11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Líknardrápum fjölgar í Hollandi

4,4% þeirra sem létust í Hollandi 2017 fengu aðstoð við að deyja

                                          
                                            Hin hollenska Jong fór yfir stöðu mála í Hollandi þar sem læknar njóta
                                            friðhelgi vilji þeir aðstoða fólk við að deyja.

4,4% þeirra 150.000 sem létust árið 2017 í Hollandi fengu aðstoð við að deyja eða 6585 einstaklingar. Þeim fjölgaði um rétt tæp 20% á tveggja ára tímabili, milli 2015 og 2017.

„Tilfellunum hefur fjölgað í gegnum árin en nú teljum við að jafnvægi sé að nást,“ sagði Antina de Jong, sem talaði fyrir Konunglegu hollensku læknasamtökin á þriðja degi ráðstefnu Læknafélags Íslands og Alþjóðalæknafélagsins.

„Læknar í Hollandi mega aðstoða við andlát, en reglurnar eru strangar. Sjúklingar eiga ekki rétt á líknardrápi og lækni ber aldrei skylda til að aðstoða við líknardráp. Hann má hins vegar aðstoða ef hann er sannfærður um að sjúklingur uppfyllir skilyrði reglna og telur ekki aðra lausn draga úr eða lina þjáningar sjúklingsins,“ upplýsti Jong. „Enn er þó glæpsamlegt að aðstoða einstakling við að deyja hér í Hollandi en læknar hafa friðhelgi gegn refsingum fari þeir eftir þeim reglum sem settar hafa verið.“

Grundvallarreglurnar eru: Frjáls og vel íhuguð beiðni sjúklings, óbærilegar þjáningar án möguleika á bættri líðan. Sjúklingar séu upplýstir um stöðu sína og líkur á bata og að sannarlega sé engin önnur skynsamleg lausn í boði. Þá þarf  samráð við annan lækni og framkvæma þarf líknardráp með aðgát.

Af þessum ríflega 6000 andlátum í fyrra voru 12 skoðuð nánar af yfirvöldum. „Tólf tilvik þóttu rannsóknarverð en fimm þeirra eru nú í nánari skoðun opinbers saksóknara,“ segir Jong. „Þetta eru mál þar sem ekki var farið eftir grundvallarreglunum.“

Sjá má á opinberum tölum á vefsíðu Protection of Conscience Project að allt til ársins 2007 fengu undir 2000 aðstoð en frá árinu 2006 hefur talan meira en þrefaldast.

                                   

Jong segir hollenskan almenning upplýstan um líknardráp en að sjálfsögðu séu skiptar skoðanir á því hvort þau séu æskileg. „Sumir styðja málið á meðan aðrir standa gegn því,“ sagði hún. „En það er alltaf svo að líknardráp er síðasta hálmstráið, ráð sem gripið er til eftir viðeigandi meðferð og ef líknarmeðferð virkar ekki, hjálpar ekki sjúklingnum og hann kvelst.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica