02. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Læknafélag Íslands 100 ára - Ávarp formanns á afmælishátíð í Eldborg 15. janúar 2018. Reynir Arngrímsson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ágætu læknar og kollegar!

                                  
                                  Forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, mættur til leiks í Hörpu til að ávarpa
                                  hið hundrað ára gamla Læknafélag Íslands. Reynir Arngrímsson formaður
                                  og Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri bjóða hann velkominn.

Fyrir hundrað árum, þann 14. janúar 1918, stofnuðu 39 læknar Læknafélag Íslands. Við minnumst þeirra með djúpri virðingu  og þakklæti í dag og allra okkar góðu félaga sem á undan okkur hafa helgað starfsævi sína lækningum á Íslandi.

Okkar síunga félag hefur vaxið og dafnað. Í dag eru 1318 félagar í LÍ og í öldungadeild félagsins eru 287 félagsmenn.

Það er ánægjulegt að sjá hversu margir úr okkar röðum eru hér og margir aðrir góðir gestir. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin. Sérstaklega vil ég þakka forseta Íslands þann heiður sem hann sýnir okkur í dag.

Saga lækna og lækninga á Íslandi er löng og heimildir ná aftur til miðalda. Við minnumst stoltir Hrafns Sveinbjarnarsonar og Snorra goða sem þekktir voru meðal annars af lækningum sínum. Virðing fyrir sögu okkar skiptir miklu máli. Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar er einn af sterkustu meiðum samtaka okkar lækna.

Á Stofnun Árna Magnússonar eru varðveitt forn íslensk lækningahandrit, sem við ættum ef til vill að leggja meira af mörkum til kynningar á.

Í upphafi handrits frá 13. eða 14. öld er sagt frá tilurð þess á eftirfarandi hátt.

„Maður hét Hippokrates, hann var spakastur lækna. Hann bauð vildarvini sínum á andlátsdegi sínum að hann skyldi leggja undir höfuð sér í gröf hans allar virktar bækur, hans leyndarlækningar væru um. Miklu síðar kom þar keisari gangandi og sá á gröf hans að þar lá hinn spakasti læknir er verið hafði og hugði hann þar fé mikið vera í gröf þeirri og bauð mönnum sínum að rannsaka gröf þá. En þeir fundu ekki annað í henni en leyndarlæknisbækur hans.“

Þessi formáli sveipar handritið ákveðinni dulúð og má vera að svo sé enn um störf lækna. En með þessari tengingu er einnig verið að auka á trúverðugleikann og uppruni spekinnar sannaður.1 En líka að dýrmætasta eign sérhvers læknis er þekking hans og lærdómur.

 

Læknar hafa frá örófi alda lagt áherslu á samstöðu, mannkosti og dyggðir sem hafa mótað samskipti þeirra á milli og við skjólstæðinga þeirra. Þagmælska og miskunnsemi hafa verið einkennandi fyrir læknastéttina.

Allir þeir sem hafa þurft á aðhlynningu læknis að halda hafa getað treyst á þagnareið lækna.

Ein af fyrstu skyldum lækna er að gæta að því að enginn skaði hljótist af verkum þeirra og ákvörðunum. Primum no nocere. Læknar eiga ætíð að gæta varúðar við störf sín og sýna hófsemi í ákvörðunum og meðferð.

       

Heimildir sýna að stofnun Læknafélags Íslands átti sér nokkurn aðdraganda. Fyrir áeggjan margra lækna og mikinn áhuga landlæknis dr. J. Jónassen var fyrsti fundur starfandi lækna hér á landi haldinn 1896. Samtals 12 læknar mættu til fundarins. Meðal mála sem rædd voru, var stofnun íslensks læknafélags.

Á næsta læknafundi sem haldinn var þremur árum seinna munu þeir 9 læknar sem þar voru saman komnir hafa stofnað Hið íslenzka læknafélag. Þeir samþykktu lög fyrir félagið og reglur um bróðurlega samvinnu milli lækna (Codex ethicus).

Tilgangur félagsins skyldi vera að efla samlyndi og bróðerni, samvinnu og persónulega viðkynningu milli íslenskra lækna, að annast öll sameiginleg áhugamál læknastéttarinnar, halda uppi heiðri hennar í öllu og vernda íslenska læknareynslu frá gleymsku.

Félagið skyldi jafnframt sjá um að haldnir væru læknafundir eigi sjaldnar en annað hvert ár og gefa út alþýðlegt tímarit um heilbrigðismál. Félagið mun hafa orðið lítið annað en nafnið og ókleift reyndist að halda læknafundi.2

Svo virðist sem læknar á Austurlandi og Norðurlandi hafi gert tilraunir til félagsstofnunar kringum aldamótin 1900. Stofnfundur austfirskra lækna mun hafa verið haldinn á Seyðisfirði 16. ágúst 1894. Félagið hélt árlega fundi í nokkur ár í lok 19. aldar en virðist síðan hafa liðið undir lok.3

Guðmundur Hannesson, fyrsti formaður Læknafélags Íslands, var kringum aldamótin 1900 héraðslæknir á Akureyri. Hann beitti sér í félagsmálum nyrðra og hélt læknafund á Akureyri vorið 1902 þar sem meðal annars átti að ræða „organisation“ lækna fyrir norðan og austan.

Amtmaður vildi ekki gefa nema öðrum hverjum lækni fararleyfi og varð að ná samkomulagi um það hverjir ættu að sitja heima og hverjir að fara. Niðurstaðan varð sú að einungis tveir læknar mættu til fundarins.

Næsti læknafundur er ekki haldinn fyrr 11 árum síðar, eða 1909, og er sá fundur ekki almennur læknafundur fyrir land allt, heldur fundur meðal lækna í Reykjavík til þess að ræða afstöðu læknanna gagnvart Sjúkrasamlagi Reykjavíkur og úr verður stofnun LR það sama ár.4

 

Guðmundur Hannesson, sem að öðrum ólöstuðum, telst helsti forystumaður stofnunar Læknafélags Íslands, tiltók fjölmörg rök fyrir því af hverju skynsamlegt væri að stofna læknafélag:

Má þar nefna í fyrsta lagi nauðsyn á samvinnu lækna til að hrinda heilbrigðismálum þjóðarinnar áleiðis og auka þekkingu á þeim, og í öðru lagi hagsmunamál læknastéttarinnar, bæði því að læknar geti staðið sem best í stöðu sinni og að þeir fái sómasamleg laun fyrir starf sitt.

Læknar lifi víða við svo aumleg kjör að vart megi lífvænlegt heita, svo aumleg að illmögulegt sé að fylgjast með í fræðigreininni og óvíst sé að Alþingi fáist til að bæta kjörin að nokkru ráði. Þetta myndi horfa öðru vísi við ef öll læknastéttin stæði sem einn maður.

       

Í grein sem Guðmundur ritar 1916 segir hann:5

„Vér þurfum að „o r g a n i s e r a“ læknastéttina hér á landi og síðan starfa samhentir bæði að ýmsum þjóðþrifum og hagsmunamálum stéttar vorrar.

Hvarvetna um heim eru læknar félagslyndir. Eg skil ekki að vér stöndum öllum öðrum að baki.“

Undirbúningi að stofnun íslensks læknafélags miðaði áfram og félagið var formlega stofnað á félagsfundi í Læknafélagi Reykjavíkur 14. janúar 1918.

Á fyrsta aðalfundi Læknafélags Íslands 1919 lagði Guðmundur Hannesson, fyrsti formaður þess, til að Ásgeir Blöndal yrði gerður að heiðursfélaga. Hann hefði fyrstur lagt til að læknar hér á landi mynduðu félagsskap með sér.

Árið 1933, á 15 ára afmæli félagsins, var Guðmundur Hannesson kosinn annar heiðursfélagi Læknafélags Íslands. Hann hvarf þá úr stjórn eftir samfellda 15 ára stjórnarsetu, þar af 10 ár sem formaður.

       

Á eftir verða 15 núverandi félagsmenn heiðraðir fyrir störf sín.

 

Árangursríkt félagsstarf byggir á þátttöku og virkni félagsmanna og líka á virðingu í samskiptum þeirra á milli. Það er mikilvægt að temja sér hófsemi í orði og framkomu.

Að gleyma aldrei hver við erum og að til okkar er horft sem einstaklinga og sem hluta af ævafornri samheldinni stétt sem þekkt er fyrir að hafa frá örófi alda sett sér siðareglur og unnið læknaeiðinn.

Góðir félagar. Siðareglur okkar, Codex ethicus, eru ekki úr lausu lofti gripnar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr eigum við öll við meðfædda bresti mannsins að glíma og togstreita milli dyggða og lasta er eilíf barátta allt okkar líf.

Ég er viss um að öll getum við litið í eigin barm og fundið orð sem betur hefðu verið ósögð, framkoma og atvik sem við iðrumst. Þá er mikilvægt að sú reynsla og þau orð verði okkur lærdómsrík. Okkar þroskaskref.

Styðjum þá sem eiga um sárt að binda, en einnig þá sem hafa vikið af hinum beina vegi. Verum öðrum leiðarljós og sýnum hófsemi og miskunnsemi í dómum okkar.  

       

Það er ekki alltaf auðvelt að vera læknir. Að fylgjast með í erfiðum veikindum sjúklinga sinna, að styðja syrgjandi fjölskyldur, að vera kletturinn sem rís upp úr ölduróti sorgar og gleði á ögurstundum í lífi samborgara okkar. Það reynir á lækna í samskiptum sín á milli og við aðra.

Þess sjást merki að það tekur sinn toll að vera læknir, bæði af heilsufari og fjölskyldulífi lækna. Þessu þurfum við að mæta sem einstaklingar og sem samheldin stétt. Það er okkar helsta núvitundar verkefni. Gleðistundir eru mikilvægar, næsta vika – Læknadagar, er okkar sólrisuhátíð.

       

Ég vil að lokum færa afmælisnefndum félagsins okkar, starfsfólki og félögum mínum í stjórn LÍ þakkir og þeim fjölmörgu félögum í okkar röðum og samstarfsaðilum sem lagt hafa hönd á plóginn til að gera 100 ára afmæli Læknafélags Íslands að stund gleðinnar og stund framtíðarinnar.

Það er með auðmýkt og þakklæti sem ég stend hér og minnist þessara tímamóta. Megi gæfa og gleðiríkir dagar fylgja Læknafélagi Íslands og félagsmönum þess. Megi starfsemi félagsins verða landinu og læknum áfram til gagns og blessunar um ókomna tíð.

Til hamingjum með daginn íslenskir læknar.

 

Heimildir

 

1. Ísberg JÓ. Líf og lækningar, íslensk heilbrigðissaga. Reykjavík 2005: 47.
 
2. Hannesson G. Íslenskt læknfélag. Læknablaðið 1915; 1: 3.  
 
3. Hanneson G. Íslensk læknafélög. Læknablaðið 1915; 1: 30.  
 
4. Jónsson J. "Um læknafundi." Læknablaðið 1936; 22: 58.  
 
5. Hannesson G. "Íslenskt læknafélag." Læknablaðið 1916; 2: 169-71.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica