04. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Skipulag og starfsemi LÍ á tímamótum. Reynir Arngrímsson

Læknafélag Íslands (LÍ) er heildarsamtök lækna og samkvæmt nýja skipulaginu velja félagsmenn sér aðildarfélag innan þess. Skipulagsbreytingarnar sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi félagsins hafa í för með sér breytingar á félagsaðildinni sem vert er að vekja athygli á. Einnig er kominn tími til að fara í stefnumótunarvinnu og ræða hlutverk félagsins og sameiginlega stefnu. Hér til hægri eru sett fram á myndrænan hátt drög að skipu- og starfsemisriti til að sýna helstu þætti í starfi félagsins. Þar eru einnig nýir þættir sem ég tel rétt að tekin sé afstaða til á næstunni, svo sem tillaga að kjararáði eða kjaranefnd. Breytingarnar taka ekki að fullu gildi fyrr en í haust á næsta aðalfundi þegar aðildarfélögin hafa gengið frá breytingum á sínum lögum og formenn þeirra og meðstjórnendur setjast í stjórn LÍ.  

                             

                      
                                                                                       Nýtt skipurit LÍ.

LÍ stéttarfélag

Í dag er kjarnastarfsemi LÍ tengd stéttarfélagsmálum. Gerð kjarasamnings og að standa vörð um réttindi lækna gagnvart heilbrigðisstofnunum í víðasta skilningi. Umfang réttindagæslu lækna er mikið og mun meira en flestir gera sér grein fyrir. Þá eru Orlofssjóður og Fjölskyldu- og styrkarstjóður lækna hluti af kjarasamningsbundnum réttindum. Hér er varpað fram þeirri hugmynd að auk samninganefndar verði komið á fót kjararáði eða kjaranefnd sem hafi það hlutverk að rýna í launaþróun í landinu og afla þannig gagna og undirbúa næstu kjaraviðræður á hverjum tíma.  

LÍ fagfélag

Fræðslustofnun lækna (FS) hefur gegnt hlutverki fagdeildar félagsins með sérstakri stofnskrá. Það eru fleiri þættir í starfi LÍ sem flokkast undir faglega hlutann þegar grannt er skoðað. Á þessum tímamótum er rétt að mínu mati að hefja umræður um til dæmis nánara samstarf LÍ og sérgreinafélaganna sem núna standa utan heildarsamtakanna og samskiptin við þau eru ekki skilgreind sérstaklega í lögum LÍ. Málefni og staða svæðafélaga sem hafa haldið uppi öflugu fræðslustarfi á sínum heimasvæðum er annað sem þarf að skoða. Má þar nefna Læknafélag Akureyrar sem var svæðafélag og þar með aðildarfélag að LÍ en er það ekki lengur eftir skipulagsbreytinguna. Útgáfa Læknablaðsins er þriðji hlutinn sem vert er að nefna. Samstarf þessara aðila þarf að skoða og kanna möguleika á nánari tengslum.

Erlent samstarf LÍ hefur fyrst og fremst verið á vettvangi Norræna læknaráðsins, Alþjóðasamtaka lækna (World Medical Association, WMA), Fastanefndar Evrópsku læknafélaganna í Brussel (CPME) og nú aftur nýlega á vettvangi Samtaka sérgreinafélaga Evrópu (UEMS).

Hlutverk siðanefndar og siðfræðiráðs er skilgreint í lögum LÍ og breyttist ekki við síðustu endurskoðun. Félagsmenn sem látið hafa af störfum hafa með sér félagsskap, Öldungadeild lækna, og ekki verður vikist undan að ræða málefni þeirra eins og fram hafa komið óskir um. Til að halda öllu til haga er einnig rétt að benda á Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar (FÁSL), sem reyndar er eina félagið þar sem aðrir en læknar geta orðið félagsmenn, en varðveisla sögunnar er mikilvæg eins og gefur að skilja á þessum tímamótum.

Til framtíðar

LÍ þarf að halda áfram þeirri vegferð sem lagt var í með lagabreytingum á síðasta aðalfundi. Á næstunni mun LÍ bjóða formönnum aðildar- og sérgreinafélaga til viðræðna um áframhald innleiðingar á breyttu skipulagi til að skýra nánar hvað í þeim felst. Vonast er til þess að þá skýrist línur sérstaklega varðandi uppbyggingu faglega þáttarins í starfi LÍ í samstarfi við sérgreinafélögin. Jafnframt verði horft til stefnumótunar til framtíðar með áherslu á sameiginlega hagsmuni allra lækna.Þetta vefsvæði byggir á Eplica