06. tbl. 105. árg. 2019

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Hamfarahlýnun af mannavöldum á tímum jafnlaunavottunar. María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.

Rithöfundar hitta oft naglann á höfuðið og að mínu mati gerði Steinunn Sigurðardóttir einmitt það um daginn. Í snarpri umræðu um loftslagsmál benti hún á mikilvægi þess að kalla hlutina réttum nöfnun. Hún lagði til að við hættum að tala um hlýnun jarðar eða loftslagsbreytingar heldur kæmum okkur beint að efninu og byrjuðum að tala um hamfarahlýnun af mannavöldum. Hefur þessi tillaga Steinunnar ekki horfið úr huga mínum og er henni hér með komið á framfæri við lesendur Læknablaðsins.

Nú að öðrum og óskyldum málum.

Félag sjúkrahúslækna (FSL) hefur nú starfað í níu mánuði eða frá því að félagaskrá lá fyrir í ágúst. Nú, að loknum fyrsta vetri, er við hæfi að fara yfir starfsemi félagsins.

Síðsumars varð ljóst að skráðir félagar í FSL voru tæplega 400, sem gaf 17 fulltrúa á aðalfund Læknafélags Íslands. Reyndir fulltrúar höfðu á orði að skipulagsbreytingar LÍ hefðu hleypt nýju lífi í aðalfundinn með virkri þátttöku lækna aðildarfélaganna. Kjörnir fulltrúar FSL stóðu sig vel hvað varðar málefnalega þátttöku í umræðum, að öllum öðrum ólöstuðum.

Næsti aðalfundur Læknafélags Íslands verður haldinn á Siglufirði 26. og 27. september 2019 og búið er að kjósa helming fulltrúa á fundinn. Það vantar alltaf öflugt fólk í fjölbreytt verkefni og er aðalfundur LÍ mikilvægur vettvangur til að láta rödd sína heyrast. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við stjórnina ef þeir hafa áhuga á því að taka þátt í aðalfundi LÍ eða öðrum félagsstörfum.

Mikilvægt er að læknar hugi að aðildarskráningu sinni til að tryggja að þeir séu í réttu félagi. Greidd eru félagsgjöld til allra aðildarfélaga LÍ en félagsgjöld eru hófleg eða fimm þúsund krónur á ári. Félagsgjöldin eru hugsuð til að skapa grundvöll fyrir stjórn félagsins til að uppfylla markmið þess, eins og sí- og endurmenntun félagsmanna með fræðslu og ráðstefnum í samvinnu við sérgreinafélög, svo eitthvað sé nefnt. Auðvelt er að kanna á heimasíðu LÍ hvaða aðildarfélagi maður tilheyrir eða hringja á skrifstofu Læknafélags Íslands og fá þessar upplýsingar.

Á haustmánuðum voru haldnir þrír félagsfundir. Sá fyrsti var kynningarfundur og þar fór fram kosning fyrrnefndra fulltrúa á aðalfund LÍ. Eftir aðalfundi LÍ, í nóvember og desember, voru fundir haldnir í Fossvogi og á Hringbraut sem fjölluðu um faglega og félagslega hagsmuni sem og áherslur félagsmanna í komandi kjaraviðræðum. Formaður og fulltrúi FSL í samninganefnd LÍ tóku þátt í líflegri umræðu sem skapaðist á fundinum.

Ljóst var á fyrsta fundi að margt lá félagsmönnum á hjarta. Punktar voru teknir niður og stefnt á að ræða þá betur á sérstökum fundum í framhaldinu. Mikill áhugi var á tölvukerfum og rafrænni sjúkraskrá og í ljós kom visst óöryggi hvað varðar kerfin til framtíðar. Sífellt lengri tölvutími lækna er áhyggjuefni og mikilvægt að kerfin styðji við starf læknisins til að auka afköst við raunveruleg læknisstörf.

Vegna þessa var ákveðið að fyrsti félagsfundur ársins skyldi fjalla um þetta efni. Eftir Læknadaga var því boðað til fundar í Hringsal. Framsaga var í höndum Davíðs Björns Þórissonar um Heilsugáttina þar sem hann lýsti núverandi stöðu og nýjungum ásamt framtíðarsýn. Það var greinilega mikil ánægja meðal fundarmanna með Heilsugátt og virka aðkomu lækna að því verkefni. Síðan tók til máls Björn Jónsson frá heilbrigðis- og upplýsingasviði (HUT) og rakti stöðu og stefnu í rafrænni sjúkraskrá Landspítala. Góð umræða skapaðist eftir þessi erindi með virkri þátttöku fundarmanna sem og Jóns Hilmars Friðrikssonar framkvæmdastjóra.

Aðalfundur FSL var haldinn í marslok og undir liðnum „önnur mál“ var jafnlaunavottun á Landspítala rædd ítarlega. Lauk aðalfundinum á einróma samþykkt ályktunar um efnið og var ályktunin send Páli Mattíassyni forstjóra Landspítala.

Í kjölfarið voru haldnir tveir félagsfundir í FSL með Félagi almennra lækna þar sem jafnlaunavottun var kynnt læknum á Landspítala. Ályktun fyrri fundarins var samþykkt á þeim síðari. Mjög góð þátttaka var á þessum fundum og umræðan skörp en málefnaleg. Félagsmenn á sjúkrahúsinu á Akureyri tóku virkan þátt í báðum fundunum sem var fjarvarpað norður, rétt eins og öðrum félagsfundum. Eftir umræður aðildarfélaga LÍ, sendi stjórn Læknafélags Íslands frá sér tilmæli til lækna um að taka ekki þátt boðuðum vinnubúðum í tengslum við jafnlaunavottun á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Vek ég athygli félagsmanna á greinum Guðrúnar Ásu Björnsdóttur og Daggar Pálsdóttur um jafnlaunavottun sem hafa birst í Læknablaðinu. Mikilvægt er að hafa í huga að athugasemdir félagsins snúast fyrst og fremst um aðferðafræði verkefnisins eða val það Landspítala að innleiða breskt stigakerfi til að uppfylla lagalega skyldu sína til jafnlaunavottunar þegar margar aðrar viðurkenndar aðferðir eru í boði.

Að lokum vil ég hvetja félagsmenn til að hafa samband við stjórnina með ábendingar eða erindi. Njótið ofgnóttar sumars með þakklæti í huga.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica