01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

LÍ bregst við #MeToo áskorun kvenna í læknastétt

                              

Nefnd skipuð af stjórn Læknafélags Íslands að frumkvæði kvenna í læknastétt kom saman í fyrsta sinn í vikunni fyrir jól. Konur í læknastétt sem skrifað hafa undir #MeToo-yfirlýsingu á undanförnum vikum eru nær 1100 talsins. Í þeim hópi eru konur starfandi á Íslandi og erlendis auk læknanema bæði hér heima og erlendis.

Nefndinni er ætlað að fara yfir siðareglur LÍ og gera tillögur um að móta þær og aðlaga að þeim kröfum sem nú er uppi um samskipti kynjanna á vinnustöðum og tryggja að siðareglurnar séu aðgengilegar fyrir félagsmenn til að vekja athygli á þessu mikilvægi málefni.

Í nefndinni sitja Svanur Sigurbjörnsson læknir og formaður siðfræðiráðs LÍ, Sunna Snædal læknir, Ólöf Sara Árnadóttir læknir (frá vinstri til hægri á myndinni), María Soffía Gottfreðsdóttir læknir stjórnarmaður í LÍ og Áslaug Heiða Pálsdóttir læknir en þær sitja einnig í siðfræðiráði LÍ.

„Við erum að hittast í fyrsta sinn og eigum í sjálfu sér eftir að setja niður fyrir okkur hvernig við nálgumst þetta en segja má að stóra samhengið sé undir. Læknar vinna á mörgum stöðum og stofnunum þar sem aðstæður eru mismunandi frá einum stað til annars en sannarlega þurfa viðbrögð við kynferðislegri áreitni að vera skýr og ákveðin. En það er ýmislegt fleira í samskiptum kynjanna innan hinna ýmsu stofnana sem þarf að skoða og vekja athygli á. Þar erum við að tala um samskipti lækna á milli en einnig samskipti lækna við annað heilbrigðisstarfsfólk,“ segja nefndarmenn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica