01. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Minningar um Jón Steffensen
Ég sá Jón Steffensen fyrst á 1. ári í læknadeild, en við félagar fórum strax að sækja tíma hjá honum í líffærafræði. Jón var hávaxinn, mikill á velli, fremur stórskorinn og áberandi nefstór. Svipurinn stundum dálítið kankvís. Hægur í hreyfingum. Röddin sérkennileg og hann talaði hægt og dró mjög seiminn. Átti til þann kæk að taka stóra lyklakippu upp úr vasa sínum og láta hringla í henni. Hann var í eðli sínu fremur ómannblendinn og seintekinn og hleypti fólki ekki auðveldlega nærri sér. Okkur fannst hann ekki árennilegur. Kennslan fór þannig fram að þeir sem voru vel lesnir sátu á fremsta bekk og var hlýtt yfir námsefnið. Fyrir kom að hann tæki upp menn sem verið höfðu nokkur ár í deildinni, en sátu aftarlega. Færðust þeir undan gátu fallið dálítið kvikindislegar athugasemdir, en Jón átti til að vera mjög neyðarlegur í tilsvörum og eru til af því margar sögur. Hann var kröfuharður en ákaflega sanngjarn og gerði sér ekki mannamun. Ég hef aldrei hitt þann mann sem gat með sanni sagt að hann hefði verið eftirlætisnemandi Jóns Steffensen! Mér er hann sérlega minnisstæður frá verklega námskeiðinu. Hann gekk þar um og leiðbeindi okkur, fámáll en skýr. Hann reykti pípu og var lyktin af Dunhill tóbakinu sérlega góð. Eftir að prófi lauk sá ég hann ekki fyrr en ég kom heim frá Bandaríkjunum og hafði lært lungnalækningar. Jón var þá orðinn astmaveikur og svo fór að ég varð læknir hans.
Málverk eftir Kjarval sem hékk í borðstofu Jóns. Myndin nú í eigu
Læknafélags Reykjavíkur.
Skrifborðsstóll Jóns sem er í safni því sem hann ánafnaði
Þjóðarbókhlöðunni eftir sinn dag. Áklæðið saumaði Kristín Ólafs,
eiginkona hans.
Myndir af Jóni eftir Gunnar heitinn Eyþórsson fréttamann sem
stundaði læknanám um hríð og sótti tíma hjá Jóni. Hann náði svip Jóns
einstaklega vel. Á myndinni í miðið eru pípan og lyklakippan á sínum stað!
Myndirnar birtust fyrst í Læknanemanum 1965 sem kveðja
í tilefni sextugsafmælis Jóns.
Um 1980 komu á markaðinn lyfjaglös sem börn áttu ekki að geta opnað. Það reyndist svo að eldra fólk átti líka í erfiðleikum með það. Eitt kvöldið hringdi Jón í mig. Hann var aldrei hraðmæltur, en núna heyrðust miklar stunur og krimt áður en hann kom sér að efninu. „Ég get bara alls ekki opnað þessi nýmóðins lyfjaglös,“ sagði hann. Ég sagði það mál auðleyst. Ég kæmi til hans vikulega og skammtaði honum lyfin í kassa sem auðvelt væri að opna. Þetta er eitt það besta sem mig hefur hent á lífsleiðinni. Nú kynntumst við vel og urðum fljótlega miklir vinir. Ég ætlaði mér aldrei minna en klukkutíma í heimsóknina. Við ræddum saman um heima og geima og ævinlega biðu tveir Lövenbräu á borðinu þegar ég kom sem við deildum með okkur. Fyrir kom að þeir urðu fjórir. Ég var auðvitað á bíl og spurði Jón hvort þetta gæti gengið. Hann hafði í áratugi mælt áfengismagn í blóði ökumanna og leit á mig og sagði: „Þú ert svo asskoti feitur að þetta hlýtur að vera í lagi“. Aldrei reyndi á þetta sem betur fer, en ég leyfði mér ekki að efast um mat prófessorsins. Þá sjaldan ég var upptekinn fór kona mín og skammtaði lyfin. Þau urðu góðir vinir, en hún fékk engan bjór!
Jón átti sérlega glæsilegt heimili. Á veggjum voru falleg málverk eftir helstu listamenn þjóðarinnar. Borðstofuhúsgögn í ekta funkis-stíl. Sumir stólar með útsaumuðum setum eftir Kristínu konu hans, hrein listaverk. Hún hafði líka bundið inn margar bækur hans svo ekki varð betur gert. Hún var dáin þegar ég kynntist Jóni og hann saknaði hennar mjög. Jón hafði ráðskonu sem bjó í húsinu og hugsaði vel um hann. Hann var af þeirri kynslóð sem áleit húsverk ekki vera karlmannsstarf! Eitt sinn bauð hann okkur hjónum til veislu. Þá var í heimsókn á Íslandi prófessor Egill Snorrason frá Kaupmannahöfn og hafði fært Læknaminjasafninu í Nesi góðar gjafir. Jón var helsta driffjöðrin í stofnun þess. Hann var einnig árum saman formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og þess fremsti talsmaður. Auk Egils var þarna komin helsta elíta eldri lækna á Íslandi með mökum, auk okkar hjóna sem vorum yngst í hópnum. Á borðum var glænýr soðinn lax með bráðnu smjöri, nýjum kartöflum, sýrðum agúrkum og eðalhvítvíni. Jón var einn þeirra manna sem hafði mjög gott af að smakka vín og fór ákaflega vel með það. Mér er minnisstætt hvað veislan heppnaðist vel og hvað hann var góður gestgjafi.
Jón sat í áratugi í stjórn stúdentagarðanna. Á háskólaárum mínum voru svo kölluð Garðsböll haldin á Gamla garði. Þetta voru dálítið sérkennilegar samkomur, eiginlega þrískiptar. Í kjallaranum var selt áfengi á „hagstæðu verði“. Aðeins ein sort, svarti dauði, og reiddur fram í þykkum leirföntum sem annars voru notaðir undir kaffi. Á barnum var gjarnan sungið án undirleiks. Í salnum á fyrstu hæð var músík og dansað. Þar var venjulega mjög heitt, dampurinn af fólki steig til lofts, þéttist þar og féll síðan til baka sem létt rigning. Svo voru auðvitað partí í öðru hverju herbergi. Magnús Óskarsson borgarlögmaður lýsir því í bók sinni Brosað í bland að stúdent á Gamla Garði hafi kært þessi böll. Vonlaust væri að festa svefn fyrr en í fyrsta lagi klukkan 4 og þetta gæti alls ekki gengið. Málið kom til kasta stjórnar stúdentagarðanna, kærandinn mættur og Jón Steffensen í forsvari fyrir stjórnina. Jón vildi fyrst vita hve oft böllin væru. Þau voru 5 á vetri, þar af eitt í jólafríinu. Síðan vildi hann vita hvenær stúdentinn byrjaði lestur á sunnudagsmorgnum. Það reyndist kl. 9, en eftir böll sagðist stúdentinn alls ekki getað byrjað fyrr en á hádegi. „Sá stúdent sem þolir ekki að missa 12 klst. frá sunnudagslestri á vetri á ekkert erindi í Háskóla Íslands,“ sagði Jón og málið var útrætt.
Þótt Jón væri hættur störfum við Háskólann sat hann ekki aðgerðarlaus. Hann safnaði munum fyrir Læknaminjasafnið og vann að skrásetningu þeirra. Einnig vann hann mikið starf við að ráða í dagbækur Sveins Pálssonar, en Sveinn notaði ótæpilega skammstafanir og erfitt að vita hvort þar væri að baki íslenska eða latína!
Það reyndist ekki erfitt að vera læknir Jóns. Framfarir urðu í astmameðferð og seinni árin þurfti hann ekki sjúkrahúsvist vegna þess. Mér er hins vegar minnisstætt að hann fékk blóðtappa í lunga og var þá nokkuð brugðið. Sagði mér að sá kvilli hefði orðið móður sinni að bana. Ég sagði sem var að meðferð við þeim sjúkdómi hefði tekið miklum framförum og hann fékk sína 6 mánaða blóðþynningu og síðan ekki söguna meir. Þegar blóðtappinn greindist lá hann nokkra daga á Landspítalanum og þá var kosið til borgarstjórnar í Reykjavík. Þann laugardagsmorgun -hring-di í mig hjúkrunarfræðingur og sagði að Jón heimtaði að fara að kjósa. Þeim leist miðlungi vel á það og vísuðu málinu til mín. Ég fékk að tala við Jón og honum var talsvert niðri fyrir. „Þessar kvensur vilja ekki að ég fari, en ég get það vel. Hún Ástríður kemur og sækir mig og skilar mér til baka.“ Ég vissi að Ástríður var Thorarensen og allir vita hverjum hún er gift! Það hvarflaði ekki að mér að reyna að hindra för hans.
Í kringum 84 ára aldur kom í ljós lítil íferð í lunga Jóns. Við ræddum það af hreinskilni og rifjuðum upp eldri reykingasögu. Aldurinn var orðinn hár og lungnastarfsemi léleg svo skurðaðgerð kom ekki til greina. Jón hafði ekki áhuga á krabbameinslyfjameðferð og okkur kom því saman um að útiloka berkla, en láta aðrar rannsóknir lönd og leið. Meinið óx hægt og hann lifði sæmilegu lífi í tvö ár.
Mér er okkar síðasti fundur ákaflega minnisstæður. Ég hafði lagt hann inn á Vífilsstaði og var á förum til útlanda í frí og við vissum báðir vel að hverju dró. Það var fátt sagt, en handtakið var ákaflega hlýtt. Ég náði ekki að fylgja honum til grafar, en mig hefur lengi langað til að minnast hans. Það eru ekki margir vandalausir sem mér hefur verið hlýrra til. Ég minnist hans ætíð er ég heyri góðs manns getið.
Jón Steffensen (1905-1991)
Jón var fæddur í Reykjavík, sonur hjónanna Valdemars Steffensens læknis og Jennyar Petru f. Larsen sem var dönsk. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1930. Stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn, München, London og Edinborg árin 1932 til 1937. Skipaður prófessor í líffæra-, lífeðlis- og lífefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands í febrúar 1937. Frá 1957 prófessor í líffærafræði eingöngu. Lausn í ágúst 1970, en kenndi þó áfram til hausts 1972. Hann var afkastamikill vísindamaður, tók þátt í fornleifarannsóknum og annaðist rannsóknir á mannabeinum fyrir Þjóðminjasafn Íslands í áratugi. Ritaði rúmlega 100 vísindagreinar í innlend og erlend tímarit einkum um mannfræði, líffærafræði, lífeðlisfræði, uppruna Íslendinga og um sögu læknisfræðinnar. Einnig marga bókarkafla. Honum var margvíslegur sómi sýndur, stórriddari af fálkaorðunni, heiðursdoktor við læknadeild Háskóla Íslands og heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands. Hann kvæntist 1930 Kristínu Björnsdóttur Ólafs húsfreyju (1905-1972), þau voru barnlaus.