01. tbl. 104. árg. 2018
Fræðigrein
Læknadagar alla daga. Sigurbjörn Sveinsson
Frá Læknadögum 2017: glaðbeittir læknar drekka í sig alls kyns
fróðleik og njóta þess að hitta kollegana.
„Þær einar fyrirskipanir mun ég gjöra, er séu sjúklingum mínum til gagns og nytsemdar, eftir því sem þekking mín og dómgreind frekast fær ráðið.“ Svo segir í eiði Hippókratesar (ísl. þýð. Vald. Steffensen). Til að ná þessum markmiðum eru skyldur lærdóms og kennslu lagðar á lækninn enda segir: „... kenna þeim læknisfræði, ef þeir æskja þess, endurgjaldslaust. Fræðin mín vil ég kenna sonum mínum, sonum kennara míns, svo og þeim lærisveinum mínum, sem bundnir eru læknalögum og lækniseiði.“1
Margrét Aðalsteinsdóttir hjá Fræðslustofnun óbilandi mótor
Læknadaganna síðustu ár. Gunnar Bjarni Raganarsson og Jórunn Atladóttir
hafa verið formenn þar á bæ.
Daninn Povl Riis lagði sitt af mörkum til fræðslustarfs íslenskra lækna.
Arna Guðmundsdóttir stýrði Læknadögum árin 2005-2013.
Þessi afstaða til náms og kennslu hefur litað viðhorf læknisins til starfs síns um aldir. Minningu Hrafns Sveinbjarnarsonar er hampað á góðum stundum. Sennilega eru ekki öll kurl komin til grafar um menntun hans. Hafsteinn Sæmundsson læknir hefur sett fram athyglisverðar og rökstuddar kenningar um nám Hrafns á Englandi í suðurför hans.2 Hrafn var samkvæmt öllum heimildum menntaður evrópskur læknir að þess tíma sið. Til eru heimildir um lækningar sonar hans, Sveinbjarnar, bæði í Sturlungu og í Arons sögu Hjörleifssonar. Fróðlegt er að rifja upp frásögn Heimskringlu eftir orrustuna á Hlýrskógsheiði 1043 þar sem Magnús konungur góði velur menn til að binda um sár sinna manna „en læknar váru ekki svá margir í hernum, sem þá þurfti“. Þreifaði konungur um hendur þeim er honum sýndist „sem mjúkhenztir mundu vera, ok segir, að þeir skyldu binda sár manna. En engi þeirra hafði fyrr sár bundit; en allir þessir urðu inir mestu læknar“. Í þessum hópi voru tveir íslenskir menn, Þorkell Geirason af Lyngum og Atli, faðir Bárðar svarta í Selárdal, „ok kómu frá þeim margir læknar síðan“.3 Bárður svarti var faðir Sveinbjarnar, föður Hrafns. Atli var sagður „algjör læknir“ og Sveinbjörn „læknir góður“.4 Læknisfræðin lá í ættum og gerir enn.
Þorkell Arngrímsson, prestur í Görðum á Álftanesi, var þekktur læknir á 17. öld. Talsverðar heimildir eru um lækningar hans og mikið úr þeim gert en minna vitað um árangur. Börn Þorkels höfðu eftir föður sínum. „Talið er, að sonur séra Þorkels, Þórður læknir Vídalín, hafi, og þá sennilega fyrstur, tekið saman eða lagt út ljósmóðurfræði á vora tungu.“5
Ekki má ríða svo hjá garði í þessum efnum, að Bjarna Pálssonar sé ekki getið. Hann hafði 13 læknisefni til heimilis um sína daga og kom fjórum þeirra til prófs.
Eins og minnst hefur verið á hafa læknar á öllum tímum tekið alvarlega þau fyrirmæli siðareglna sinna að miðla öðrum af þekkingu sinni og kunnáttu. Þau eru fróðleg ummæli Guðmundar Hannessonar í Læknablaðinu á fyrri öld og vísa til „læknadaga“ þeirra tíma. „Meðan eg var héraðslæknir var mér það sönn ánægja hve gott samkomulag var hvarvetna milli lækna og góð vinátta við nánari kynni. Þá voru og deiluefnin fá, því heita mátti að hver læknir hefði sinn afmarkaða verkahring og nóg að gera. Það var þá til dæmis venja flestra lækna, er þeir komu á ferðalagi í annan bæ, þar sem læknissetur var, að fyrst fóru þeir að heimsækja stéttarbróður sinn, og brást þá ekki að tekið var við manni opnum örmum. Það var ekki á hverjum degi sem læknar hittust og skorti því ekki viðræðuefni. Oftast varð þá læknisfræðin efst á baugi, vandamálin, sem komið höfðu fyrir, erfiðar ferðir, sérstök áhugamál o. þvíl.“6
Læknar halda uppteknum hætti og eflast í viðleitni sinni að endurmenntast eftir því sem þeim fjölgar og betra lag kemst á félagsskap þeirra. Fundargerðabækur svæðafélaga lækna geyma merkilegar upplýsingar um þessi efni frá miðri síðustu öld og allt fram á okkar daga. Í aðalfundargerðum Læknafélags Miðvesturlands frá sjötta áratugnum má finna lýsingar á samkomum héraðslæknanna, þar sem þeir koma saman á heimilum hver annars og jafnan er fræðsla stór hluti af fundarefni. Annaðhvort sjá þeir um hana sjálfir eða fá gesti „að sunnan“ eða úr öðrum landshlutum, nema hvort tveggja sé.
Læknafélagið Eir er stofnað í Reykjavík 1943 í því skyni að „stofna til erindaflutnings og umræðufunda um læknisfræði“ meðal annars. Þetta viðfangsefni verður höfuðinntak félagsins í áranna rás. Látum Óskar Þórðarson hafa orðið í Læknablaðinu 1963: „Fyrsta árið vorum við á hrakningum með fundarstaði. Flestir fundir voru haldnir það árið að Hótel Ritz á Reykjavíkurflugvelli, en þar voru aðstæður heldur lélegar. Einn fundur var haldinn í Breiðfirðingabúð, sem einnig var kallað Ungverjaland á þeim árum. En þar var illa vært sökum drykkjuskapar og háreysti Ungverjanna, og þegar nokkrir þeirra komu inn í fundarherbergið og báðu um orðið, þá varð að flytja fundinn í annan enda á húsinu. Í árslok 1948 lagði dr. Helgi Tómasson Eir inn á Klepp, og hefur félagið síðan verið þar til húsa með fundi sína og unað vel hag sínum ...“7
En auðvitað skín sól Læknafélags Reykjavíkur (LR) og síðar Læknafélags Íslands skærast þegar til fræðslu og símenntunar lækna er litið. Árni Björnsson læknir tekur saman fróðlegt ágrip um sögu LR á 90 ára afmæli þess 1999. Árni telur að LR hafi frá upphafi verið helsti vettvangur viðhaldsmenntunar lækna á Íslandi. Allt til 1979 voru fræðsluerindi fastir liðir á flestum fundum LR en lögðust af með vaxandi fræðslustarfsemi innan sjúkrahúsanna í Reykjavík. Árni segir: „Árið 1942 var reynt að stofna til námskeiðs fyrir lækna á vegum LR. Þá var skipuð þriggja manna nefnd til að sjá um undirbúning og framkvæmd á læknanámskeiði í Reykjavík. Áhugi á námskeiðinu var þó ekki meiri en svo að einungis tveir læknar mættu utan af landi en enginn læknir í Reykjavík gaf sig fram. Námskeiðið féll því niður og það var ekki fyrr en 1972 sem námskeiðs- og fræðslunefnd var endurvakin.“8
Með þessu hófst ný og glæsileg starfsemi til vegs.
Allt orkar tvímælis þá gert er og sérstaklega á það við þegar sagan er vegin og metin. Ekki dugar að horfa einungis til ársins 1972. Fyrsta haustnámskeið læknafélaganna var haldið 1961 með tilstyrk heilbrigðisstjórnarinnar „fyrir praktiserandi lækna og héraðslækna“.9
Haft er á orði að góðir hlutir gerist hægt. Má það til sanns vegar færa þegar þróun fræðslustarfs læknafélaganna er skoðuð frá þessum tíma. Á áttunda áratugnum komst á gott samstarf og persónulegur kunningsskapur milli læknaforustunnar hér heima og danskra lækna. Komu Danir hingað oftar en einu sinni til námskeiðahalds og var þar fyrirliði Povl Riis, meltingarsérfræðingur, siðfræðingur og fjölfræðingur um læknisfræðileg hugðarefni. Það má hiklaust kalla hann velgerðarmann íslenskra lækna enda var hann síðar gerður að heiðursfélaga í Læknafélagi Íslands.
Tilvitnuð grein Stefáns B. Matthíassonar, Tilurð Læknadaga, í Læknablaðinu frá 2014 er ítarlegt yfirlit yfir þróun formsins og fjármögnun frá því á 9. áratugnum fram á okkar daga.
Allir dagar lækna eru „læknadagar“. Skyldan til kennslu og menntunar er tímalaus og án landamæra. Læknadagar Læknafélags Íslands verða vonandi aldrei „barn síns tíma“ og verða í sífelldri þróun eins og raunin hefur orðið.
Heimildir
1. Durant W. Grikkland hið forna. Menningarsjóður, Reykjavík 1979: 19-20 | |
2. Sæmundsson H. Munnlegar upplýsingar í des. 2017. | |
3. Sturluson S. Heimskringla, Helgafell, Reykjavík 1944: 537-8. | |
4. Blöndal JH, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Ísafold, Reykjavík 1970: 9. | |
5. Jónsson V. Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar. Helgafell, Reykjavík 1949: 115. | |
6. Hannesson G. Stéttarandinn. Læknablaðið 1935; 21: 11. | |
7. Þórðarson Ó. Minni Læknafélagsins Eirar. Læknablaðið 1963; 47: 13. | |
8. Björnsson Á. Stiklur úr sögu félagsins. Læknablaðið 1999; 85: 811-25. | |
9. Matthíasson SB. Tilurð Læknadaga. Læknablaðið 2014; 100: 34-7. |