01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Genfar-yfirlýsing Alþjóðalæknafélagsins

Samþykkt af 2. allsherjarþingi Alþjóðalæknafélagsins í Genf í Sviss í september 1948,
endurskoðað af 22. allsherjarþinginu í Sydney í Ástralíu í ágúst 1968
og 35. allsherjarþinginu í Feneyjum á Ítalíu í október 1983
og 46. allsherjarþinginu í Stokkhólmi í Svíþjóð í september 1994
og með orðalagsbreytingum 170. fundar stjórnar Alþjóðalæknafélagsins í Divonne-les-Bains í Frakklandi í maí 2005
og 173. fundar stjórnar Alþjóðalæknafélagsins í Divonne-les-Bains í Frakklandi í maí 2006
og endurskoðað af 68. allsherjarþinginu í Chicago í Bandaríkjunum í október 2017.

 

LÆKNISHEITIÐ

SEM LÆKNIR

HEITI ÉG ÞVÍ að helga líf mitt þjónustu í þágu mannúðar;

ÉG MUN HAFA HEILBRIGÐI og vellíðan sjúklinga minna í fyrirrúmi;

ÉG MUN VIRÐA sjálfræði og mannlega reisn sjúklinga minna;

ÉG MUN VIRÐA mannslíf staðfastlega til hins ýtrasta;

ÉG MUN EKKI LÁTA aldur, sjúkleika eða fötlun, trúarbrögð, uppruna, kyn, þjóðerni, stjórnmálatengsl, kynþátt, kynhneigð, þjóðfélagslega stöðu eða neitt annað hafa áhrif á skyldu mína gagnvart sjúklingum mínum;

ÉG MUN GÆTA FYLLSTU ÞAGMÆLSKU um allt það sem sjúklingar trúa mér fyrir, einnig að þeim látnum;

ÉG MUN RÆKJA starf mitt af samviskusemi og virðingu og í samræmi við góða starfshætti lækna;

ÉG MUN HALDA Í HEIÐRI virðingu og góðar hefðir læknastéttarinnar;

ÉG MUN AUÐSÝNA kennurum mínum, starfsfélögum og nemendum þá virðingu og þakklæti sem þeim ber;

ÉG MUN miðla læknisfræðilegri þekkingu minni í þágu sjúklinga minna og framfara í heilbrigðisþjónustu;

ÉG MUN GÆTA VEL AÐ eigin heilsu, vellíðan og færni svo að ég fái veitt sem besta þjónustu;

ÉG MUN EKKI BEITA læknisfræðilegri þekkingu minni til að brjóta gegn mannréttindum og borgaralegu frelsi, jafnvel þó mér sé ógnað;

ÞESSU LOFA ÉG af fúsum og frjálsum vilja og legg það við heiður minn.

 

Íslensk þýðing: Helga Jónsdóttir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica