11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

„Við deyjum öll“

Umræðan um líknardráp hleypti lífi í ráðstefnuna á þriðja degi hennar

                                         
                                          Þétt var setið í salnum og heitar umræður sköpuðust þegar umræðan
                                          um líknardráp fór fram. Í pallborði þau Ilora Finlay, Kati Myllimäki,
                                          Jeff Blackmer og Antina de Jong. Mynd/gag

„Sumir tala um réttinn til að deyja. Hver hefur ekki þennan rétt? Við deyjum öll. Það sem fólk er að biðja um er rétturinn til að vera tekinn af lífi,“ sagði Ilora Finlay, velskur læknir og prófessor í líknandi meðferð í læknaháskóla í Cardiff. Hún situr í lávarðadeild breska þingsins.

Umræða um líknardráp litaði þriðja og síðasta dag ráðstefnunnar. Svanur Sigurbjörnsson, formaður siðfræðiráðs Læknafélagsins, stýrði umræðum. Margir tóku til máls og ljóst að engin skýr merki eru um hvar draga eigi línuna. „Hvert og eitt okkar kom hingað inn með ákveðnar skoðanir á líknardrápi og hvert og eitt okkar fer út án breyttrar skoðunar,“ sagði Jeff Blackmer, formaður siðfræðinefndar kanadíska læknafélagsins. „Það verða alltaf félagar innan samtaka sem eru á móti en við höfum lagt okkur fram um að kynna afstöðu þeirra sem standa með líknardrápi.“

 

Kanadabúar deildu um samstöðuna

Blackmer hafði áður farið í gegnum hvernig 91% atkvæða innan kanadísku læknasamtakanna hefðu fallið með aðstoð við að deyja. Hiti var í nokkrum kanadískum læknum undir kynningu Blackmer og því haldið fram að litið væri framhjá þeim læknum sem væru andstæðir líknardrápi – hitinn var svo mikill að einn ráðstefnugesta stóð upp og bað þá um að heyja baráttu sína heima fyrir.

Jeff Blackmer hafði lýst því hvernig læknasamtökin hefðu ekki lagt í að mæla skoðun kanadískra lækna á líknardrápi fyrirfram heldur haldið lokaða fundi þar sem rætt hafi verið um málið utan sviðsljóssins. Fólk hafi fagnað tækifærinu til að fá að ræða málin opinskátt.

Ilora Finlay stóð gegn líknardrápi. Hún sagði í erindi sínu fyrr um daginn að helsta áhyggjuefni Alþjóðalæknasamtakanna, WMA, ætti ekki að vera líknardráp heldur líknandi meðferð. Réttur fólks ætti að vera að fá rétt lyf til að lina þjáningar sínar.  

„Þegar við ræðum um að hætta meðferð er það eftir að hafa metið kosti og galla þess. Oft er þetta mjög einstaklingsbundið og ef við hættum hefur það áhrif á löngun til að deyja,“ sagði hún.

 

Líknardráp líklegra án líknandi meðferð

Oft kom upp í umræðunni hver sé ástæða þess að fólk biðji um líknardráp og fór Finlay yfir helstu þætti: Að missa sjálfsstjórn. Minni geta til að taka þátt í ánægjulegum athöfnum og viðburðum og í þriðja lagi; skortur á reisn. Þá að missa stjórn á líkamlegri virkni sinni eða að vera byrði á fjölskyldu sinni.

„Engin er eyland. Við lifum og hrærumst í samfélagi við aðra og ákvarðanir okkar hafa áhrif á annað fólk,“ sagði hún. Hafa verði í huga hvernig fólk deyi og verði að minningu þeirra sem lifa. Þá sagði hún að læknar gætu ekki séð dauðann fyrir. „Innan daga eða klukkustunda er nákvæmnin nokkur en mánaðadómar geta teygst í ár.“

Fleiri stóðu gegn líknardrápi. Miguel Jorge, frá brasilíska læknafélaginu,  hafði áhyggjur af því að félagsleg staða og erfiðar efnahagsaðstæður gætu leitt til meiri pressu á að fólk kysi líknardráp. „Það er óhugsandi að læknir sem áður reyndi að bjarga taki líf einstaklings.“

Þau tvö voru sammála um að líknarmeðferð tæki pressuna af líknardrápi. „Löggjafarvaldið í heiminum horfir nú til þess hvað læknar gera. Við verðum að horfa til afleiðinganna og þess að lönd sem bjóða litla sem enga líknandi meðferð gætu litið svo á að vestræn lönd hafi gefist upp á líknandi meðferð og að líknardráp sé lausnin. Ég er að tala um stjórnmálamenn og hagfræðinga, ég er ekki að tala um lækna, en vandinn er hvernig skilaboð frá læknum eru túlkuð,“ sagði Finlay.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica