Eccher Island og ÞG verktakar. Niðurstöður eftir yfirferð forvalsgagna verða kynntar 6. janúar.

Þungamiðja starfsemi spítalans kemur til með að vera í nýja meðferðarkjarnanum og er stærsta byggingin 70.000 fermetrar að stærð.


Krabbameinsáætlunin til 2020 úrelt

Félag krabbameinslækna bendir á að Krabbameinsfélag Íslands spái um 25-30% fjölgun nýrra krabbameinstilvika til viðbótar við það sem nú greinist til ársins 2030. Augljóst sé því að uppfæra þurfi áætlanir um mönnun sem unnin hafi verið á árunum 2013-2016 og stuðst er við í krabbameinsáætlun til ársins 2020. Sú vinna sé nú þegar úrelt.

„[V]elta má upp þeirri spurningu hvort aðrir þættir í krabbameinsáætlun séu einnig orðnir úreltir og hvenær þörf sé endurskoðunar?“ Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags krabbameinslækna í byrjun desember.

Félagið bendir á að krabbameinslæknar séu of fáir miðað við áætlunina og að í áætluninni sé talað um að nægjanlegt fjármagn fylgi framkvæmd áætlunarinnar. „Orð eru til alls fyrst en vonandi mun þessum orðum verða fylgt eftir með athöfnum öðrum en sparnaði eins og virðist vera raunin.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica