01. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Lögfræði 35. pistill. Að vinna ógreidda yfirvinnu
Yfirvinna lækna hefur verið í brennidepli vegna þeirrar ákvörðunar Landspítala að segja upp samningum við lækna um yfirvinnutíma. Þetta er að minnsta kosti í annað skiptið á stuttum tíma sem spítalinn segir upp þessum samningum og fækkar föstum yfirvinnutímum. Síðast var það gert haustið 2015. Nú er læknum boðinn nýr samningur til eins árs og þegar hann rennur út er líklegt að ekki eigi að gera nýja samninga um yfirvinnu á föstum forsendum.
Yfirvinnusamninga mega yfirmenn gera á grundvelli 9. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Yfirvinnusamningar lækna virðast oftast vera vegna sérstaks álags í starfi eða ófyrirséðrar yfirvinnu sem heppilegra þykir að greiða fyrir með föstum yfirvinnutímum en samkvæmt tímamælingu, til dæmis í skurðaðgerðum sem dragast oft á langinn og læknar ganga ekki út úr skurðaðgerð þó klukkan verði fjögur.
Almennt má segja að samningar um yfirvinnu á föstum forsendum séu óheppilegir. Þeir fela í sér óeðlilega mismunun og minnka gegnsæi og skýrleika í launa-ákvörðun.
Árið 2017 kallaði Læknafélag Íslands eftir upplýsingum frá Landspítala um fasta yfirvinnu og hlut lækna í henni. Þá kom í ljós að 17% lækna voru með samninga um fasta yfirvinnu. Hlutur lækna í heildarkostnaði vegna fastrar yfirvinnu á spítalanum var um 22%.
Könnun á vinnuaðstæðum lækna gerð á aldarafmæli LÍ 2018 leiddi ýmislegt í ljós varðandi vinnu lækna:
- Tæp 23% læknanna sögðust vera með fastar yfirvinnugreiðslur.
- Tæp 82% læknanna töldu sig vinna ólaunaða vinnu í viku hverri: Tæplega helmingur taldi sig vinna 1-4 klst., liðlega 27% 5-8 klst. og tæp 10% 9 klst. eða fleiri.
- Liðlega 17% lækna áttu enga ógreidda yfirvinnu, tæp 17% áttu minna en 50 ógreiddar yfirvinnustundir, liðlega 7% áttu milli 51-99 klst., liðlega 6% áttu milli 100-200 klst., tæplega 6% 200-500 klst. og liðlega 5% meira en 500 klst.
Störf í heilbrigðisþjónustu eru um margt sérstök og þess vegna vinna margar heilbrigðisstéttir vaktavinnu, einmitt til að tryggja fyrirfram lengd vinnulotnanna. Samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ eru læknar hins vegar dagvinnumenn og hafa alltaf verið, vinnutími þeirra er frá kl. 8-16. Á læknum hvílir einnig yfirvinnu- og vaktaskylda því í gr. 4.1.3 kjarasamningsins segir m.a.: Læknum skal skylt að vinna yfirvinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf.
LÍ hefur lengi vitað að læknar vinna mikla ógreidda yfirvinnu og er þá ekki vísað til vinnu á fyrirfram skipulögðum vöktum. Slík vaktavinna er að sjálfsögðu greidd. Ógreidda yfirvinnan virðist mest á Landspítala, sem svarar því til að stofnunin ætlist ekki til að læknar vinni yfirvinnu. Það er spítalanum heimilt að ákveða enda ræður launagreiðandi hvort og hversu mikla yfirvinnu hann kaupir af lækni. En það hvílir einnig sú skylda á launagreiðanda, ekki síst ef hann vill ekki kaupa yfirvinnu af starfsmanni, að haga skipulagi vinnunnar þannig að launamanni sé mögulegt að ljúka dagvinnunni innan dagvinnutímans.
Læknar halda því fram að skipulagi vinnu þeirra sé þannig háttað að þeim sé oft ómögulegt að ljúka vinnu gagnvart sjúklingum sínum innan dagvinnutímans. Þeir telja sig því ekki geta vikið sér undan yfirvinnunni þó stofnunin segist ekki biðja um hana. Sé sú raunin er eðlilegt að læknar ræði við sinn næsta yfirmann, sýni fram á yfirvinnuþörfina, setji fram kröfu um greiðslu fyrir hana og geri þannig launagreiðandanum kleift að taka afstöðu til framtíðar með tilliti til yfirvinnu sem reynslan hefur sýnt að unnin hefur verið. Viðbrögð launagreiðanda við slíku erindi hljóta að verða að annaðhvort þau að breyta vinnuskipulaginu eða byrja að greiða fyrir yfirvinnuna.
Upplýsingar úr Vinnustund staðfesta að læknar vinna mikla ógreidda yfirvinnu. Fimmtungi lækna hefur tekist að semja um fasta yfirvinnu vegna þessa, og mögulega annarra ástæðna, en þorri lækna vinnur mikla yfirvinnu án greiðslu. LÍ telur að stjórnendum Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana sé fullkunnugt um þessa staðreynd en notfæri sér samviskusemi lækna gagnvart skjólstæðingum sínum, sjúklingum og öryggi þeirra. Enda er það svo að launamönnum, læknum og öðrum, er heimilt að gefa vinnu sína.
Aðgerðir Landspítala á síðustu vikum sýna að stofnunin ætlar að draga enn úr kaupum sínum á yfirvinnu lækna. Fyrir liggur að spítalinn segist almennt ekki kaupa yfirvinnu af læknum.
Ætla læknar að halda áfram að gefa Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum svo og svo mikið af vinnutíma sínum eða ætla þeir að spyrna við fótum og gera kröfu um að yfirvinna, sem þarf að vinna, sé greidd? Meðan læknar sætta sig við vinnuskipulag sem kallar á ógreidda yfirvinnu eru allar líkur á að launagreiðandinn þiggi slíkt vinnuframlag. Framhaldið er í höndum lækna. En LÍ skoðar einnig að láta á það reyna hvort heilbrigðisstofnunum sé stætt á vinnuskipulagi sem gerir yfirvinnu nauðsynlega en neita samt að greiða fyrir hana.