01. tbl. 104. árg. 2018

Fræðigrein

Verkferlar í tengslum við fæðuofnæmi og fæðuóþol í leikskólum Reykjavíkurborgar

Protocols Related to Food Allergies and Intolerances in Preschools in Reykjavik, Iceland

doi: 10.17992/lbl.2018.01.168

Ágrip

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols hjá börnum á leikskólum Reykjavíkurborgar og hversu vel leikskólar standa að því að hafa umhverfi barna með fæðuofnæmi sem öruggast.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti útbúinn fyrir þessa rannsókn var sendur til 65 leikskóla Reykjavíkurborgar árið 2014. Svör fengust frá 49 leikskólum (75%) með 4225 börn. Algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols var metið út frá fjölda læknisvottorða sem afhent voru til leikskólanna. Lýsandi tölfræði var notuð til að meta hvort ferlar væru til staðar fyrir börn með fæðuofnæmi/-óþol á leikskólum og hvort þeir tengdust menntun leikskólastjóra, menntun starfsmanns í eldhúsi og fjölda barna á leikskólanum.

Niðurstöður: Algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols var 5%, bráðaofnæmis 1% og fjölfæðuofnæmis 1% samkvæmt læknisvottorðum. Mjólkuróþol var algengast (2%) en þar næst mjólkurofnæmi (2%) og eggjaofnæmi (1%). Allir leikskólar nema einn voru með börn með fæðuofnæmi og/eða -óþol. Tæpur helmingur leikskólanna (41%) var með viðbragðsáætlun til að fara eftir ef barn skyldi fyrir slysni fá ofnæmisvaka með fæðunni. Aðeins 55% leikskóla með barn með bráðaofnæmi sögðu allt starfsfólk sitt þekkja einkenni ofnæmiskasts og aðeins 64% þeirra sögðu starfsfólk sitt upplýst og þjálfað í viðbrögðum við ofnæmiskasti. Engin marktæk tengsl voru á milli menntunar leikskólastjóra, starfsmanns í eldhúsi og fjölda barna á leikskóla og hvernig staðið var að málum barna með fæðuofnæmi/-óþol.

Ályktun: Fimm prósent leikskólabarna í rannsókninni voru með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol í Reykjavík. Í 59% leikskóla skorti viðbragðsáætlun í tengslum við fæðuofnæmi.

Barst til blaðsins 16. júní 2017, samþykkt til birtingar 3. desember 2017.


Inngangur

Algengi fæðuofnæmis hjá evrópskum börnum á aldrinum 0-18 ára spannar allt frá 2-28% á árunum 2003-2005.1-3 Munur á aðferðum rannsakenda við upplýsingaöflun á hvort fæðuofnæmi sé til staðar er mikill. Í sumum tilvikum er algengi fæðuofnæmis byggt á frásögn foreldra en í öðrum tilvikum á húðprófi, blóðprófi og/eða tvíblindum þolprófum.3-5 Íslensk rannsókn á 0-1 árs börnum staðfesti fæðuofnæmi hjá 1,9% íslenskra barna með tvíblindu þolprófi (IgE-miðlað fæðuofnæmi) en rannsóknin var gerð á árunum 2005 til 2008.6 Til samanburðar sýndi dönsk rannsókn á þriggja ára börnum fyrir aldamótin að 3,4% barna voru með fæðuofnæmi en algengið lækkaði í 1,2% við 6 ára aldurinn, greint með tvíblindu þolprófi.7

Þegar einstaklingar eru með ofnæmi fyrir tveimur eða fleiri fæðutegundum kallast það fjölfæðuofnæmi (multiple food allergy). Í danskri rannsókn þar sem börnum var fylgt eftir frá fæðingu til 6 ára aldurs greindust 3,7% barna með fjölfæðuofnæmi greint með þolprófi.8 Í daglegu tali eru þeir sem eiga á hættu að fá ofnæmislost sagðir vera með bráðaofnæmi. Helsta ástæða ofnæmislosts (anaphylaxis) er neysla fæðutegundar (33%).9 Hjá börnum má einnig rekja meirihluta tilfella (56-84%) ofnæmislosts til fæðuofnæmis.10-12 Áströlsk rannsókn sem skoðaði innkomur á bráðamóttöku barna vegna ofnæmislosts greindi frá því að flest tilvik (48%) verða á heimili barnsins en næst algengasti staðurinn er skólinn og daggæslan (9%).13 Ofnæmislost geta verið banvæn en það er sjaldgæft.10,13 Það er því nauðsynlegt að gerð sé viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skuli við ofnæmiskasti barns hjá aðilum/stofnunum sem bera ábyrgð á börnum á dagvinnutíma.14

Þegar fjallað er um fæðuóþol á það oftast við um mjólkuróþol og glútenóþol. Mjólkuróþol stafar af því að einstaklingur getur ekki brotið niður mjólkursykur í meltingakerfinu15 en glútenóþol er sjálfsofnæmissjúkdómur.16

Í rannsókn sem meðal annars var gerð á Íslandi kom fram að starfsfólk grunnskóla í Reykjavík er almennt meðvitaðra um fæðuofnæmi en starfsfólk skóla hinna landanna 7 sem tóku þátt í rannsókninni. Þannig greindu 85% íslensku skólanna (n=11) frá því að starfsfólk sitt væri frætt um einkenni fæðuofnæmis. Einnig höfðu 44% (n=4) grunnskólanna frætt starfsfólk sitt um hvernig ætti að lesa innihaldslýsingar og 91% skólanna (n=10) voru með adrenalínpenna á staðnum. Aðgerðaráætlun við alvarlegu ofnæmisviðbragði í skólum var til staðar í 67% tilvika (n=8) þar sem gert er ráð fyrir að starfsmaður geti notað adrenalínpenna. Stjórnendur fjögurra skóla vildu hins vegar að annaðhvort væri hringt í foreldrana eða á sjúkrabíl í stað þess að nota adrenalínpenna.17

Höfundar vita ekki til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á Íslandi sem sýna hvernig staðið er að málefnum barna með fæðuofnæmi/-óþol innan leikskóla.

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols hjá börnum í leikskólum Reykjavíkur. Einnig var markmið rannsóknarinnar að kanna hversu vel leikskólar tryggja að umhverfi barna með fæðuofnæmi og/eða -óþol sé öruggt. Að lokum var kannað hvort innri þættir leikskólans hefðu áhrif á öryggi barna með fæðuofnæmi, svo sem menntun leikskólastjóra, starfsmanns í eldhúsi og fjöldi barna á leikskólanum.

 

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn, framkvæmd á tímabilinu júní til september árið 2014. Hún var samþykkt af vísindasiðanefnd Íslands (VSNb2014050004/03.07.) og tilkynnt til Persónuverndar.

Spurningalisti var settur upp á vefsíðunni Questionpro.com og sendur rafrænt á alla leikskólastjóra hjá leikskólum Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leikskólum undanskildum, eða til alls 65 leikskóla. Samkvæmt opinberum gögnum voru 6003 börn í leikskólum Reykjavíkurborgar í október 2014. Af þessum 65 leikskólum sem fengu sendan spurningalistann svöruðu 49 leikskólastjórnendur með alls 4225 börn (75% svarhlutfall).

Valið var að senda á leikskóla Reykjavíkurborgar því þar er þess krafist að foreldrar/forráðamenn skili læknisvottorði ef gefa þarf börnum sérfæði vegna fæðuofnæmis og/eða fæðuóþols.18

Mæliaðferðir

Spurningalistinn samanstóð af 40 spurningum. Hann var gerður sérstaklega fyrir þessa rannsókn í samvinnu við Astma- og ofnæmisfélag Íslands, nánar tiltekið Fríðu Rún Þórðardóttur næringarfræðing og formann félagsins. Ekki var hægt að rekja svör spurninga til ákveðins leikskóla eða barna.

Spurningalistinn var sendur út ásamt kynningarbréfi á netföng leikskólastjóra þar sem hlekkur var gefinn á rannsóknina á vefsíðu QuestionPro.

Listinn var forprófaður tvisvar, annars vegar á leikskóla þar sem vitað var að starfsfólk þekkti vel til fæðuofnæmis og hins vegar á leikskóla þar sem ekki var vitað til að þekking væri til staðar um fæðuofnæmi og fæðuóþol.

Mat á ofnæmi og óþoli leikskólabarna

Spurt var um fjölda barna með læknisvottorð vegna fæðuofnæmis/-óþols á núverandi skólaári í spurningalistanum. Til að meta algengi fæðuofnæmis/-óþols var fjölda barna með læknisvottorð deilt með fjölda allra barna á leikskólunum sem tóku þátt í könnuninni. Einnig var spurt hvort börn væru annars vegar með læknisvottorð vegna bráðaofnæmis og hins vegar vegna fjölfæðuofnæmis. Að lokum var hægt að haka við um hvers konar ofnæmi eða óþol var að ræða. Valmöguleikarnir voru: ofnæmi fyrir eggjum, mjólk, hveiti, hnetum, fiski, soja, möndlum, skelfiski, sesam og sinnepi. Einnig var hægt að haka við mjólkuróþol og glútenóþol.

Viðbragðsáætlun fyrir börn með fæðuofnæmi og/eða -óþol

Sérstaklega var unnið með þrjár spurningar úr spurningalistanum sem þóttu lýsa vel hvernig unnið var að fæðutengdum málum barna með fæðuofnæmi/-óþol innan leikskólans:

Er til staðar viðbragðsáætlun sem fer í gang ef barn með fæðuofnæmi/-óþol fær mat með ofnæmisvaka í? Þessi spurning verður hér eftir kölluð viðbragðsáætlun.

Eru allir starfsmenn leikskólans upplýstir og þjálfaðir í því hvernig bregðast skal við ofnæmiskasti barns? Þessi spurning verður hér eftir kölluð upplýstir og þjálfaðir.

Þekkja allir starfsmenn leikskólans einkenni ofnæmiskasts barns?

Spurningarnar höfðu þrjá svarmöguleika: 1) já, 2) nei og 3) á ekki við. Við úrvinnslu gagna var svarmöguleiki nr. 3 settur saman við svarmöguleika nr. 2 sem var nei.

Skýribreytur

Leikskólastjórnendur voru beðnir um að haka við hæsta menntunarstig sem lokið var og voru valmöguleikarnir eftirfarandi: 1) próf úr Fóstruskólanum, 2) B.Ed., 3) önnur grunnmenntun, 4) viðbótardiplóma, 5) M.Ed., 6) önnur framhaldsmenntun, 7) Ph.D., 8) Ed.D. og 9) önnur menntun. Menntuninni var skipt í þrjá flokka: grunnmenntun, viðbótardiplóma og framhaldsmenntun. Þátttakendur með grunnmenntun voru allir sem höfðu lokið 1) prófi úr Fóstruskólanum, 2) B.Ed. og 3) annarri grunnmenntun. Þátttakendur með viðbótardiplóma voru þeir sem hökuðu við valmöguleika 4) viðbótardiplóma. Þátttakendur með framhaldsmenntun voru þeir sem höfðu lokið við 5) M.Ed. og 6) annarri framhaldsmenntun. Enginn leikskólastjórnendanna hafði lokið Ph.D. eða Ed.D. Þrír hökuðu við 9) önnur menntun en við þann valmöguleika var opið svar og var hægt að færa þau svör á viðeigandi stað í þrískiptri menntunarbreytunni sem er lýst hér að ofan.

Til að kanna menntunarstig starfsmanns í eldhúsi/mötuneyti var spurt: Er starfandi menntaður matartæknir, matreiðslumaður eða matráður við leikskólann? Svarmöguleikarnir voru 1) já, 2) nei og 3) önnur menntun starfsmanns í eldhúsi/móttökueldhúsi. Breytan var endurskráð í tvíkosta flokkabreytu en í þremur tilvikum var starfsmaður í eldhúsi skráður þannig að hann væri kominn áleiðis í matartækninámi og voru þeir endurskráðir þannig að þeir væru með enga menntun.

Einn leikskóli keypti mat annars staðar frá og var hann undanskilinn í greiningu gagna þegar metið var hvort menntun starfsmanns í eldhúsi væri tengt því hvort viðbragðsáætlun væri til staðar og hvort starfsfólk væri upplýst og þjálfað til að bregðast við ofnæmiskasti barns.

Stærð leikskóla var annars vegar metin eftir fjölda barna og hins vegar eftir fjölda starfsfólks. Fjölda barna á leikskóla var skipt í minni leikskóla (47-83 börn) og stærri leikskóla (84-172 börn), var skipting gerð þannig að sem líkastur fjöldi væri í báðum hópum. Fjöldi starfsfólks á leikskóla var skipt í minni leikskóla (12-21 starfsmaður) og stærri leikskóla (22-42 starfsmenn).

Í tveimur tilvikum hafði verið sleginn inn rangur fjöldi barna á leikskóla, annars vegar 0,3 börn og hins vegar 3 börn. Meðaltal var tekið af fjölda barna í leikskólunum sem tóku þátt í rannsókninni (N = 86) og sú tala notuð fyrir þessa tvo leikskóla. Einn leikskóli misskráði fjölda starfsmanna þannig að einn starfsmaður ynni á leikskólanum en meðalfjöldi starfsmanna í hinum leikskólunum sem tóku þátt voru 24 starfsmenn og var sú tala notuð fyrir þennan leikskóla.

Úrvinnsla gagna

Stuðst var við forritið SPSS útgáfu 23 við tölfræðilegar greiningar. Notuð var lýsandi tölfræði til að meta algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols. Fjöldi barna með fæðuofnæmi og fæðuóþol var metinn út frá fjölda læknisvottorða.

Einnig var því lýst hvaða fæðutegundir voru helst að valda fæðuofnæmi/-óþoli og hvort um fjölfæðu- eða bráðaofnæmi væri að ræða.

Spurningalistanum lauk með opnum athugasemdum sem dregnar voru saman og fjallað um í niðurstöðukaflanum.

Gerð var tvíkosta lógistísk aðhvarfsgreining til að meta gagnlíkindahlutfall (OR) og 95% öryggisbil (CI) fyrir virkt ferli á leikskólum og upplýsta og þjálfaða starfsmenn greint eftir menntunarstigi leikskólastjóra, menntun starfsmanns í eldhúsi, fjölda barna á leikskóla og fjölda starfsmanna á leikskóla. Hver skýribreyta var skoðuð ein og sér en einnig var framkvæmd fjölbreytugreining þar sem leiðrétt var fyrir menntunarstigi leikskólastjóra og starfsmanns í eldhúsi, fjölda barna og fjölda starfsmanna á leikskólunum.

Krosstöflur voru notaðar til að bera stærð leikskóla, annars vegar eftir fjölda barna á leikskóla og hins vegar fjölda starfsmanna á leikskóla, saman við viðbragðsáætlun og upplýsta og þjálfaða starfsmenn. Einnig voru krosstöflur notaðar til að bera saman leikskóla með eða án bráðaofnæmis og hvort starfsfólk væri upplýst og þjálfað og hvort það þekki einkenni ofnæmiskasts. Notað var Fischers exact próf til að meta tölfræðilega marktækan mun.

 

Niðurstöður

Algengi fæðuofnæmis/-óþols

Allir leikskólarnir sem tóku þátt í rannsókninni, utan einn, voru með barn eða börn með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol (98%). Tæpur helmingur leikskólanna var með einstaklinga með bráðaofnæmi (44,9%) og rúmlega helmingur með einstaklinga með fjölfæðuofnæmi (53,1%) ( tafla I ). Metið út frá fjölda barna í leikskólunum (N=4225) sem tóku þátt í rannsókninni var algengi fæðuofnæmis/-óþols 5,0%,  bráðaofnæmis 1,0% og fjölfæðuofnæmis 1,1% samkvæmt læknisvottorðum ( tafla I ).

Á mynd 1 sést hvaða fæðutegundir voru helst að valda ofnæmi eða óþoli. Mjólkuróþol (2,3%) var algengast en þar á eftir mjólkurofnæmi (1,7%), því næst eggjaofnæmi (1,4%) og hnetuofnæmi (0,8%). Aðrir ofnæmisvaldar en þeir koma fram á myndinni nefndu leikskólastjórar að væru til dæmis tómatar, sítrusávextir og jarðarber.

Mynd 2 sýnir súlurit yfir fjölda leikskóla með eitt eða fleiri börn með fæðuofnæmi/-óþol sumarið og haustið 2014. Eins og áður hefur komið fram var aðeins einn leikskóli án fæðuofnæmis/-óþols en flestir leikskólar voru með þrjú börn með fæðuofnæmi/-óþol, eða 11 leikskólar. Hæst fór fjöldi barna með fæðuofnæmi/-óþol upp í fjórtán í einum leikskóla.

Verklag á leikskólum tengt börnum með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol

Flestir leikskólastjórar (90%) svöruðu játandi aðspurðir hvort farið væri eftir ákveðnu verklagi þegar barn með fæðuofnæmi/-óþol innritast á leikskólann. Verklagið virtist þó ekki staðlað og svör voru mismunandi. Hér verða tekin dæmi um hvernig verklag fer í gang sem dregið var fram úr svörum leikskólastjóra þar sem spurning var opin í spurningalistanum. Dæmi um verklag sem fer í gang er allt frá því að eldhús sé látið vita af því að barn með fæðuofnæmi sé að byrja á leikskólanum í að allir starfsmenn leikskólans hafi æft hvernig gefa skal adrenalínpenna og viti að hringja eigi í sjúkrabíl og láta foreldra vita ef barn með bráðaofnæmi fær ofnæmisviðbrögð. Algengast er þó að eldhús sé látið vita og mynd af barni sé hengd upp, ýmist á deild, í eldhúsi, á matarvagni eða á öllum þessum stöðum.

Meirihluti leikskóla (87,8%) sagðist skrá og tilkynna til foreldris ef barn þeirra fékk mat með ofnæmis-/óþolsvaka í.

Meirihluti leikskólanna (67,3%) sagðist hengja upp spjöld með nafni barnsins og mynd af því þar sem tilgreint er hvaða fæðuofnæmi/-óþol er um að ræða. Aðrir leikskólar skrá upplýsingar um börn með fæðuofnæmi/-óþol til dæmis á töflu eða inni í eldhúsi.

Viðbragðsáætlun í leikskólum og þjálfun starfsfólks vegna barna með fæðuofnæmi/-óþol

Tafla II sýnir svör við eftirfarandi spurningunum: 1) Er til staðar  viðbragðsáætlun sem fer í gang ef barn með fæðuofnæmi/-óþol fær mat með ofnæmisvaka í? og 2) Eru allir starfsmenn leikskólans upplýstir og þjálfaðir í því hvernig bregðast skuli við ofnæmiskasti barns? Tæpur helmingur leikskóla (41%) sagðist vera með viðbragðsáætlun sem færi í gang ef barn fengi fyrir slysni mat með ofnæmisvaka í en rúmur helmingur leikskólastjóra (61%) sagði alla sína starfsmenn upplýsta og þjálfaða í að bregðast við ofnæmiskasti barns.

Niðurstöður aðhvarfsgreininga sýndu engin tengsl milli menntunarstigs leikskólastjóra og hvort til staðar væri viðbragðs-áætlun í leikskólanum og hvort starfsmenn væru upplýstir og þjálfaðir í að bregðast við ofnæmiskasti barns (sjá töflu III og IV ). Leiðrétting fyrir annars vegar fjölda barna í leikskóla og hins vegar fjölda starfsmanna hafði ekki áhrif á þetta samband né marktækni.

Niðurstaða aðhvarfsgreiningar á hvort menntun starfsmanns í eldhúsi spái fyrir um hvort virkt ferli sé til staðar og hvort starfsmenn séu upplýstir og þjálfaðir sýndi heldur engin tengsl ( tafla IV ).

Þegar stærð leikskóla var skoðuð út frá fjölda barna og fjölda starfsmanna í tengslum við hvort virkt ferli væri til staðar, sem og hvort starfsmenn væru upplýstir og þjálfaðir í viðbrögðum við ofnæmislosti, mátti sjá að stærri leikskólar virtust frekar vera með virkt ferli og upplýsta og þjálfaða starfsmenn en sá munur var ekki marktækur ( tafla V ), hvort sem horft var til fjölda barna eða fjölda starfsmanna.

Bráðaofnæmi

Eins og áður sagði voru 50% leikskóla með barn/börn með læknisvottorð þar sem fram kom að viðkomandi væri með bráðaofnæmi. Allir þeir leikskólar voru hnetulausir samanborið við 56% leikskóla sem ekki voru með börn með bráðaofnæmi.

Eins og sést í töflu VI voru um 64% starfsmanna leikskóla með börn með bráðaofnæmi upplýstir um og þjálfaðir í því hvernig skyldi bregðast við ofnæmiskasti barns. Hins vegar var rétt rúmur helmingur leikskóla (55%) með börn með bráðaofnæmi sem sagði alla starfsmenn leikskólans þekkja einkenni ofnæmiskasts. Í þeim leikskólum þar sem greint var frá því að ekki allir starfsmenn þekktu einkenni ofnæmiskasts, var algengast að leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og starfsmenn deildar barns með bráðaofnæmi þekktu einkennin. Um 46% leikskóla með börn með bráðaofnæmi voru með viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skyldi við ef barn fengi fæðu með ofnæmisvaka í. Hins vegar sögðu stjórnendur 12 leikskóla barna með bráðaofnæmi (55%) leikskólann vera með viðbragðsáætlun þar sem æft væri hvernig bregðast skuli við ofnæmiskasti barns. Dæmi um viðbragðsáætlun þegar barn með bráðaofnæmi á í hlut:

  • Viðbragðsáætlun hangir á viðkomandi deild/kaffistofu og/eða eldhúsi með upplýsingum um barnið, einkenni ofnæmiskasts og hvernig skuli bregðast við ef til ofnæmiskasts kemur.
  • Allir starfsmenn kunna á adrenalínpennann og vita hvar hann er geymdur. Hringt er í 112 og foreldra.
  • Æft er hvernig gefa skuli pennann.
  • Viðbragðsáætlun er skráð og hlutverk hvers og eins starfsmanns er æft.

Í 14 (64%) leikskólum barna með bráðaofnæmi var greint frá því að adrenalínpenninn væri athugaður reglulega og passað að hafa hann aðgengilegan. Fimm leikskólar barna með bráðaofnæmi sögðu hann eingöngu vera á ábyrgð foreldra en þrír leikskólar sem voru með einstaklinga með bráðaofnæmi svöruðu „á ekki við“ við þessari spurningu.

 

Tillögur að úrbótum – opin spurning til leikskólastjóranna

Allir leikskólar (n=22) sem voru með börn með bráðaofnæmi töldu að gagnlegt væri að fá sérfræðing til að halda fræðslu um fæðuofnæmi og fæðuóþol fyrir starfsmenn leikskólans. Í heildina töldu 86% leikskóla það vera gagnlegt en aðeins tveir leikskólar voru með reglubundna fræðslu sem hjúkrunarfræðingur veitti um málefni tengt fæðuofnæmi.

Fimmtán leikskólastjórar komu  með tillögu að úrbótum og 6 þeirra nefndu að þeir vildu fá meira fé til matarkaupa fyrir börn með fæðuofnæmi/-óþol þar sem fæði þeirra væri oft dýrara. Þá nefndu 5 leikskólastjórar að gott væri að hafa gagnagrunn þar sem til dæmis væri hægt að sækja uppskriftir án ofnæmis/-óþolsvaka, fræðslu um ofnæmi/óþol og einn nefndi gátlista um hvernig best væri að bregðast við þegar barn fengi ofnæmis-/óþolsvaka. Tveir leikskólastjórar óskuðu eftir skýrari verklagsreglum um hversu lengi skyldi leyfa foreldrum að prófa breytt mataræði án vottorðs, hversu hart mætti ganga á eftir vottorðum og hvort vottorð mætti vera frá hvaða lækni sem er eða einungis frá ofnæmislækni.

Að lokum voru leikskólastjórar spurðir að því hvort það væri eitthvað sem þeir vildu koma á framfæri og tengdist meirihluti athugasemdanna (n=7) ósk um að fá meiri og betri fræðslu og ráðgjöf.

 

Umræða

Rannsókn okkar sýndi að nær allir leikskólar í Reykjavík voru með börn með fæðuofnæmi eða fæðuóþol og að um helmingur þeirra var með börn með bráðaofnæmi. Algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols var 5%, byggt á læknisvottorðum. Þetta er aðeins hærra algengi en fyrri rannsóknir sýna að sé á Norðurlöndunum en okkar rannsókn byggir á að börnin hafi vottorð frá lækni um greiningu á fæðuofnæmi en aðrar rannsóknir byggja á húðprófum, blóðprófum og/eða tvíblindum þolprófum.8,19 Alþjóðleg rannsókn sem kannaði algengi fæðuofnæmis með fæðuþolsprófi í 89 löndum sýndi að algengi fæðuofnæmis meðal 0-5 ára barna var allt frá 1% í Tælandi til 10% í Ástralíu.20 Þegar fyrri rannsóknir eru bornar saman við okkar þarf að hafa í huga að algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols er sjaldnast metið saman eins og gert var í þessari rannsókn og því erfiðara að bera hana saman við aðrar rannsóknir þar sem einungis var kannað algengi fæðuofnæmis.6,8,19 Líklega má því segja að algengi fæðuofnæmis í þessari rannsókn sé svipað því sem sést í nágrannalöndum okkar. Tíðni fjölfæðuofnæmis í okkar rannsókn var 1,1% og bráðaofnæmis 1%. Fjölfæðuofnæmi í leikskólum í þessari rannsókn var ekki eins algengt og til að mynda í Danmörku, þar sem það hefur mælst  3,7%.8

Mjólkuróþol var algengast í leikskólunm en því næst ofnæmi fyrir kúamjólk, eggjum og jarðhnetum. Færri (0,1%) voru með greiningu vegna glútenóþols borið saman við það sem erlendar rannsóknir hafa sýnt.21-24 Íslensk rannsókn á 0-1 árs börnum sem var hluti af alþjóðlegu fæðuofnæmisrannsókninni EuroPrevall staðfesti fæðuofnæmi hjá 1,9% barna með húðprófi, blóðprófi og tvíblindu þolprófi.6 Í fyrrgreindri rannsókn var ekki kannað hvort börnin væru með mjólkuróþol eða glútenóþol sem einnig var til skoðunar í okkar rannsókn. Þá hefur dönsk rannsókn sýnt að algengi fæðuofnæmis er hæst í kringum þriggja ára aldurinn en lækkar aftur við 6 ára aldur.8

Athyglisvert þykir að aðeins 41% leikskólanna var með viðbragðsáætlun sem fer í gang ef barn fær mat með ofnæmisvaka í og það hlutfall var litlu hærra (46%) þegar leikskólar með börn með bráðaofnæmi voru skoðaðir sérstaklega. Einnig er það alvarlegt að einungis um 61% leikskólanna greindi frá því að allir starfsmenn væru upplýstir og þjálfaðir í hvernig ætti að bregðast við ofnæmiskasti barns. Þetta hlutfall var svipað þegar einungis leikskólar með barn með bráðofnæmi voru skoðaðir, eða 64%. Þó kom fram að í einungis 55% leikskóla með barn með bráðaofnæmi þekktu allir starfsmenn einkenni ofnæmiskasts barns. Ekki var marktækur munur á leikskólum með og án bráðaofnæmis á því hvort starfsfólk leikskólanna var upplýst og þjálfað í viðbrögðum við ofnæmiskasti. Það er áhugavert út af fyrir sig þar sem ætla mætti að leikskólar með barn með bráðaofnæmi væru líklegri til að vera með upplýsta og þjálfaða starfsmenn.

Þættir eins og menntun leikskólastjóra og starfsmanns í eldhúsi, stærð leikskóla, bæði eftir fjölda barna og fjölda starfsfólks, skiptu ekki máli í tengslum við hvort viðbragðsáætlun færi í gang ef barn með fæðuofnæmi/-óþol fengi mat með ofnæmisvaka. Það sama mátti segja þegar áðurnefndir þættir voru skoðaðir í tengslum við hvort allt starfsfólk væri upplýst og þjálfað í því hvernig bregðast ætti við ofnæmiskasti barns. Einnig var skoðað hvort það væri munur á þekkingu starfsfólk á viðbrögðum við ofnæmiskasti barns eftir fjölda barna með læknisvottorð á hverjum leikskóla (0-3 á móti 4-14 vottorð) og ekki var marktækur munur á fjölda starfsmanna sem voru upplýstir háð fjölda læknisvottorða (gögn ekki sýnd). Rannsókn frá Tyrklandi þar sem skoðað var hvort fyrir lægju viðbragðsáætlanir í leik- og grunnskólum til að koma í veg fyrir og bregðast við ofnæmislosti, sýndi að slíka viðbragðsáætlun skorti í 84% tilvika. Einnig kom fram í rannsókninni að aðeins 3% kennara sögðust myndu nota adrenalínpenna ef barn fengi ofnæmislost.25

Einungis 14 (64%) leikskólar barna með bráðaofnæmi athuguðu reglulega adrenalínpennann og gættu þess hafa hann aðgengilegan. Fimm stjórnendur leikskóla með barn með bráðaofnæmi sögðu að adrenalínpenninn væri eingöngu á ábyrgð foreldra og þrír stjórnendur töldu að spurningin um adrenalínpennann ætti ekki við.

Rannsókn okkar sýnir að ýmsir innri þætti leikskólans, svo sem menntun og stærð, skipta ekki máli í tengslum við viðbragðsáætlun fyrir börn með fæðuofnæmi og fæðuóþol. Þegar leikskólastjórarnir voru spurðir um hvers konar stuðning væri þörf á í þessum aðstæðum svöruðu margir að gagnlegt væri að fá sérfræðing til að halda fræðslu um fæðuofnæmi/-óþol fyrir starfsmenn leikskólans. Nokkrir leikskólastjórar nefndu að þeir vildu meira fé til fæðukaupa fyrir börn með fæðuofnæmi en vitað er að sérfæði getur verið dýrara en almennt fæði.26 Einnig vildu leikskólastjórar til dæmis námskeið fyrir starfsfólk í eldhúsi og aðgengi að tengilið sem hefði frekari vitneskju um fæðuofnæmi og fæðuóþol.

 

Styrkleikar og takmarkanir

Hátt svarhlutfall fékkst í rannsókninni (75%) og spurningalistinn var ítarlegur og gaf góða innsýn í hvernig málefnum barna með fæðuofnæmi og/eða -óþol er háttað í leikskólum í Reykjavík.

Spurningalistinn sem notaður var í rannsókninni var ekki staðlaður heldur saminn af höfundum greinarinnar og gæti það talist til takmarkana. Við úrvinnslu sást að sumar spurninganna hefðu getað verið betur orðaðar. Skipta hefði mátt spurningunni um hvort starfsfólk væri upplýst og þjálfað í að bregðast við ofnæmiskasti barns upp í tvær spurningar þar sem spurt væri  annars vegar hvort allt starfsfólk væri upplýst og hins vegar þjálfað í að bregðast við ofnæmiskasti barns. Þá skal tekið fram að svör við spurningum voru byggð á upplýsingum frá leikskólastjórum og gæti verið að þær upplýsingar endurspegli ekki endilega raunverulega þekkingu starfsfólks. Vissulega getur einnig verið um valskekkju að ræða varðandi svörun spurningalistans, að þeir leikskólar sem eru með barn með ofnæmi taki frekar þátt, sem hefur þá áhrif á útreikninga um algengi. Einnig gæti talist til takmarkana á athugun um algengi fæðuofnæmis/-óþols að mismunandi greiningar liggja að baki læknisvottorðum sem leikskólarnir fá, sem og að mismunandi ferli gætu verið á milli leikskólanna um hversu nýleg vottorðin þurfa að vera og gæti það einnig haft áhrif á niðurstöðurnar. Læknisvottorð vegna fæðuofnæmis er oftast byggt á niðurstöðum úr húð- og/eða blóðprófi. Hins vegar er yfirleitt ekki notast við læknisfræðilegt próf þegar mjólkuróþol er staðfest af lækni heldur er greiningin byggð á frásögn foreldris. Gæti það skekkt niðurstöðurnar og hækkað algengi mjólkuróþols og þá í leiðinni algengi fæðuofnæmis og fæðuóþols.

 

Ályktun

Rannsóknin sýndi að í nær öllum leikskólum í Reykjavík eru börn með fæðuofnæmi eða fæðuóþol. Samkvæmt læknisvottorðum voru 5% leikskólabarna með fæðuofnæmi og/eða fæðuóþol í leikskólunum. Ljóst er að bæta þarf fræðslu og áætlanir í tengslum við bráðaofnæmi svo að ekki sé vegið að heilsu barna með bráðaofnæmi innan veggja leikskólans. Einnig þarf að samræma verklag milli leikskóla þegar barn með fæðuofnæmi eða fæðuóþol innritast. Margir leikskólastjóranna í rannsókninni óskuðu eftir  aðgengi að meiri fræðslu og sérfræðingi um þennan málaflokk.

 

Heimildir

1. Steinke M, Fiocchi A, Kirchlechner V, Ballmer-Weber B, Brockow K, Hischenhuber C, et al. Perceived food allergy in children in 10 European nations. A randomised telephone survey. Int Arch Allergy Immunol 2007; 143: 290-5.
https://doi.org/10.1159/000100575

PMid:17356296

 
2. Venter C, Pereira B, Grundy J, Clayton CB, Arshad SH, Dean T. Prevalence of sensitization reported and objectively assessed food hypersensitivity amongst six-year-old children: a population-based study. Pediatr Allergy Immunol 2006; 17: 356-63.
https://doi.org/10.1111/j.1399-3038.2006.00428.x

PMid:16846454

 
 
3. Kavaliunas A, Surkiene G, Dubakiene R, Stukas R, Zagminas K, Saulyte J, et al. EuroPrevall survey on prevalence and pattern of self-reported adverse reactions to food and food allergies among primary schoolchildren in Vilnius, Lithuania. Medicina (Kaunas) 2012; 48: 265-71.  
 
4. Kristinsdóttir H, Jónasdóttir S, Björnsson S, Lúðvígsson P. Beinkröm hjá barni. Læknablaðið 2011; 97: 477-80.

PMid:21911908

 
 
5. Dogruel D, Bingol G, Yilmaz M, Altintas DU. The ADAPAR Birth Cohort Study: Food Allergy Results at Five Years and New Insights. Int Arch Allergy Immunol 2016; 169: 57-61.
https://doi.org/10.1159/000443831
https://doi.org/10.1159/000444639
 
 
6. Kristinsdóttir H, Clausen M, Ragnarsdóttir HS, Halldórsdottir IH, McBride D, Beyer K, et al. Algengi fæðuofnæmis hjá íslenskum börnum á fyrsta ári. Læknablaðið 2011; 97: 11-8.

PMid:21217195

 
 
7. Sampson HA, Ho DG. Relationship between food-specific IgE concentrations and the risk of positive food challenges in children and adolescents. J Allergy Clin Immunol 1997; 100: 444-51.
https://doi.org/10.1016/S0091-6749(97)70133-7
 
 
8. Eller E, Kjaer HF, Host A, Andersen KE, Bindslev-Jensen C. Food allergy and food sensitization in early childhood: results from the DARC cohort. Allergy 2009; 64: 1023-9.
https://doi.org/10.1111/j.1398-9995.2009.01952.x
PMid:19220211
 
 
9. Dinakar C. Anaphylaxis in children: current understanding and key issues in diagnosis and treatment. Curr Allergy Asthma Rep 2012; 12: 641-9.
https://doi.org/10.1007/s11882-012-0284-1

PMid:22815131 PMCid:PMC3492692

 
 
10. Braganza SC, Acworth JP, McKinnon DR, Peake JE, Brown AF. Paediatric emergency department anaphylaxis: different patterns from adults. Arch Dis Child 2006; 91: 159-63.
https://doi.org/10.1136/adc.2004.069914

PMid:16308410 PMCid:PMC2082667

 
 
11. De Swert LF, Bullens D, Raes M, Dermaux AM. Anaphylaxis in referred pediatric patients: demographic and clinical features, triggers, and therapeutic approach. Eur J Pediatr 2008; 167: 1251-61.
https://doi.org/10.1007/s00431-007-0661-2
PMid:18204859
 
 
12. Gaspar A, Santos N, Piedade S, Santa-Marta C, Pires G, Sampaio G, et al. One-year survey of paediatric anaphylaxis in an allergy department. Eur Ann Allergy Clin Immunol 2015; 47: 197-205.

PMid:26549337

 
 
13. de Silva IL, Mehr SS, Tey D, Tang ML. Paediatric anaphylaxis: a 5 year retrospective review. Allergy 2008; 63: 1071-6.
https://doi.org/10.1111/j.1398-9995.2008.01719.x

PMid:18691309

 
 
14. Wang J, Sicherer SH. Section On A, Immunology. Guidance on Completing a Written Allergy and Anaphylaxis Emergency Plan. Pediatrics 2017; 139 (3).
https://doi.org/10.1542/peds.2016-4005
 
 
15. Deng Y, Misselwitz B, Dai N, Fox M. Lactose Intolerance in Adults: Biological Mechanism and Dietary Management. Nutrients 2015; 7: 8020-35.
https://doi.org/10.3390/nu7095380

PMid:26393648 PMCid:PMC4586575

 
 
16. Stamnaes J, Sollid LM. Celiac disease: Autoimmunity in response to food antigen. Semin Immunol 2015; 27: 343-52.
https://doi.org/10.1016/j.smim.2015.11.001

PMid:26603490

 
 
17. Le TM, Kummeling I, Dixon D, Barreales Tolosa L, Ballmer-Weber B, Clausen M, et al. Low preparedness for food allergy as perceived by school staff: a EuroPrevall survey across Europe. J Allergy Clin Immunol Pract 2014; 2: 480-2.
https://doi.org/10.1016/j.jaip.2014.02.019

PMid:25017543

 
 
18. Lýðheilsustöð. Handbók fyrir leikskólaeldhús. http://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_thjonustulysingar/Handbok_leikskolaeldhus_april_2009.pdf - mars 2017.  
 
19. Winberg A, West CE, Strinnholm A, Nordstrom L, Hedman L, Ronmark E. Assessment of Allergy to Milk, Egg, Cod, and Wheat in Swedish Schoolchildren: A Population Based Cohort Study. PLoS One 2015; 10: e0131804.
https://doi.org/10.1371/journal.pone.0131804
PMid:26134827 PMCid:PMC4489866
 
 
20. Prescott SL, Pawankar R, Allen KJ, Campbell DE, Sinn J, Fiocchi A, et al. A global survey of changing patterns of food allergy burden in children. World Allergy Organ J 2013; 6: 21.
https://doi.org/10.1186/1939-4551-6-21

PMid:24304599 PMCid:PMC3879010

 
 
21. Dydensborg S, Toftedal P, Biaggi M, Lillevang ST, Hansen DG, Husby S. Increasing prevalence of coeliac disease in Denmark: a linkage study combining national registries. Acta Paediatr 2012; 101: 179-84.
https://doi.org/10.1111/j.1651-2227.2011.02392.x

PMid:21722173

 
 
22. Karagiozoglou-Lampoudi T, Zellos A, Vlahavas G, Kafritsa Y, Roma E, Papadopoulou A, et al. Screening for coeliac disease in preschool Greek children: the feasibility study of a community-based project. Acta Paediatr 2013; 102: 749-54.
https://doi.org/10.1111/apa.12241

PMid:23600795

 
 
23. Maki M, Mustalahti K, Kokkonen J, Kulmala P, Haapalahti M, Karttunen T, et al. Prevalence of celiac disease among children in Finland. New Engl J Med 2003; 348: 2517-24.
https://doi.org/10.1056/NEJMoa021687

PMid:12815137

 
 
24. Stordal K, Bakken IJ, Suren P, Stene LC. Epidemiology of coeliac disease and comorbidity in Norwegian children. J Pediatr Gastroenterol Nutr 2013; 57: 467-71.
https://doi.org/10.1097/MPG.0b013e3182a455dd

PMid:23863325

 
 
25. Ozen A, Boran P, Torlak F, Karakoc-Aydiner E, Baris S, Karavus M, et al. School Board Policies on Prevention and Management of Anaphylaxis in Istanbul: Where Do We Stand? Balkan Med J 2016; 33: 539-42.
https://doi.org/10.5152/balkanmedj.2016.15500

PMid:27761282 PMCid:PMC5056657

 
 
26. Protudjer JL, Jansson SA, Heibert Arnlind M, Bengtsson U, Kallstrom-Bengtsson I, Marklund B, et al. Household costs associated with objectively diagnosed allergy to staple foods in children and adolescents. J Allergy Clin Immunol Pract 2015
https://doi.org/10.1016/j.jaip.2014.09.021

PMid:25577621

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica