11. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Konur í íslenskri læknastétt í 101 ár. Magdalena Ásgeirsdóttir

Læknafélag Íslands var stofnað 14. janúar 1918 og er því 100 ára. Háskóli Íslands var stofnaður 17. júní 1911 og fyrsta konan til að ljúka prófi frá læknadeild var Kristín Ólafsdóttir árið 1917, fyrir 101 ári. Fyrstu 50 ár læknadeildar útskrifuðust 427 læknar, 405 karlar og 22 konur. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig starfsævi þessara brautryðjenda var og hvaða viðmót þær fengu bæði í leik og starfi.

Þegar ég lít um öxl eru þær konur  í læknastétt sem komu að menntun minni í raun teljandi á fingrum annarrar handar. Sú sem stendur upp úr í minningunni er prófessor Margrét Guðnadóttir heitin. Hún kenndi af eldmóði og eftir situr óbilandi trú mín á bólusetningum til bættrar lýðheilsu.

Árið 1993 urðu tímamót í sögu læknadeildar, þá brautskráðust 45 læknakandídatar, 18 karlar og 27 konur, og við útskrift var hópurinn búinn að eignast 30 börn. Þetta var í fyrsta sinn sem konur voru í meirihluta. Þetta er útskriftarárgangurinn minn. Við létum ýmislegt yfir okkur ganga á námsárunum. Þegar við byrjuðum í klínísku námi inni á sjúkrahúsunum (þau voru þrjú í þá daga) voru í sumum verknámshópunum eingöngu konur og nær undantekningarlaust tóku karlkyns lærifeður á móti okkur með þessum orðum: „Hva bara stelpur?” og bættu svo við: „Nú eiga launin aldeilis eftir að hrynja.“ Þetta þóttu og þykja okkur enn kaldar kveðjur.

Hver er hlutur kvenna í læknastétt nú?

Af 80 yfirlæknum Landspítala 2. mars 2017 eru 20 konur, það er fjórðungur.

Við konur eigum ennþá undir högg að sækja  eins og fram hefur komið í MeToo-byltingu íslenskra lækna, þar sem konur í læknastétt sendu frá sér yfirlýsingu vegna kynbundinnar mismununar, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Jafnréttið er meira í orði en á borði og sorglega lítið hefur gerst svo að konur í læknastétt njóti sömu möguleika til starfs og karlar.

Þann 17. september 2018 úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála í máli nr.6/2018 gegn Landspítala. (Þar sem búið er að úrskurða í málinu er það í raun orðið opinbert en þegar þetta er ritað er úrskurðurinn ekki enn kominn inn á www.stjornarradid.is). 

Kærði (Landspítali) braut gegn 26. gr laga nr. 10/2008 um jafna stöðu kvenna og karla við ráðningu í stöðu sérfræðings í meltingarlækningum í febrúar 2018. Kröfu kærða um að kæranda verði gert að greiða honum málskostnað er hafnað, svo hljóma úrskurðarorðin.

Staðreyndir málsins í stuttu máli: kærandi (kona) hefur starfað í rúm 14 ár sem lyflæknir, tæp 12 ár sem meltingarlæknir og er með doktorsgráðu frá 2008. Karlinn sem fékk stöðuna hefur starfað sem lyflæknir í rúm fjögur ár en ekki starfað sem meltingarlæknir fyrir lok umsóknarfrests. 

Landspítali taldi að kæran væri á röngum rökum reist og að hæfasti umsækjandinn hefði verið ráðinn og krafðist þess að sjónarmiðum kæranda væri hafnað og honum gert að greiða málskostnað.

Ég er búin að fylgjast með þessu máli frá upphafi og finnst mjög athyglisvert hvernig hægt var að komast að þessari niðurstöðu varðandi hæfi umsækjenda. Öllu verra og grafalvarlegt er að opinber stofnun skuli setja fram málskostnaðarkröfu sem er til þess eins fallin að draga kjark úr fólki sem er að láta reyna á rétt sinn hjá kærunefndum. Það má heldur ekki líta fram hjá því að með þessari túlkun Landspítala á hæfi konunnar og sjónarmiðum hennar er verið að vega að æru hennar, hennar langa reynsla og menntun er einskis metin.

Ef ég væri að reka fyrirtæki og starfsfólk mitt sverti orðspor míns fyrirtækis á þennan hátt, léti ég það ekki ámælislaust. Báðir þessir læknar, konan og karlinn, eru fórnarlömb slæmra vinnubragða. 

Það setur að mér ugg ef áform sumra pólistíkra afla ná fram að ganga og svo að segja öll heilbrigðisþjónusta landsins fari undir sama hatt, það er ríkisbáknið. Landspítali og íslenska ríkið fara fremst í flokki að brjóta á rétti kvenna, samanber hér að ofan og nýlegan dóm Hæstaréttar þar sem íslenska ríkið var dæmt til að greiða ljósmæðrum vangoldin laun. 

Frá aldamótum hefur fjöldi kvenna í læknadeild aukist og þær hafa verið í meirihluta allra útskriftarárganga frá árinu 2006 að undanskildu árinu 2017, þá 26 karlar og 24 konur.  

Við konur í læknastétt ætlum ekki að bíða aðgerðarlausar í önnur 100 ár eftir því að við og menntun okkar verði metin að verðleikum.

 

Heimildir

1. Læknar á Íslandi, I-III. Þjóðsaga, Reykjavík 2000.
 
2. www.hi.is  
 
3. Árnadóttir ÓS. #MeToo-bylting íslenskra lækna. Ritstjórnargrein. Læknablaðið 2018; 104: 67.
https://doi.org/10.17992/lbl.2018.02.170

PMid:29388915

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica