11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Málþing til heiðurs Sigurði Guðmundssyni

                                  

Föstudaginn 19. október héldu Háskóli Íslands og Landspítali málþing í Hringsal af því tilefni að Sigurður Guðmundsson er kominn á tilhlýðilegan og löggiltan starfslokaaldur. Sigurður er smitsjúkdómalæknir og prófessor við HÍ, og hans samstarfsmenn hér heima komu saman til að rekja feril hans og hlýða á Alison Holmes frá London og Amiee Zaas frá Norður-Karólínu fara yfir sviðið. Helga Erlendsdóttir og Haraldur Briem ávörpuðu samkomuna, og Helga Ágústa Sigurjónsdóttir flutti kveðju og glaðning frá samstarfsfólki.

                                  

                                  

Magnús Gottfreðsson stýrði þessum fundi og var yfirbragð gesta nokkuð ólíkt því sem jafnan er í Hringsal þar sem alvaran er oft ein við völd. Á öftustu bekkjum salarins gerði ungliðahreyfing sig gildandi, greinilega lærisveinar Sigurðar, og öllum bar saman um að þrátt fyrir ótvíræða leiðtogahæfileika hans, óyggjandi fræðimennsku, góðmennsku hins klára læknis og vökult auga landlæknis þá væri kennslan hans fullkomna forte. Í viðtali í septemberblaði Læknablaðsins kom líka fram að starfið er hans hugðarefni, og hefur verið frá því hann sem læknanemi sá bakteríur í fyrsta sinn í smásjá, - þá varð hann alveg gagntekinn og hann hefur ekkert læknast af því.

Sigurður hefur gegnt flestum helstu lykilstöðum í íslensku heilbrigðiskerfi, en þó ekki verið heilbrigðisráðherra. Hann sat í ritstjórn Læknablaðsins árin 1987-1996, og blaðið lítur svo á að það eigi í honum hvert bein og þakkar fyrir góða samvinnu fyrr og síðar.

VSÞetta vefsvæði byggir á Eplica