01. tbl. 104. árg. 2018

Umræða og fréttir

Lögfræði 25. pistill. Fyrstu siðareglur lækna og fyrstu lög Læknafélags Íslands

Hinn 14. janúar 2018 fagna læknar þeim merka áfanga að Læknafélag Íslands verður aldargamalt. Í pistli þessum verður fjallað um fyrstu siðareglur lækna og lög Læknafélags Íslands eins og um hvorutveggja er fjallað á síðum Læknablaðsins.

Heimildir sýna að stofnun Læknafélags Íslands átti sér allnokkurn aðdraganda. Raunar benda heimildir til þess að árið 1898 hafi 9 læknar sem voru samankomnir á læknafundi stofnað Hið íslenzka læknafélag. Lög voru samþykkt fyrir félagið og reglur um bróðurlega samvinnu milli lækna (Codex ethicus). Félagið starfaði þó aldrei. Tímaritið Eir – Mánaðarrit handa alþýðu um heilbrigðismál, sem gefið var út um tveggja ára skeið, 1899 og 1900, má rekja til þessarar félagsstofnunar þó félagið hefði ekkert með útgáfu þess að gera.1

Hinn 16. maí 1915 var að tilhlutan landlæknis héraðslæknafundur á Austurlandi. Þar voru meðal annars ræddar siðareglur og ályktað: Fundurinn álítur rangt, að læknar ráði sig í héruð, þar sem héraðslæknir er fyrir, ef engar sakir eru sannaðar á hann í embættisfærslu hans. Jafnframt skorar fundurinn á Læknafélag Reykjavíkur að vinda bráðan bug að því, að semja Codex ethicus fyrir íslenzka lækna og senda þeim hann til samþyktar.2

Læknafélag Reykjavíkur kaus Guðmund Magnússon, Guðmund Hannesson og Matthías Einarsson í nefnd til að gera tillögur um siðareglur. Nefndin leitaði meðal annars til Noregs með upplýsingar og kynnti tillögur sínar á fundi í félaginu 8. nóvember 1915. Tillögurnar voru birtar í nóvembertölublaði Læknablaðsins 1915 og læknum gefnir þrír mánuðir til að koma að athugasemdum.3 Nokkrar breytingatillögur bárust. Þær voru kynntar læknum í marstölublaði Læknablaðsins 1916 og eftir því kallað að læknar sendu atkvæði sín við breytingatillögurnar hið fyrsta.4

Vinnu við siðareglurnar lauk loks ári síðar á fundi Læknafélags Reykjavíkur 13. nóvember 1916 með því að upphaflegu tillögurnar voru samþykktar nánast óbreyttar. Margt hafði orðið til tafa og einkum það að svör frá læknum komu seint og urðu fá.5

Fyrstu siðareglur lækna voru í 11 greinum og giltu fyrir alla lækna sem störfuðu hér á landi. Tilgangur reglnanna var að efla gott samkomulag og bróðurlega samvinnu meðal lækna. Þær bönnuðu læknum, í viðurvist sjúklings eða annarra en læknis, að fara niðrandi orðum um stéttarbræður sína, jafnvel þótt ástæða kynni að vera til slíks. Þær bönnuðu læknum að nota óþarfa auglýsingar, blaðagreinar eða aðrar ósæmilegar aðferðir í því skyni að teygja sjúklinga til sín frá öðrum læknum. Þá skyldu læknar forðast eftir megni þakkarávörp og aðrar gyllingar og þá máttu þeir ekki heldur gefa í skyn að þeir þekktu betri lyf eða læknisaðferðir sem öðrum læknum væru ekki kunnar.

Siðareglurnar geymdu nokkur ákvæði um samskipti milli lækna vegna sjúklinga og virðast endurspegla ákveðna samkeppni um sjúklinga. Þannig bönnuðu þær læknum að bjóðast til að taka að sér læknisstörf fyrir minna endurgjald en aðrir tækju. Þær mæltu svo fyrir að læknir, sem sóttur var til sjúklings, sem reyndist undir höndum annars læknis, gerði einungis það bráð nauðsynlega og ekki skyldi hann vitja sjúklingsins oftar nema fyrri lækni hefði verið tilkynnt að sjúklingur óskaði að breyta um lækni eða læknirinn hefði sagt skilið við sjúklinginn. Ef sjúklingur, aðstandendur eða læknir sjúklings vildu samráð við annan lækni skyldi það gert og læknarnir bera ráð sín saman í einrúmi. Sá læknir sem hafði sjúklinginn til meðferðar skyldi síðan fyrirskipa það sem þeir kæmu sér saman um. Næðu þeir ekki samkomulagi skyldu þeir saman, í viðurvist sjúklings eða aðstandenda, setja fram skoðanir sínar. Sjúklingurinn eða aðstandendur skyldu síðan velja hvor læknirinn skyldi halda lækningunni áfram. Ef læknirinn sem hafði stundað sjúklinginn mætti ekki til þessa samráðs skyldi aðfengni læknirinn ráðleggja það sem honum virtist bera brýn nauðsyn til en ekki vitja sjúklingsins oftar nema eftir samkomulagi við lækninn sem fyrst stundaði sjúklinginn.

Í siðareglunum eru  athyglisverð ákvæði um afleysingaþjónustu lækna. Ef læknir gat ekki gegnt störfum sínum vegna ferðalags, sem honum var ekki sérstaklega borgað fyrir, eða sjúkleika, skyldu nágrannalæknar, ef kringumstæður leyfðu, gegna störfum hans, honum að kostnaðarlausu í einn mánuð en tvo ef um sjúkleika væri að ræða, nema viðkomandi læknir auglýsti sjálfur að hann hefði fengið fyrir sig afleysingalæknir. Um greiðslu fór eftir því hvort sjúklingur væri í samlagi hjá hinum fasta lækni. Þá mátti ekki krefja sjúklinginn um gjald fyrir afleysingaþjónustuna nema afleysingalæknirinn hefði farið lengra frá heimili sínu en eina mílu eða ef um meiri háttar operation hefði verið að ræða. Afleysingalæknirinn mátti á hinn bóginn þiggja endurgjald, væri það boðið. Embættislausum læknum var heimilt að setjast að hvar sem vera skyldi. Þó mátti læknir, sem verið hafði aðstoðarlæknir fyrir annan eða staðgengill, ekki setjast þar að fyrr en að minnsta kosti eitt ár var liðið frá því hann dvaldist þar og forðast skyldi hann að rýra á nokkurn hátt álit þess læknis sem hann starfaði fyrir.

Í siðareglunum eru einnig fyrirmæli um þjónustu lækna við aðra lækna, konur þeirra, ekkjur og ófullveðja börn. Þessir aðilar áttu rétt á ókeypis læknishjálp hjá hverjum þeim lækni sem þeir óskuðu. Þó mátti ekki krefjast ókeypis læknishjálpar ef læknir var sóttur um langan veg. Þá var lækni heimilt að þiggja endurgjald ef sá sem hjálpar naut krafðist þess, einkum ef fátækur læknir átti í hlut gagnvart efnuðum.

Ágreiningi um læknamál milli lækna skyldi skjóta til 5 manna gerðardóms sem í sátu einn kosinn af læknadeild, annar af Læknafélagi Reykjavíkur, landlæknir var sá þriðji og formaður dómsins. Loks skyldi hvor málsaðili tilnefna lækni, sem undirskrifað hafði siðareglurnar, í gerðardóminn. Hvor málsaðili átti rétt á því að ryðja einum hinna föstu dómenda úr dómnum og tók þá varamaður sæti hans. Gerðardómur skyldi leggja dóm á mál sem hann fékk til meðferðar innan misseris frá því að málsaðilar höfðu kosið dómendur. Allir læknar sem höfðu undirritað siðareglurnar skyldu hlíta úrskurði gerðardómsins.

Refsiákvæði var í siðareglunum þess efnis að læknar sem brytu gegn þeim skyldu hvorki njóta afleysingahlunninda né ókeypis læknisþjónustu fyrir sig og sitt fólk.5

Á fundi í Læknafélagi Reykjavíkur 5. mars 1917 var samþykkt tillaga að lögum fyrir Læknafélag Íslands, sem birtust í 3. tölublaði Læknablaðsins 1917. Læknar voru beðnir að senda athugasemdir sínar hið fyrsta.6 Ekki er að sjá að neinar athugasemdir hafi borist við drögin.

Fyrstu lög Læknafélags Íslands voru stutt, 11 greinar. Um tilgang félagsins segir í 2. gr.:

Tilgangur félagsins er að efla hag og sóma íslenzkrar læknastéttar, samvinnu meðal lækna í heilbrigðismálum þjóðarinnar og glæða áhuga lækna fyrir öllu, er að starfi þeirra lýtur.

Félagsmenn gátu orðið allir íslenskir læknar sem tekið höfðu fullkomið læknapróf, hvort sem þeir væru búsettir hér á landi eða erlendis.

Í stjórn félagsins skyldu vera þrír læknar, búsettir í Reykjavík eða nágrenni. Þá skyldi kosinn einn varamaður. Formaður yrði sá sem flest atkvæði fengi, en að öðru leyti skipti stjórnin sjálf með sér verkum. Kosning skyldi fara fram í nóvember og gilda til tveggja ára, miðað við áramót. Þá skyldu læknar í Austur-, Vestur- og Norðurlandsfjórðungi kjósa einn fjórðungsfulltrúa fyrir sinn fjórðung, stjórninni til aðstoðar. Þessi fulltrúakosning skyldi fara fram um leið og stjórnarkosning.

Stjórnin skyldi sjá um allar framkvæmdir félagsins og hafa vakandi auga með öllum þeim málum sem vörðuðu læknastéttina eða heilbrigði almennings. Hún skyldi skora á alla lækna er lyku prófi að gerast félagsmenn en hún hafði jafnframt vald til að neita læknum um inntöku í félagið og að vísa þeim úr því um stundarsakir, væri ástæða til. Aðalfund skyldi að forfallalausu halda á ári hverju í júní, júlí eða ágúst.

Á fyrsta aðalfundi Læknafélags Íslands 1919 lagði Guðmundur Hannesson fyrsti formaður þess til að Ásgeir Blöndal yrði gerður að heiðursfélaga. Hann hefði fyrstur lagt til að læknar hér á landi mynduðu félagsskap með sér. Tillagan var samþykkt samhljóða og var Ásgeir Blöndal því fyrsti heiðursfélagi Læknafélags Íslands.7

 

Heimildir

 

1. Hannesson G. "Íslenzkt læknafélag." Læknablaðið 1915; 1: 3.
 
2. "Læknafundur á Eskifirði." Læknablaðið 1915; 1: 91-2.  
 
3. Hannesson G. "Codex ethicus og íslenzkt læknafélag." Læknablaðið 1915; 1: 163-7.  
 
4. Hannesson G. "Breytingatillögur við Codex ethicus." Læknablaðið 1916; 2: 39-40.  
 
5. Hannesson G. "Codex ethicus." Læknablaðið 1916; 2: 166-9, 71.  
 
6. "Læknafélag Íslands." Læknablaðið 1917; 3: 41-2.  
 
7. "Fyrsti aðalfundur í Læknafélagi Íslands." Læknablaðið 1920; 5: 97-111.  


Þetta vefsvæði byggir á Eplica