11. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Skóflustunga að lykilbyggingu nýs spítala
Ráðherra, fulltrúi Íslenskra aðalverktaka og vottar við undirritun samningsins.
„Uppbygging heilbrigðisþjónustunnar er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar skóflustunga var tekin að lykilbyggingu nýja spítalans við Hringbraut laugardaginn 13. október. Hvorki meira né minna en 18 tóku skóflustungu að þessum nýja meðferðarkjarna, ráðherrar ásamt fulltrúum félaga, hagsmunasamtaka og stofnana. Fjölmargir fylgdust með, þar á meðal fyrrum heilbrigðisráðherrar.
„Nýtt sjúkrahús mun gerbylta allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild sinni, ekki síst fyrir sjúklinga, starfsmenn og aðstandendur,“ sagði heilbrigðisráðherrann jafnframt í ræðu sinni.
Meðferðarkjarninn verður á 6 hæðum auk tveggja hæða kjallara, eða tæpir 70.000 brúttófermetrar. Íslenskir aðalverktakar sjá um uppbygginguna og er áætlað að kjarninn verði tekinn í notkun árið 2024.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, sagði við þetta tækifæri að uppbyggingin væri stærstu tímamót í sögu Landspítala eða allt „frá því að Landspítali reis fyrst hér við Hringbraut fyrir tilstilli íslenskra kvenna“.