01. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Tvær doktorsvarnir frá Háskóla Íslands 2019

DAÐI HELGASON varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 7. júní 2019. Ritgerðin heitir: Bráður nýrnaskaði í kjölfar hjartaaðgerða og kransæðaþræðinga - Tíðni, áhættuþættir og afdrif.

                                  

Andmælendur voru Göran Dellgren, dósent við Sahlgrenska-háskólasjúkrahúsið í Gautaborg, og Helga Guðmundsdóttir, sérfræðingur í nýrnalækningum við Ullevål-háskólasjúkrahúsið í Ósló.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor við læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd Martin Ingi Sigurðsson, prófessor við læknadeild, Runólfur Pálsson, prófessor við sömu deild, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir yfirlæknir og Ólafur Skúli Indriðason, sérfræðingur.

Ágrip af rannsókn: Bráður nýrnaskaði er þekktur fylgikvilli eftir hjartaaðgerðir og tengist hann aukinni sjúkdómsbyrði og hærri dánartíðni sjúklinga. Ýmsir áhættuþættir bráðs nýrnaskaða eru þekktir við opnar hjartaaðgerðir eins og notkun hjarta- og lungnavélar en við kransæðaþræðingu hefur skuggaefni verið talið geta skert starfsemi nýrna. Þó að bráður nýrnaskaði hafi verið viðfangsefni ýmissa rannsókna á undanförnum árum er ýmsum spurningum enn ósvarað varðandi áhættuþætti og afdrif sjúklinga, sérstaklega til lengri tíma.

Doktorsritgerðin byggir á fjórum afturskyggnum rannsóknum sem höfðu það markmið að kanna tíðni og áhættuþætti bráðs nýrnaskaða eftir kransæðaþræðingar og þrjár mismunandi opnar hjartaaðgerðir: kransæðahjáveitu, ósæðarlokuskipti og viðgerð á ósæðarflysjun af gerð A. Jafnframt voru áhrif bráðs nýrnaskaða á afdrif sjúklinga metin, sérstaklega með tilliti til langtímalifunar og þróunar á langvinnum nýrnasjúkdómi.

Tíðni bráðs nýrnaskaða var frá 2% eftir kransæðaþræðingu upp í 41% í kjölfar aðgerðar á ósæðarflysjun. Skuggaefnismagn tengdist aðallega aukinni hættu á bráðum nýrnaskaða hjá sjúklingum með langvinnan nýrnasjúkdóm sem fengu mikið magn skuggaefnis. Offita, blóðþurrð, lengdur tími hjá hjarta- og lungnavél og gjöf rauðkornaþykknis voru helstu áhættuþættir bráðs nýrnaskaða eftir opnar hjartaaðgerðir. Bráður nýrnaskaði tengdist verri lifun sjúklinga í öllum rannsóknunum og aukinni hættu á þróun á langvinnum nýrnasjúkdómi eftir kransæðaþræðingar og kransæðahjáveitu.

Doktorsefnið: Daði Helgason lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands vorið 2015. Að loknu kandídatsári hóf hann sérnám í almennum lyflækningum á lyflækningasviði Landspítala þar sem hann starfar nú. Daði hefur stundað rannsóknarvinnu samhliða læknanámi og starfi frá því að hann var á þriðja ári í læknadeild og hefur kynnt rannsóknir sínar á fjölda íslenskra og alþjóðlegra ráðstefna.

 

HÓLMFRÍÐUR HELGADÓTTIR varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 27. september 2019. Ritgerðin heitir: Prótónupumpu-hemlar: Þróun og forspárgildi fyrir offramleiðslu á gastríni og kynjabundin skömmtun.

                                 

Andmælendur voru Peter Bytzer, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og Gunnar Guðmundsson, prófessor við læknadeild. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Einar S. Björnsson, prófessor við læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd David C. Metz, prófessor við læknadeild Háskólans í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur á Landspítala, Helge Waldum, prófessor við Háskólann í Þrándheimi í Noregi og Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Ágrip af rannsókn: Prótónu-pumpuhemlar (PPI) hindra seytingu á magasýru og eru meðal mest notuðu lyfja í heiminum í dag meðal annars við brjóstsviða og vélindabólgu. Gastrínhækkun er þekkt afleiðing meðferðar með PPI-lyfjum. Gastrín er hormón sem leikur lykilhlutverk í stjórnun á sýruframleiðslu magans. Gastrínhækkun er áhyggjuefni þar sem hún er talin geta valdið aukinni sýruframleiðslu þegar lyfjatöku er hætt. Það er einnig hugsanleg ástæða vaxandi tíðni langtíma PPI-lyfjameðferðar.

Markmið rannsóknarverkefnisins var að kanna mikilvægi klínískra þátta er varða notkun PPI-lyfja hjá sjúklingum með vélindabakflæði á langtíma PPI-lyfjameðferð. Sérstök áhersla var lögð á tengsl gastríns við kyn þar sem fyrsta rannsóknin sýndi að konur á PPI-lyfjum höfðu marktækt hærra gastríngildi en karlar (Rannsókn I). Þessar mikilvægu niðurstöður urðu kveikjan að framkvæmd tvíblindrar slembirannsóknar til að ákvarða hlutfall sjúklinga sem getur minnkað PPI- skammtinn sinn um helming (Rannsókn II). Að auki var gerð þversniðsrannsókn (Rannsókn III) til að ákvarða mikilvæga þætti sem spá fyrir um gastrínhækkun. Ennfremur voru borin saman lyfjahvörf PPI-lyfs hjá heilbrigðum einstaklingum (Rannsókn IV) og gerð rannsókn á örvun á gastríni eftir einungis fjögurra daga PPI- lyfjameðferð.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að konur á langtíma PPI-lyfjameðferð höfðu marktækt hærri örvun á gastríni samanborið við karla og voru líklegri en karlar til að þola skammtalækkun um helming. PPI-lyfjaskammtur og kvenkyn virðast gegna lykilhlutverki í þróun offramleiðslu á gastríni. Þessar niðurstöður benda til aukins næmis kvenna fyrir PPI-lyfjum. Niðurstöðurnar eru mikilvægar þar sem konur með vélindabakflæði gætu náð árangursríkri einkennastjórnun með lægri skömmtum en karlar.

Doktorsefnið: Hólmfríður Helgadóttir lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2015. Að loknu kandídatsári hóf hún sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala þar sem hún starfar enn. Hólmfríður hefur stundað rannsóknarvinnu samhliða læknanámi og starfi undir handleiðslu Einars Stefáns Björnssonar prófessors.Þetta vefsvæði byggir á Eplica