02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Embætti landlæknis 22. pistill. Yfir 10.000 fengu ávísað metýlfenídati árið 2017

Heildarfjöldi þeirra sem fá ávísað metýlfenídati jókst um 13,1% árið 2017 miðað við árið 2016. Fjöldi notenda hefur aukist ár frá ári bæði hjá konum og körlum og tvöfalt fleiri fengu lyfinu ávísað árið 2017 miðað við árið 2012. Árið 2017 voru 35 karlar og 25 konur af hverjum 1000 íbúum sem leystu út metýlfendíat, sjá töflu I .1,2

Fjöldi ávísaðra dagskammta jókst samhliða aukningu í fjölda einstaklinga sem fékk lyfinu ávísað.1,2

Árið 2017 fengu rúmlega 3000 einstaklingar ávísað metýlfenídati sem ekki höfðu fengið ávísað lyfinu árið áður. Fjöldi nýrra notenda meðal barna yngri en 18 ára var 1311 en fullorðinna var 1886, sjá töflu II .

Fjöldi nýrra notenda frá árinu 2012 til 2017 jókst um 78%.1 Svipuð aukning var meðal barna og fullorðinna en einnig meðal karla og kvenna. Hlutfallslega mest aukning var á meðal einstaklinga á miðjum aldri en flestir nýir notendur eru í aldurshópnum 10-29 ára,1,2 sjá graf  1 .

Alls hafa 26.000 Íslendingar fengið ávísað metýlfenídati frá árinu 2002 en talsverður fjöldi er aðeins á lyfinu í stuttan tíma.1 Tæplega 1000 karlar og 700 konur fengu lyfjunum ávísað árið 2016 en ekki árið eftir, eða um 16% allra sem voru á metýlfenídati árið 2016.1 Algengi ADHD er talið vera um 5% meðal barna en 3% meðal fullorðinna og því eru alltaf einhverjir sem losna við einkennin þegar þeir komast á fullorðinsaldur. Lyfin gagnast ekki öllum og einnig eru dæmi um að fólk þoli ekki lyfin vegna aukaverkana. Þá er einhver hópur fólks með ADHD sem finnur lausn sinna mála með öðru móti en lyfjagjöf.

Ekki er ætlast til þess að þeir sem eiga sögu um misnotkun lyfja eða ákveðinna fíkniefna séu á örvandi lyfjum. Embætti landlæknis fær reglulega vísbendingar um að lyfin gangi kaupum og sölum bæði til fíkla í harðri neyslu en einnig til annarra, eins og til dæmis fólks sem er í námi. Fyrir heilbrigða og þá sem eru með ADHD fylgir alltaf einhver áhætta notkun örvandi lyfja og rannsóknir sýna að vafasamur vitrænn ávinningur sé fyrir heilbrigða einstaklinga af örvandi lyfjum.3 Ótvírætt er að lyfin geta hjálpað fólki að vaka og halda einbeitingu og að þau hjálpi fólki með ADHD en varasamt getur verið að fólk sé að taka lyfin án samráðs við lækni.

Eitt helsta áhyggjuefni varðandi örvandi lyf er notkun lyfjanna í mjög stórum skömmtum í langan tíma. Geðrof er til dæmis vel þekkt ástand meðal einstaklinga sem misnota örvandi efni. Árið 2017 fengu 74 einstaklingar ávísað að meðaltali yfir 120 mg af metýlfenídati hvern dag ársins og 20 einstaklingar amfetamíni í yfir 40 mg skammti hvern dag ársins, en þetta eru mjög stórir skammtar. Stórir skammtar af örvandi lyfjum til langs tíma geta leitt af sér aukaverkanir eins og geðrof, flog en einnig hjarta og æðasjúkdóma. Embætti landlæknis hefur óskað eftir skýringum frá læknum sem ávísa lyfjum í þessum skömmtum og eru slíkar ávísanir að mestu bundnar við fámennan hóp lækna. Ekki er óalgengt að þessir sjúklingar eigi við margvíslegan vanda að stríða og fái önnur tauga- og geðlyf í miklum mæli ásamt örvandi lyfjum. Íslendingar nota meira af ýmsum ávanabindandi lyfjum en flestar þjóðir og tengsl virðast vera á milli ávísaðs magns lyfjanna og misnotkunar. Misnotkun lyfja er síst minna heilbrigðisvandamál en misnotkun ólöglegra efna og því er það stefna Embættis landlæknis að takmarka hana sem mest, enda eitt af hlutverkum embættisins að stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun.

Að lokum vill Embætti landlæknis leggja áherslu á að þegar örvandi lyf eru notuð á réttan hátt af réttum sjúklingi hafa þau oftast afgerandi þýðingu fyrir lífsgæði viðkomandi einstaklings.

 

Heimildir

 

1. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis.
 
2. Mannfjöldatölur frá Hagstofu Íslands.  
 
3. Lakhan SE, Kirchgessner A. Prescription stimulants in individuals with and without attention deficit hyperactivity disorder: misuse, cognitive impact, and adverse effects. Brain Behav 2012; 2: 661-77.
https://doi.org/10.1002/brb3.78

PMid:23139911 PMCid:PMC3489818

 
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica