02. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Stofnfundur Félags sjúkrahúslækna

 

Nýtt stéttarfélag lækna leit dagsins ljós á Læknadögum þegar haldinn var stofnfundur Félags sjúkrahúslækna miðvikudaginn 17. janúar. Stofnun félagsins kemur í kjölfar mikilla breytinga á skipulagi Læknafélags Íslands sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi og kynntar hafa verið rækilega hér í blaðinu.

                                   
                                    Fyrsta stjórn Félags sjúkrahúslækna, skipuð á Læknadögum, 17. janúar
                                    2018. Frá vinstri: Ólafur Helgi Samúelsson gjaldkeri, Ragnheiður
                                    Baldursdóttir meðstjórnandi, María Gunnbjörnsdóttir formaður,
                                    Sunna Snædal ritari og Hjörtur Friðrik Hjartarson varaformaður.

Hið nýja félag á að rúma alla þá lækna sem starfa á sjúkrahúsum og opinberum stofnunum og skarast þannig að nokkru leyti við Félag almennra lækna en eins og fram kom á fundinum er ekkert sem hindrar þá er vilja að vera félagar í báðum félögum eða þess vegna fleirum. Sjúkrahúslæknar voru áður í Læknafélagi Reykjavíkur en það verður héðan í frá stéttarfélag sjálfstætt starfandi lækna og getur því orðið skörun þar á milli ef læknir starfar bæði sjálfstætt og á sjúkrahúsi. Viðbúið er að einhverjar breytingar verði á lögum Læknafélags Reykjavíkur á aðalfundi nú í vor vegna þessa.

Að Læknafélagi Íslands standa því nú fjögur félög: Félag sjúkrahúslækna, Félag almennra lækna, Læknafélag Reykjavíkur og Félag heimilislækna. Öll munu þau eiga tvo fulltrúa í stjórn LÍ og fara með atkvæði sinna félagsmanna á aðalfundi LÍ. Þeir félagar sem velja að vera í fleiri en einu félagi geta skipt atkvæði sínu til helminga á milli tveggja en þó ekki fleiri, þó sá möguleiki sé sannarlega hugsanlegur að einn og sami læknirinn geti verið félagi í öllum fjórum aðildarfélögum LÍ.

Formenn þessara félaga eiga sæti í stjórn LÍ en auk þess kýs aðalfundur hvers félags einn fulltrúa úr sínum röðum til stjórnarsetu í LÍ en formaður LÍ er kosinn beinni rafrænni kosningu allra félaga í LÍ. Allt eru þetta breytingar sem unnið hefur verið að frá því snemma á síðasta ári og verður endanlega frá þeim gengið á næsta aðalfundi LÍ sem haldinn verður í lok október.

Á stofnfundi Félags sjúkrahúslækna kynnti Dögg Pálsdóttir lögfræðingur LÍ lög hins nýja félags og eftir smávægilegar breytingar á einstökum greinum voru lögin borin upp til atkvæðis og samþykkt samhljóða. Ekki var minni samstaða um kosningu fyrstu stjórnar félagsins en tillaga undirbúningsnefndar að stjórn var samþykkt einum rómi og var ný stjórn því sjálfkjörin við dynjandi lófaklapp. Í hinni nýju stjórn sitja María Gunnbjörnsdóttir formaður, Hjörtur Friðrik Hjartarson varaformaður, Ólafur Helgi Samúelsson gjaldkeri, Sunna Snædal ritari og Ragnheiður Baldursdóttir meðstjórnandi.

Nokkrar umræður urðu um félagsgjald og voru fundarmenn aðallega að velta fyrir sér hvort það kæmi að einhverju leyti í stað þess félagsgjalds sem þeir greiða til LÍ. Svo er ekki enda munu aðildarfélögin fjögur ekki bera neinn kostnað af launum formanna sinna heldur er það LÍ sem greiðir þau og sagði Dögg Pálsdóttir að helsti kostnaðurinn sem hið nýja félag mætti gera ráð fyrir, væri við ferðir stjórnarmanna þar sem líklegt væri að einn eða fleiri þeirra kæmu af sjúkrastofnunum utan af landi. Var félagsgjald samþykkt 5000 krónur.

Í stuttu ávarpi í lok fundarins þakkaði nýi formaðurinn fundarmönnum traustið og sló svo á létta strengi og kvaðst hafa vonað að fram kæmi mótframboð því undirbúningsnefndin hefði hitt á sig í kæruleysiskasti og hún því játað því að gefa kost á sér. Af meiri alvöru sagði hún framundan vera gerð nýs kjarasamnings fyrir sjúkrahúslækna og nyti hún þar góðs af samstarfi við Sigurveigu Pétursdóttur formann samninganefndar LÍ í síðustu samningalotu við ríkisvaldið.  

Sjúkrahúslæknar á Akureyri voru einnig viðstaddir stofnfundinn með rafrænum hætti þar sem fundinum var streymt til þeirra og gátu þeir því tekið fullan þátt í samhljóða atkvæðagreiðsl-unum öllum við mikil fagnaðarlæti beggja megin. Það kom þó fram að allir sem ganga í félagið á þessu fyrsta starfsári þess munu teljast til stofnfélaga og er gert ráð fyrir að þetta verði eitt stærsta stéttarfélag lækna innan Læknafélags Íslands.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica