01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Eru læknar læknum verstir?

FAL heldur málþing á Læknadögum helgað læknum

Hlutverk lækna er margþætt og starfið sérstakt. Störf lækna hafa lengi verið óþrjótandi innblástur frásagnarlista og kvikmynda enda af mörgu að taka. Læknirinn hefur oft verið baðaður dýrðarljóma og rómantík enda er honum ekkert mannlegt óviðkomandi í krefjandi og spennandi starfsumhverfi sínu. En starfið hefur líka dökkar hliðar. Það hefur breyst mikið á undanförnum áratugum. Tækniframfarir og vaxandi einstaklingsfrelsi í markaðshagkerfi Vesturlanda leggur miklar byrðar á herðar lækna. Hann þarf að sýna stjórnunarhæfileika, kennslugetu, hafa viðskiptavit, sinna skipulagi auk þess að vera jafnvígur á vísindastörf, siðfræði og lögfræði. Og já, hann þarf auðvitað að geta sinnt grunnstoðum læknastarfsins og læknað sjúklinga.

Læknirinn er ekki lengur almannaeign sem helgar líf sitt á altrúískan hátt læknastarfinu og biður ekki neins í staðinn. Læknirinn er mannlegur. Jafnvægi á milli þess faglega og fjárhagslega – þess kerfislæga og skapandi er ekki auðsótt og getur verið aflvaki streitu og kulnunar í starfi. Þá eru til enn dekkri hliðar starfsins sem lítið er talað um þó mikil þörf sé á. Þunglyndi, heilsuleysi, misrétti, misnotkun vímuefna og sjálfsvíg. Læknar eiga það til að einangrast og leita sér ekki hjálpar. Óraunhæfar kröfur, samkeppni, dómharka og sjálfsásökun eru því miður lýsandi orð fyrir mörgum í læknastéttinni og mætti því spyrja þessarar spurningar:

Á þessu stórafmælisári Læknafélags Íslands mun FAL halda málþing sem er helgað lækninum. Farið verður yfir sögu læknisfræðinnar. Hvernig læknastarfið hefur þróast og breyst og til hvers samfélagið ætlast af læknum. Skyldur, fórnir, gleði, sorgir og framtíðaráskoranir. Tekið verður á erfiðu málunum. Kulnun, fíkn, úrræðaleysi og þöggun. Rætt verður sérstaklega um það vandasama jafnvægi milli þess að vera læknir, sjúklingur, aðstandandi og meðferðaraðili þegar veikindi eða vandamál bera að garði. Enginn verður þó skilinn eftir í lausu lofti og verður einnig leitað að jafnvægi, úrræðum og hamingjunni sjálfri. Að lokum verða pallborðsumræður þar sem ráðstefnugestum gefst færi á að taka þátt í umræðunni og leita lausna.

Hvetjum við lækna til að fjölmenna á málþingið sem haldið er fyrsta dag læknadaga, mánudaginn 15. janúar kl. 9. Það er mikilvægt að læknar hjálpist að og styðji hvern annan þegar á móti blæs og gleðjist saman þegar að vel gengur. Fjölmennum á atburði Læknafélags Íslands á afmælisárinu og fögnum læknahlutverkinu. Lítum til baka, lærum af reynslunni en horfum síðan fram á veginn og höldum ótrauð áfram að gera það sem við gerum best, að lækna og hafa gaman af því.Þetta vefsvæði byggir á Eplica