03. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Breytt staða og framtíð – FÍH eitt af fjórum meginfélögum LÍ

Á síðasta aðalfundi Læknafélags Íslands var Félag íslenskra heimilislækna gert að einu af fjórum meginfélögum í Læknafélagi Íslands og í framhaldi af því var ég sem formaður beðin að tjá mig um breytta stöðu og framtíð.

Félag íslenskra heimilislækna er 40 ára í ár og varð til þegar fræðafélag heimilislækna var stofnað 1978. Þá var orðinn til öflugur hópur heimilislækna og hugsjónir heimilislækna mótaðar. Ólafur Mixa varð fyrsti íslenski læknirinn til að fá sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum 1971 og lög um heilsugæslu voru sett 1973. Jóhann Ágúst Sigurðsson var ráðinn prófessor í heimilislækningum 1991 og greiddi félagið fyrir þá stöðu í fyrstu. Starf FÍH í upphafi einkenndist af draumi eldhugans um að koma hugsjónum sínum á framfæri og uppskera virðingu samferðafólksins. Félagið hefur staðið í kjarabaráttu, staðið fyrir faglegu starfi, gefið út og endurskoðað staðal fyrir stofur heimilislækna og komið að stefnumótun í heilbrigðismálum í landinu. Auk þess tekur FÍH þátt í öflugu alþjóðlegu samstarfi, bæði í Evrópu- og Norðurlandasamtökum heimilislækna um stefnumótun og endur- og símenntun. Norrænt þing 1300 heimilislækna var síðast haldið hér í fyrrasumar, 2017.

Sérnám í heimilislækningum er í mikilli sókn og færri komast að en vilja. Það hefur staðið til boða á Íslandi í mörg ár og það er 5 ára nám og starf. Marklýsing sérnámsins hefur verið endurskoðuð og endurútgefin reglulega af félaginu og kennslustjóri heldur utan um alla kennslu í greininni ásamt leiðbeinendum einstakra nema.

Á tíunda áratugnum urðu hagsmunaárekstrar í Læknafélagi Reykjavíkur sem urðu til þess að margir heimilislæknar sáu sér ekki annað fært en að segja sig úr félaginu og þar með úr Læknafélagi Íslands. Mörg þung orð höfðu fallið og heimilislæknar upplifðu virðingarleysi og skeytingarleysi læknafélganna um sín kjör og ekki síst sínar hugsjónir varðandi bætt heilbrigðiskerfi. Nú 20 árum síðar eru aðrir tímar, hörð kjarabarátta hefur eflt samstöðu lækna og verkefni okkar lækna orðin svo viðamikil að skilningur á gildi samstöðu og nánu samstarfi sérgreinanna er meiri.

Læknafélag Íslands er samtök allra lækna á landinu. Þar eru hópar lækna með ólíka sérmenntun og ólíka hagsmuni, en öll höfum við sömu grunnmenntun og getum ekki án hvors annars verið. Heimilislæknar taka að sér þjónustu við tiltekinn hóp fólks en flestar aðrar sérgreinar taka að sér sérhæfða þjónustu við sjúkdómaflokka eða aldurshópa. Hugsjón heimilislækna er að leitast við að veita skjólstæðingum sínum faglega þjónustu, byggða á bestu fáanlegu vísindum með áherslu á heilsu fremur en vanheilsu, í samspili læknisfræðilegrar og mannlegrar nálgunar. Heimilislæknar hafa samfélagslega ábyrgð ekki síður en ábyrgð gagnvart einstaklingnum og leitast við að lágmarka ónauðsynlega lyfjagjöf, van- og ofgreiningar, ofmeðferð og fjöllyfjagjöf. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur bent aðildarlöndum í Evrópu á að áhersla á annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, sérhæfðari heilbrigðisþjónustu, sé of mikil miðað við áherslur á forvarnir og heilsugæslu. WHO hefur einnig bent á að æskilegast sé að heilsugæslan sé framvörður í að eiga við lífsstílstengda sjúkdóma. Þessi markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á nokkuð í land á Íslandi þar sem hlutfall heimilislækna af öllum læknum í OECD-löndunum er um 29% en hlutfallið er 16% á Íslandi.

Eitt stærsta verkefni heilsugæslunnar, þar sem flestir heimilislæknar starfa, er eftirlit og meðferð langvinnra veikinda og fjölveikra einstaklinga. Þessi hópur fer stækkandi í okkar þjóðfélagi eins og í öllum hinum vestræna heimi. Þetta eftirlit með langvinnum veikindum er heimilislæknum kært viðfangsefni. Við kynnumst þessum hópi vel og sinnum honum eftir bestu getu en það krefst stöðugleika í læknismönnun og samstarfs við allar hliðar heilbrigðiskerfisins, bæði lækna og annarra stétta. Heilsugæslan er einnig fyrsti viðkomustaður fólks með áhyggjur af heilsu sinni og fólks í þörf fyrir hverskonar leiðsögn í lífinu. Á landsbyggðinni sinna þess utan læknar heilsugæslunnar allri bráðaþjónustu á sínu svæði.

Félag íslenskra heimilislækna tekur breytingum á fyrirkomulagi Læknafélags Íslands með eftirvæntingu og fullvissu um að sem fullgilt aðildarfélag getum við í sameiningu stutt við skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfi landsins og stuðlað að jafnrétti innan stéttarinnar öllum til góðs.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica