10. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Betri sjúkraflutninga. Jóhanna Ósk Jensdóttir
Nýlega kom út skýrsla, „Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi“, unnin af vinnuhópi skipuðum af velferðarráðuneytinu. Einhver umræða hefur verið um niðurstöðuna en hún hefur þó ekki farið hátt.
Niðurstaða nefndarinnar er að auka þurfi sjúkraflutninga með þyrlum. Meirihluti nefndarinnar, 5 aðilar, ráðleggja að sú leið sé valin að styrkja Landhelgisgæsluna frekar til þess að sinna því verkefni með auknum fjárframlögum, meðal annars til þess að bæta við áhöfnum á þær þyrlur sem þegar eru og verða í notkun. Það vekur athygli að þeir nefndarmenn sem sinna klínískri vinnu með skjólstæðingum telja aðra leið betri, þá leið að sérstakri sjúkraþyrlu verði komið á fót með stuttum útkallstíma og sérhæfðum mannskap, staðarvakt með lækni og bráðatækni eða hjúkrunarfræðing, og að slík þyrla yrði staðsett í samræmi við þörf á utanaðkomandi bráðaþjónustu og hraðari sjúkraflutningum.
Ég er sammála því að auka eigi sjúkraflutninga með þyrlu og ég er sammála því að það eigi að gera með sérstökum sjúkraþyrlum staðsettum á fyrirfram ákveðnum álagspunktum á landinu þannig að hægt sé að þjónusta sem stærstan hluta landsbyggðar og dreifbýlis á sem stystum tíma. Ég ber mikla virðingu fyrir Landhelgisgæslu Íslands en ég tel að hennar kröftum sé betur varið í það hlutverk sem hún sinnir nú þegar af miklum ágætum, leit og björgun, sjúkraflutningar falla ekki þar undir. Auk þess er bent á það að þyrlur Landhelgisgæslunnar eru ekki sérstaklega útbúnar til sjúkraflutninga né hefur áhöfn hennar að aðalstarfi umönnun veikra og slasaðra.
Í dag er sjúkraflutningum sinnt á sjúkrabílum, með sjúkraflugi og einstaka sinnum með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar. Fyrir þann hluta Íslendinga sem býr á stórhöfuðborgarsvæðinu skiptir þetta litlu máli, sjúkraflutningar í Reykjavík taka í flestum tilfellum minna en 10 mínútur og er sjúkrabíll þess vegna mjög viðeigandi flutningsmáti. Fyrir landsbyggðina er þetta stórmál, sjúkraflugvél er eðli málsins samkvæmt ófær um að lenda á nema örfáum stöðum á landinu og þyrla Landhelgisgæslunnar er eingöngu kölluð út í algjörri neyð. Sjúkraflutningar í sjúkrabíl á landsbyggðinni eru háðir því hvort á svæðinu búi fólk sem hefur reynslu af sjúkraflutningum og umönnun veikra og hvort það fólk hefur tök á að vera á endalausri bakvakt og fá lítið borgað fyrir það. Auk þessa hefur undanfarin ár verið mjög erfitt að manna læknastöður á landsbyggðinni, fastráðnir læknar fást nánast ekki og erfiðara er að manna stöður með verktöku. Það eru margar og mismunandi ástæður fyrir því að illa gengur að fá lækna til þess að starfa eina eða fáa saman á dreifbýlu svæði þar sem allar tegundir veikinda og slysa geta orðið að þeirra ábyrgð. Eflaust myndi það hafa mikil áhrif ef læknir í einmenningshéraði vissi að þegar mjög bráð veikindi ber að eða þegar erfiðar aðstæður, slys eða veikindi, koma upp sem hann er óvanur að meðhöndla geti hann kallað í þyrlu með stuttan útkallstíma og sérhæfða áhöfn sér til aðstoðar. Auk þess er mikið öryggi í því fyrir lítið byggðarlag sem er læknislaust að vita að þyrla getur brugðist hratt við og verið mætt með sérhæfðan mannskap á stuttum tíma þegar ástæða er til.
Það er falskt öryggi þegar læknirinn er staðsettur í margra kílómetra fjarlægð frá skjólstæðingum sínum og jafnvel fjallvegur á milli, það er falskt öryggi þegar læknirinn er einn ábyrgur fyrir hverju sem getur komið fyrir skjólstæðinga hans án aðstoðar bráðaþjónustu og þeirrar reynslu sem henni fylgir og það er falskt öryggi þegar sjúkrabíll þarf að keyra mörg hundruð kílómetra til þess að koma skjólstæðingi á viðeigandi sjúkrastofnun og mönnun sjúkrabílsins er jafnvel reynslulítil. Í framtíðinni verða færri læknar staðsettir á landsbyggðinni en fleiri læknar sem koma þangað tímabundið til þess að sinna sjúklingum. Bráðaþjónustu verður ekki sinnt með staðarvakt læknis á öllu landinu og því er þörfin gríðarleg fyrir þessa auknu bráðaþjónustu og sjúkraflutninga sem sjúkraþyrla getur boðið upp á.
Nú er kominn tími til þess að gera stórar breytingar á sjúkraflutningum í dreifbýlu landi og ég vona svo sannarlega að velferðarráðuneytið hafi kjark til þess að stíga skref inn í framtíðina í staðinn fyrir að reyna áfram að láta gamlar aðferðir duga með litlum breytingum. Alvöru breytingar munu hafa góð áhrif á afdrif sjúklinga og þjónustu við þá en ekki síður hafa góð áhrif á mönnun viðeigandi heilbrigðisþjónustu á landinu öllu.