11. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Athugasemd við ritstjórnargrein
Magnúsar Gottfreðssonar í 10. tbl. 104 árg. Læknablaðsins 2018:„Aldarafmæli spænsku veikinnar og viðbrögð við skæðum farsóttum á 21. öld“
Í ritstjórnargrein Magnúsar Gottfreðssonar í 10. tbl. 104. árgangs Læknablaðsins 2018 um spænsku veikina hér á landi er skilmerkilega sagt frá því hversu alvarlegur faraldurinn var hér á landi á árinu 1918. Í lok greinarinnar lætur Magnús hins vegar að því liggja að viðbúnaður í dag hér á landi gegn slíkum ógnum sé lítill sem enginn og að það megi helst rekja til þess að aðbúnaður/viðbúnaður á Landspítala sé slæmur.
Rétt er að upplýsa lesendur Læknablaðsins um að mikil vinna hefur verið innt af hendi á undanförnum árum af sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í samvinnu við ýmsa aðila í þjóðfélaginu við gerð viðbragðsáætlunar gegn heimsfaraldri inflúensu. Slíkri áætlun er ætlað að auka viðbragðsþol samfélagsins sem mest þegar næsti faraldur skellur á. Fjölmargir aðilar hafa komið að áætluninni og var síðasta útgáfa gefin út á árinu 2016.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðbrögð við alvarlegum farsóttum í framtíðinni er ekki bara hægt að dæma út frá aðbúnaði á Landspítala heldur einnig þeim viðbrögðum sem áætluð eru á öðrum heilbrigðisstofnunum og í samfélaginu öllu. Landspítali mun vissulega gegna mikilvægu hlutverki þegar næsti heimsfaraldur inflúensu ríður yfir og mikilvægt að styrkja og bæta allan aðbúnað þar sem mest en aðbúnaður og samfélagsleg viðbrögð eru ekki síður mikilvæg. Í þessu tilliti er einnig rétt að árétta að hér á landi eru til birgðir af nauðsynlegum lyfjum og vökva til þriggja til fjögurra mánaða, veirulyf fyrir 40.000 manns, miklar birgðir af hlífðarbúnaði og bóluefni hefur verið tryggt fyrir að minnsta kosti 150.000 manns.
Það er því ekki hægt að taka undir með Magnúsi að hér sé takmarkað birgðahald af lífsnauðsynlegum lyfjum og að Íslendingar séu illa búnir undir heimsfaraldur inflúensu.
Þórólfur Guðnason
sóttvarnalæknir