04. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Árangur og mikilvægi bólusetninga - sögulegt samhengi. Þórólfur Guðnason

                
                Myndina tók Ari Kárason ljósmyndari Þjóðviljans 11. janúar 1968 í Heilsuverndarstöðinni við
                Barónsstíg (Egilsgötu). Hjúkrunarfræðingurinn Dagfríður Óskarsdóttir bólusetur lögreglumann
                gegn Asíuinflúensu. Mynd úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

                                         

Bólusetningar eru taldar vera ein arðbærasta fyrirbyggjandi aðgerð sem völ er á í heilbrigðismálum.1,2 Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að bólusetningar komi árlega í veg fyrir um 2-3 milljónir dauðsfalla og að auki margar milljónir alvarlegra afleiðinga bólusetningasjúkdóma. Hins vegar fá milljónir manna ekki nauðsynlegar bólusetningar með þeim afleiðingum að um 1,5 milljón deyr árlega af völdum sjúkdóma sem koma hefði mátt í veg fyrir.3 Óhætt er því að fullyrða að bólusetningar hafi komið í veg fyrir hundruðir milljóna alvarlegra afleiðinga smitsjúkdóma á þeim rúmlega 200 árum sem liðið hafa frá því að þær komu fyrst fram.         

                                           
                                           Vegna vantandi bóluefna var ekki hægt að bólusetja í Einarslóni né
                                           Malarrifi.
  

 

                                           
                                           Vantaði 29 daga til þess að vera tveggja ára en þótti réttara að bólusetja
                                           hana af þeirri ástæðu að bóluefni hefur ekki fengist árlega síðan
                                           Evrópuófriðurinn hófst 1914.

                                          
                                          Þeir sem eru bólusetjarar á Snæfellsnesi: tómthúsmaður, ljósmóðir og
                                          bóndi.

                                   
                                   Í nafni Kristjáns 9. Danakonungs vottarOddur Oddsson læknir að hinn
                                   tveggja ára gamli Bergsteinn Kristinn hafi verið kúabólusettur vorið 1896.
                                   Þetta skírteini er innrammað á vegg sóttvarnalæknis.

                                        

 Bólusetningu má flokka sem fyrsta stigs forvörn og er hún áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og alvarlegar afleiðingar þeirra. Bólusetning er læknisfræðileg aðgerð sem miðar að því að hindra að næmir einstaklingar sýkist af smitsjúkdómi. Á síðari árum hafa aðrir notkunarmöguleikar bólusetninga einnig orðið mönnum ljósir, þar á meðal við meðferð langvinnra smitsjúkdóma (HIV og lifrarbólgu B) og krabbameina en þessi notkun er hins vegar ekki orðin eins þróuð og hefðbundin fyrirbyggjandi meðferð gegn smitsjúkdómum.

Bólusetningar verja ekki einungis þá sem eru bólusettir heldur einnig þá sem eru óbólusettir (hjarðónæmi), að því gefnu að almenn þátttaka í samfélaginu sé 80-95%. Því er mikilvægt að halda uppi góðri þátttöku í bólusetningum svo koma megi í veg fyrir faraldra hættulegra smitsjúkdóma.

                                      
                                      Ekki er vitað hver tók þessa mynd í janúar 1968 þegar leikarar
                                      Þjóðleikhússins voru bólusettir gegn Asíuinflúensu. Snorri Hallgrímsson
                                      yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor við HÍ sprautar Róbert Arnfinnsson
                                      leikara með bóluefni. Til hægri er Guðbjörg Þorbjarnardóttir leikkona. Myndin
                                      er varðveitt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en birtist í Vísi.

                                     
                                     Bólusettir 1818 í Skaftafellssýslu, - þarna er allt skráð á dönsku, og
                                     fyrirmenni sveitarinnar er Repstýr (hreppstjóri).

                                      
                                      Mynd úr Vísi 20. janúar 1985, tekin í álverinu í Straumsvík. Starfsmaður
                                      sprautaður við inflúensu.
                                      Kristján A. Einarsson tók myndina sem er á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

                                                                       
                                        Vaccinationsbók á Þjóðskjalasafni, yfir bólusetta fyrir 200 árum, 1818, -
                                        og að auki rifrildi úr öðrum bókum. Mjög órafræn sjúkraskrá, en á einum stað!

Saga bólusetninga á Vesturlöndum nær aftur til ársins 1796 þegar Edward Jenner notaði kúabólu til að bólusetja gegn bólusótt (stórubólu) en bólusótt leiddi til dauða um 25% þeirra sem smituðust. Útbreidd bólusetning gegn bólusótt varð síðan til þess að henni var útrýmt úr heiminum á árinu 1979. Á 19. öldinni, í kjölfar uppgötvunar Jenners, gerðist hins vegar ekki mikið í þróun nýrra bóluefna. Það var ekki fyrr en fljótlega upp úr 1900 að fram á sjónarsviðið komu ný bóluefni gegn alvarlegum smitsjúkdómum eins og barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt. Á seinni hluta 20. aldar varð hins vegar sprenging í framleiðslu nýrra bóluefna og í dag eru framleidd bóluefni gegn tæplega 30 smitsjúkdómum. Þessi þróun leiddi til þess að í löndum þar sem bólusetningar hafa verið almennar og útbreiddar hefur nánast tekist að uppræta hættulega smitsjúkdóma sem áður lögðu fjölda einstaklinga að velli. Það má þó segja að bólusetningar hafi á ákveðinn hátt goldið fyrir velgengni sína því samhliða þessum árangri óx umræða um hugsanlegar alvarlegar aukaverkanir þeirra sem leiddi til minnkandi þátttöku í sumum löndum. Afleiðingar þessa urðu að í mörgum löndum hafa faraldrar blossað upp aftur með skelfilegum afleiðingum.

Fá lyf undirgangast eins viðamiklar og strangar rannsóknir hvað öryggi og árangur varðar og bóluefni áður en þau eru tekin í almenna notkun. Áður en bóluefni eru sett á markað eru þau rannsökuð hjá mörg þúsund einstaklingum til að kanna árangur þeirra og öryggi. Þessar rannsóknir geta hins vegar misst af mjög sjaldgæfum aukaverkunum og því er einnig fylgst náið með hugsanlegum aukaverkunum bóluefna eftir að þau hafa verið tekin í almenna notkun. Með þessu móti er hægt að finna mjög sjaldæfar aukaverkanir og endurmeta notkun bóluefnanna. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna sem notuð eru hjá börnum í almennum bólusetningum eru mjög fátíðar, eða um ein aukaverkun á hverjar 500.000-1.000.000 bólusetningar. Þetta þýðir að á Íslandi má búast við einni alvarlegri aukaverkun á um 40 ára fresti. Fjöldi aukaverkana er þannig óverulegur í samanburði við þann árangur sem sést af bólusetningum.

Upphaf bólusetninga barna á Íslandi má rekja aftur til ársins 1802 þegar byrjað var að bólusetja með kúabólu gegn bólusótt4 og var Ísland eitt af fyrstu löndum til að hefja almenna notkun á því bóluefni. Bóluefni gegn bólusótt var lengi vel það eina sem notað var og var foreldrum gert skylt að bólusetja börn sín. Í sögulegu samhengi hefur bólusetning með kúabólu verið eina skyldubólusetningin hér á landi en sú skylda var afnumin með lögum árið 1978 þegar tekist hafði að útrýma sjúkdómnum í heiminum.

Næsta bóluefni sem tekið var í notkun hér á landi var bóluefni gegn barnaveiki á árinu 1935. Árið 1950 voru sett lög um ónæmisaðgerðir á Íslandi (nr. 36/1950) og í kjölfarið var ungbörnum boðin bólusetning gegn barnaveiki og kíghósta. Frá þeim tíma varð nokkuð hröð þróun í innleiðingu bólusetninga hér á landi eins og sjá má í töflu þar sem greint er frá sögulegu yfirliti yfir bólusetningar á Íslandi. Fljótlega eftir að bólusetningarnar hófust hér á landi fór að draga úr tíðni þeirra sjúkdóma sem bólusett var gegn og má þakka það góðri almennri þátttöku.

Þegar litið er á árangur almennra bólusetninga hér á landi er hægt að fullyrða að hann sé frábær. Allar hafa bólusetningarnar nánast útrýmt þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn og hafa þær þannig komið í veg fyrir fjölda dauðsfalla og annarra alvarlegra afleiðinga.

Í þessari greinargerð hefur aðal-umfjöllunin verið um almennar bólusetningar hjá börnum. Hins vegar má ekki gleyma bólusetningum sem notaðar eru til að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar hjá fullorðnum einstaklingum og einstaklingum á ferðum erlendis. Þessar bólusetningar eru algengar á Íslandi og má fullyrða að þær hafi einnig komið í veg fyrir margar alvarlegar sýkingar.

Þó vel hafi tekist til í málefnum bólusetninga hér á landi er ljóst að þessi árangur er ekki sjálfgefinn. Á undanförnum árum hefur andstaða gegn bólusetningum farið vaxandi víða um heim, sem hefur leitt til minni þátttöku í mörgum löndum með þeim afleiðingum að bólusetningasjúkdómar hafa blossað upp með skelfilegum afleiðingum. Þó velvilji almennings í garð bólusetninga sé mikill á Íslandi gæti áróður andbólusetningasinna leitt til minnkandi þátttöku sem myndi auka á tíðni bólusetningasjúkdóma. Það er því mikilvægt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur með nauðsynlegri fræðslu fyrir almenning, heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld til að tryggja áframhaldandi góða þátttöku. Einnig er mikilvægt að huga að notkun nýrra bóluefna hjá börnum hér á landi eins og við hlaupabólu, lifrarbólgu B, rótaveiru og árlegri inflúensu.

 

Heimildir

1.    Coffield AB, Maciosek MV, McGinnis JM, Harris JR, Caldwell MB, Teutsch SM, et al. Priorities among recommended clinical preventive services. Am J Prevent Med 2001; 21: 1-9.

2.    Ehreth J. The value of vaccination: a global perspective. Comment. Vaccine 2003; 21: 4105-17.

3.    www.who.int/immunization/en/ – febrúar 2018.

4.    www.landlaeknir.is  – febrúar 2018.Þetta vefsvæði byggir á Eplica