12. tbl. 110. árg. 2024

Fræðigrein

Fæða sem mígrenikveikja

Rannsókn

doi 10.17992/lbl.2024.12.818

Ágrip

 Inngangur

Mígreni er taugasjúkdómur sem einkennist af slæmum höfuðverk sem fylgir gjarnan ógleði auk ljós- eða hljóðfælni. Mígrenikveikjur eru innri eða ytri þættir sem geta aukið líkur á mígrenikasti. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að mígrenisjúklingar hafa getað tengt köst sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda en engin rannsókn á því hefur verið gerð hérlendis Markmið rannsóknarinnar var að skoða hversu stórt hlutfall einstaklinga með mígreni á Íslandi tengir einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda.

 

Aðferðir

Rafrænn spurningalisti var lagður fyrir tvo hópa, 18 ára og eldri, annars vegar meðlimi Facebook-hópsins „Mígreni“ (n=395) og hins vegar sjúklinga í eftirliti hjá taugalækni (n=108). Alls voru 503 sem opnuðu könnunina (19,6% af þeim sem voru í Facebook- hópnum og 65% af þeim sem voru hjá taugalækni). Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu ákveðnar fæðutegundir gætu aukið líkur á mígrenikasti og voru svarmöguleikarnir aldrei/sjaldan, stundum, oft eða alltaf. Eins var spurt um tegund mígrenis, lyfjanotkun og lýðfræðilega þætti.

 

Niðurstöður

Af 466 þátttakendum sem svöruðu, sögðu 354 einstaklingar (76%) að neysla ákveðinna tegunda af mat yki oft eða alltaf líkur á mígrenikasti. Hlutfallið var hærra í Facebook-hópnum (78%) en í hópnum sem var í meðferð hjá taugalækni (66%, p=0,007). Rauðvín og að sleppa máltíðum (svengd) voru algengustu kveikjurnar, þar sem >50% sögðu kveikjurnar oft eða alltaf valda mígreniskasti. Aðrar algengar kveikjur voru hvítvín, lakkrís og reykt kjöt en 20-50% þátttakenda sem nefndu þær sem kveikjur.

 

Ályktun

Matur virðist algeng kveikja mígrenis og voru helstu fæðutengdu kveikjurnar svipaðar þeim sem greint hefur verið frá í erlendum rannsóknum. Hins vegar hafa fyrri rannsóknir ekki sýnt lakkrís sem algenga fæðukveikju fyrir mígreni og reykt kjöt var algengari kveikja en sést hefur í erlendum rannsóknum.

 Inngangur

Mígreni er meðal algengustu höfuðverkjasjúkdóma í heimi og einkennist af endurteknum slæmum höfuðverk sem fylgir gjarnan ógleði auk ljós- eða hljóðfælni. Minnihluti fær einnig skammvinnt fyrirbæri sem kallast ára, en það eru truflanir helst á skyni, sjón eða máli.1 Mígreni getur verið tvenns konar, lotubundið mígreni (episodic migraine) og krónískt mígreni (chronic migraine). Lotubundið mígreni er þegar fjöldi höfuðverkjadaga er lægri en 15 á mánuði en mígreni telst krónískt þegar höfuðverkjadagar eru 15 eða fleiri á mánuði í meira en þrjá mánuði, þar sem að minnsta kosti átta af þeim dögum hafa einkenni mígrenihöfuðverks. Annars er tíðni mígrenikasta afar mismunandi milli einstaklinga og getur verið allt frá einu kasti á ári upp í mörg köst í mánuði.2,3

Það eru til ýmsar tegundir af mígreni en algengast er að skipta því upp í mígreni með áru (aura) og mígreni án áru. Ára er fyrirboði sem kemur á undan höfuðverknum hjá sumum einstaklingum með mígreni. Mígreni án áru er þó algengara.4 Algengi mígrenis í erlendum rannsóknum er talið vera um 11,6%, 13,8% hjá konum og 6,9% hjá körlum.4 Talið er að 10-15% Íslendinga þjáist af mígreni, 8,2% karla og 19,1% kvenna. Þannig er mígreni 2-2,5 sinnum algengara hjá konum en körlum.5,6

Mígrenikasti má skipta í fjóra fasa: undanfara (prodrome), áru, höfuðverk og eftirköst (postdrome). Undanfarinn kemur nokkrum klukkutímum til þremur dögum fyrir sjálft höfuðverkjakastið. Í þessum fasa geta sjúklingar verið farnir að finna fyrir einkennum eins og þreytu, vöðvastífni, pirringi og matarlöngun. Áru fasinn er næstur, en hann kemur bara hjá þeim sem fá mígreni með áru.2 Eins og nefnt er hér að ofan er áran fyrirboði þar sem einkenni frá miðtaugakerfinu koma í um 5-60 mínútur áður en höfuðverkurinn sjálfur byrjar. Þessi einkenni geta verið sjóntruflanir, málstol, náladofi og einstaka sinnum helftarlömum.3 Þriðji fasinn er svo höfuðverkurinn sjálfur. Hann getur varað í 4-72 klst. Höfuðverkurinn getur verið miðlungs til mikill og er oft öðru megin í höfðinu. Höfuðverkurinn versnar oftast við hreyfingu og fylgir gjarnan ógleði/uppköst og næmi fyrir hljóði, ljósi og lykt.2 Síðasti fasinn eru svo eftirköstin. Þessi fasi getur varað í um tvo daga eftir höfuðverkjakastið. Fólk finnur oft fyrir þreytu, depurð, einbeitingarerfiðleikum, vanvirkni.3

Mígreni getur stafað bæði af erfðaþáttum og umhverfisþáttum. Orsakir mígrenis eru ekki að fullu þekktar en eru taldar vera truflanir á samspili raf- og boðefnakerfi heilans.7 Lyfjameðferð við mígreni skiptist í bráða- og fyrirbyggjandi meðferð. Bráða lyfjameðferð er notuð til að stöðva mígrenisköst og minnka sársauka en fyrirbyggjandi meðferð til að fækka köstum.8 Aðrar meðferðir eru breytingar á mataræði, fæðubótaefni, nálastungur, sjúkraþjálfun og fleira.8

Mígrenikveikja (migraine trigger) er innri eða ytri þáttur sem annað hvort einn og sér eða ásamt öðrum þáttum eykur líkurnar á mígrenikasti.9 Erlendar rannsóknir sýna að algengustu kveikjurnar eru matur og áfengi, truflanir á svefni, hormónabreytingar, sálrænir- og umhverfisþættir,10 en alls telja 76% mígrenisjúklinga að ákveðnar kveikjur geti sett mígreni þeirra af stað.11 Hvað varðar fæðukveikjur sérstaklega, þá benda erlendar rannsóknir til að allt að 64% mígrenisjúklinga tengi einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda.11-14 Þá lýsa flestir fleiri en einni fæðukveikju. Algengustu fæðukveikjurnar samkvæmt erlendum rannsóknum eru áfengi, sítrus ávextir, mygluostar, súkkulaði, mjólkurvörur, unnar kjötvörur, gervisætuefni, nítrít og nítröt, týramín, koffín og svengd og/eða föstur.11,20 Ekki hefur áður verið rannsakað hvaða fæðukveikjur eru algengastar hér á Íslandi.

Markmið rannsóknarinnar var að skoða hversu stórt hlutfall einstaklinga með mígreni á Íslandi tengja einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda og hvaða fæðutegundir auka helst líkurnar á mígreniskasti.

 

 

Efniviður og aðferðir

Þátttakendur

Rannsóknin var þversniðs-spurningalistakönnun. Rafrænn spurningalisti var lagður fyrir tvo hópa af öllum kynjum, 18 ára og eldri. Annars vegar einstaklinga sem eru meðlimir í íslenskum Facebook-hópi sem kallast „Mígreni“ og hins vegar einstaklinga sem eru í meðferð við mígreni á stofu hjá taugalækni sem sérhæfður er í mígrenimeðferð. Samþykki fyrir þátttöku fólst í því að svara spurningalistanum rafrænt. Hlekk á spurningalistann var póstað inn á Facebook-hópinn ásamt stuttum kynningartexta. Í hópnum voru 2000 meðlimir og af þeim opnuðu 395 (20%) spurningalistann. Þátttaka var opin í samtals átta vikur á tímabilinu maí til ágúst árið 2023. Sjúklingum í meðferð við mígreni var boðin þátttaka frá júní til september 2023 í gegnum taugalækni sem fékk samþykki til að gefa rannsakendum netfang þangað sem þeir fengu sendan hlekk á spurningalistann. Tölvupóstur var sendur til 165 sjúklinga. Þar af opnuðu 108, eða 65% þeirra sem gáfu samþykki. Í heildina opnuðu 503 einstaklingar spurningalistann.

 

Spurningalistinn

Eftirfarandi spurning var lögð fyrir þátttakendur: Telur þú að ákveðnar fæðutegundir geti aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast hjá þér? Ef þátttakendur svöruðu því játandi opnaðist listi yfir 52 mögulegar fæðutengdar kveikjur. Þátttakendur voru beðnir um að merkja við allar fæðutegundir sem áttu við í þeirra tilviki, það er hvort þeir teldu að viðkomandi fæðutegund ætti alltaf, oft, stundum eða sjaldan (aldrei) þátt í að framkalla mígrenikast. Á listanum mátti meðal annars finna, fæðutegundir, drykki og innihaldsefni í matvælum. Matvælum var skipt í kjötvörur, mjólkurvörur, áfengi, aðra drykki, aukefni, ávexti og grænmeti og aðra fæðutengda þætti (til dæmis hungur eða að sleppa máltíðum). Sami spurningalisti var lagður fyrir báða hópa, að því undanskildu að hópurinn sem var í meðferð hjá taugalækni var ekki spurður út í greiningu þar sem þeir þátttakendur voru þegar í eftirliti taugalæknis vegna mígrenis. Staðlaðir spurningalistar um fæðukveikjur hafa ekki verið gefnir út alþjóðlega, en við val á spurningum var byggt á erlendum rannsóknum.15,20

Einnig var spurt um ýmsa þætti sem gætu skipt máli fyrir úrvinnslu og túlkun niðurstaðna, svo sem lyfjanotkun og tegund af mígreni, þar sem svarmöguleikarnir þrír voru: mígreni með áru, mígreni án áru og blandað mígreni – bæði með og án áru. Eins var spurt um um reykingar, kyn, aldur, hæð, þyngd, póstnúmer, menntun, hjúskaparstöðu, fæðuofnæmi og fæðuóþol.

Við upphaf rannsóknar lá fyrir leyfi frá Vísindasiðanefnd (VSN-22-189).

 

Tölfræðiúrvinnsla

Spurningalistinn var settur upp í forritinu Qualtrics (útgáfa maí 2023) og gögnunum var einnig safnað þar inn. Tölfræðilegar greiningar eru fyrst og fremst lýsandi og notað var Qualtrics og Excel. Jamovi, útgáfa 2.4.8, var notað til að meta mögulegan mun á milli hópa, þar sem notast var við T-próf fyrir normaldreifðar breytur og kí-kvaðrat próf fyrir flokkabreytur. Marktækni var miðuð við p<0,05.

 

 

Niðurstöður

Af þeim 395 sem opnuðu spurningalistann í Facebook-hópnum voru 23 sem ekki svöruðu neinum spurningum. Í hópnum sem var í meðferð hjá taugalækni opnuðu 108 spurningalistann, þar af fjórir sem svöruðu engum spurningum. Í töflu I má sjá lýsingu á ýmsum lýðfræðilegum þáttum og hvort þátttakendur töldu sig vera með fæðuóþol eða ofnæmi eða höfðu verið greindir með slíkt af lækni. Meðalhæð þátttakenda í Facebook-hópnum var 167,9 ± 6,8 cm (meðaltal ± staðalfrávik) og 168,1 ± 5,8 cm í hópnum sem var í meðferð hjá taugalækni (p=0,779). Meðalþyngd einstaklinga í Facebook-hópnum var 77,8 ± 17,0 kg í Facebook-hópnum og 76,3 ± 17,2 kg meðal þeirra sem voru í meðferð hjá lækni (p=0,215). Ekki reyndist munur milli hópanna á þeim lýðfræðilegu breytum sem skráðar voru í rannsókninni.

 

Mígreni

Taflan sýnir einnig hvort þátttakendur sögðust hafa verið meðhöndlaðir með fyrirbyggjandi lyfjum og hvort þeir höfðu verið greindir með mígreni af lækni. Það var munur á hópunum tveimur þegar kom að fyrirbyggjandi lyfjum þar sem sá hópur sem var í meðferð vegna mígrenis hjá lækni sagðist í 76% tilfella vera á fyrirbyggjandi lyfjameðferð samanborið við 45% í Facebook-hópnum (p<0,001). Enginn munur var á tegund mígrenis milli hópa (p=0,267).

 Fæðukveikjur

Af þeim 466 þátttakendum sem svöruðu spurningunni um fæðukveikjur voru 354 einstaklingar (76%) sem töldu að matur gæti aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast hjá þeim, 78% í Facebook-hópnum og 66% í taugalæknahópnum (p=0,007). Þegar kemur að mígreni tegundum (mígreni án áru, mígreni með áru og blandað mígreni) og þeirri trú að ákveðin matvæli geti kallað fram mígrenisköst var munur á hópunum þremur. Þátttakendur sem sögðust vera með mígreni án áru voru ólíklegri til að telja að matur væri kveikja (62%) samanborið við hina hópana tvo, mígreni með áru (78%) og blandað mígreni (83%) (p<0,001).

Aðrar niðurstöður sem tengjast fæðukveikjum eru birtar fyrir allan hópinn saman í ljósi þess að ekki reyndist teljandi munur á svörum þátttakenda eftir því hvaða hópi þeir tilheyrðu. Í töflu III má sjá lista yfir fæðutengdar kveikjur sem að minnsta kosti 10% þátttakenda töldu oft eða alltaf geta aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast. 

Fæðutegundir sem spurt var um en töldust sjaldnar vera fæðukveikjur eru nefndar undir töflunni. Rauðvín og það að sleppa máltíðum (svengd) voru algengustu kveikjurnar meðal þátttakenda, þar sem 60 og 59% þátttakenda töldu kveikjurnar oft eða alltaf geta aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast. Eins og sjá má í töflu III þá raða aðrar tegundir áfengis sem spurt var um sér ofarlega á lista yfir algengustu fæðukveikjur, en á bilinu 28-43% töldu sterk vín, bjór og hvítvín oft eða alltaf geta aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast.

Þær fæðutegundir og innihaldsefni matvæla sem algengast var að þátttakendur teldu oft eða alltaf vera fæðukveikju má sjá á mynd 1. Þannig töldu til dæmis 40% þátttakenda að lakkrís gæti aukið líkur á eða framkallað mígrenikast, 32% nefndu reykt kjöt og 27% súkkulaði. Þátttakendur gátu skráð í textareit fleiri fæðutegundir sem höfðu ekki verið nefndar í spurningalistanum. Alls skráðu 140 þátttakendur aðrar fæðutegundir en þær sem spurt var um. Þar var algengast að nefna hlaup-sælgæti (n=6), kakó (n=6), fisk (n=4) og glúten (n=4).

Umræða

Markmið rannsóknarinnar var að áætla hlutfall einstaklinga með mígreni á Íslandi sem tengja mígreniköst sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda og hvaða fæðutegundir auka helst líkurnar á mígrenikasti. Rannsóknin sýndi að 76% þátttakenda tengja mígrenieinkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda eða aðra fæðutengda þætti. Algengustu fæðutengdu kveikjurnar sem þátttakendur greindu frá voru rauðvín, svengd, hvítvín, lakkrís og reykt kjöt.

Erlendar rannsóknir sýna að 18-64% mígrenisjúklinga telja að matur geti framkallað mígreniköst.12-14 Í þessari rannsókn töldu 76% þátttakenda að matur væri mígrenikveikja. Þátttakendur úr Facebook-hópnum voru líklegri til að segja að matur væri kveikja (78%) samanborið við hópinn sem var í meðferð vegna mígrenis hjá taugalækni (66%). Skýring á muni á hópunum tveimur gæti legið í því að einstaklingar sem ekki töldu að fæða væri kveikja voru hugsanlega ólíklegri til að svara spurningalistanum. Ekki er heldur hægt að útiloka að einhver valbjögun (selection bias) hafi einnig átt sér stað í hópnum sem var í meðferð hjá taugalækni. Þátttakendur með mígreni án áru voru ólíklegri til að segja að matur væri kveikja en hinir tveir hóparnir, mígreni með áru og blandað mígreni. Munurinn á hópunum gæti stafað af mismunandi líffræðilegum ferlum í mígreni með og án áru. Bæði mígreni með áru og blandað mígreni hafa árufasa, en mígreni án áru hefur hann ekki. Talið er að líffræðilegi ferillinn á bak við árufasann sé afskautun sem færist frá sjónberki fram yfir heilann (cortical spreading depression, CSD) sem hindrar virkni heilabarkarins.8 Því er hægt að setja fram þá kenningu að CSD gæti gert sjúklinga viðkvæmari fyrir fæðukveikjum, en þetta hefur ekki verið rannsakað, svo okkur sé kunnugt.

Algengustu kveikjurnar sem þátttakendur í þessari rannsókn greindu frá voru rauðvín, svengd/sleppa máltíð, hvítvín, lakkrís og reykt kjöt. Þegar horft er sérstaklega til fæðutegunda (fyrir utan áfengi) og innihaldsefna matvæla þá má sjá að algengustu fæðukveikjurnar voru lakkrís, reykt kjöt, súkkulaði, aspartam, mónónatríum glútamat (monosodium glutamate, MSG) og mygluostar. Þessar niðurstöður eru nokkuð sambærilegar erlendum rannsóknum þar sem algengustu kveikjurnar eru áfengi, súkkulaði, ostur, kaffi og svengd eða að sleppa máltíð.11,19 Hins vegar voru lakkrís og reykt kjöt mun oftar nefndar sem algengar kveikjur í okkar rannsókn í samanburði við erlendar rannsóknir. Ástæðan gæti legið í meiri neyslu á lakkrís og reyktu kjöti hérlendis en í öðrum löndum. Íslendingar eru þekktir fyrir ást sína á íslenskum lakkrís, sem er saltari en lakkrís annars staðar í heiminum21 og um hátíðar er reykt kjöt á boðstólum flestra heimila landsins.22 Erlendar rannsóknir hafa skoðað unnar kjötvörur sem fæðukveikjur en engin hefur áður skoðað reykt kjöt sérstaklega eins og gert var í þessari rannsókn. Í þessari rannsókn tengdu 16% þátttakenda mígreni-einkenni sín við neyslu á unnum kjötvörum og 32% sérstaklega við reykt kjöt. Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að um 5-8% mígrenisjúklinga tengi sitt mígreni við unnar kjötvörur eins og pylsur og salami en 22% telji að of mikil neysla á unnu kjöti geti valdið mígrenikasti.23 Reykt kjöt og aðrar unnar kjötvörur innihalda nítrít og nítröt en þessi efni eru talin geta valdið mígreniköstum vegna áhrifa þeirra á nituroxíð losun og æðavíkkun í heilanum vegna þess.7

Engar erlendar rannsóknir gefa til kynna að lakkrís sé algeng fæðukveikja. Lakkrís inniheldur efni sem kallast glycyrrhizin sem getur í miklu magni valdið lágu kalíum í blóði, þreytu og háþrýstingi.24 Rannsóknir hafa sýnt að höfuðverkur er eitt dæmigerðasta einkenni háþrýstings og þessi höfuðverkur gæti leitt til mígrenihöfuðverkja hjá einstaklingum með mígreni. Háþrýstingur getur einnig valdið truflun á starfsemi æðaþels og valdið skerðingu á nituroxíði, en það er mikilvægt fyrir blóðflæði og slagæðaþvermál.25 Þetta gæti því aukið líkur á mígreniköstum en frekari rannsókna er þörf.

Í gegnum tíðina hefur töluvert verið deilt um fæðukveikjur, það er hvort það sé í raun maturinn sem framkallar mígrenisköstin.26,27 Sumir rannsakendur vilja meina að fæðukveikjur séu ekki orsök mígreniskastsins heldur hugsanlegar langanir í ákveðin matvæli í fyrsta fasa mígreniskastsins. Ein kenningin er að aukin virkni í undirstúkunni leiði til matarlöngunar sem fær einstaklinga til að borða matvæli sem þeir hefðu annars ekki valið. Þetta gæti útskýrt hvers vegna einstaklinga grunar að ákveðin matvæli valdi mígrenisköstum.26,27 Gegn þessu hafa rannsóknir sýnt að með því að útiloka meintar fæðukveikjur geta sjúklingar dregið verulega úr tíðni, lengd og styrk mígrenikasta.28 Mikilvægt er fyrir sjúklinga að finna jafnvægi milli þess að forðast kveikjur og lifa með mígreni. Of mikil forðun og útlokun getur leitt til streitu og kvíða.15,29

Ýmsar tegundir af mataræði og fæðubótarefnum hafa verið skoðaðar í tengslum við mígreni. Útilokunar mataræði er oftast talið besta mataræðið. Þá er tekinn út úr mataræðinu allur matur og drykkur sem gæti mögulega valdið mígreni. Fæðutegundirnar eru svo settar inn aftur ein í einu á meðan fylgst er með mígrenieinkennum.26 Mikilvægt er að þetta sé aðeins gert undir eftirliti læknis eða næringarfræðings en ekki á eigin vegum. Rannsóknir benda einnig til þess að almennt heilbrigt mataræði í samræmi við opinberar ráðleggingar geti minnkað líkur á mígreniköstum.29 Aðrar tegundir af mataræði sem rannsóknir hafa skoðað snúa að hlutfalli ómega-3 og ómega-6 fitusýra, lágkolvetna eða kolvetnasnauðu mataræði, mataræði með lágt fituhlutfall og miðjarðarhafsmataræði1Þegar kemur að fæðubótarefnum eru vísbendingar um að til dæmis magnesíum, coensimQ10, ríbóflavín, D-vítamín og ómega-3 geti dregið úr höfuðverkjadögum og styrkleika höfuðverkja.7 Almennt næringarástand einstaklinga virðist þó skipta máli er kemur að virkni fæðubótarefna, þar sem til að mynda magnesíum er aðeins talið vera gagnlegt fyrir þá einstaklinga sem eru með lágt gildi magnesíums í blóði.7,30

Styrkleiki rannsóknarinnar felst meðal annars í að gögnum var safnað frá tveimur ólíkum hópum. Annars vegar í gegnum taugalækni sem sérhæfir sig í meðferð mígrenis og hins vegar í gegnum Facebook-hóp sem heitir „Mígreni“. Í yfirlitsgrein eftir Thornton og félaga kom fram að þónokkrar rannsóknir hafi notað Facebook til að finna þátttakendur með góðum árangri.31 Rannsóknir benda til þess að Facebook geti verið fljótleg og áhrifarík leið til að finna þátttakendur, en getur leitt til hlutdrægni í vali og ójafnvægis í eiginleikum úrtaks. Söfnun þátttakenda í gegnum samfélagsmiðla er hagkvæm og auðveld aðferð, sérstaklega fyrir hópa sem erfitt er að ná til.31 Af frekari veikleikum mætti nefna að við vitum ekki með vissu hvort allir þátttakendur úr Facebook-hóp hafi verið með mígreni eða eldri en 18 ára. Annar veikleiki rannsóknarinnar er tiltölulega lítil þátttaka, sérstaklega í Facebook-hópnum, sem getur bent til bjögunar í okkar niðurstöðum. Mögulegt er að þeir einstaklingar sem telja fæðutegund vera mígrenikveikja hjá sér tóku fremur þátt en aðrir sem gera það ekki. Ef allir mígrenisjúklingar á Íslandi hefðu verið skoðaðir hefðu niðurstöðurnar mögulega sýnt annað hlutfall. Hins vegar eru miklar líkur á að þessi rannsókn undirstriki mikilvægustu fæðukveikjurnar þar sem niðurstöður í Facebook hópnum voru svipaðar og í hópnum sem var í meðferð hjá taugalækni. Önnur takmörkun var að allra gagna var aflað frá þátttakendum sjálfum, sem getur leitt til minnis- og svörunarskekkju. 

 

Tafla I. Yfirlit yfir lýðfræðilega þætti, fæðuofnæmi og fæðuóþol.* 367 svöruðu spurningum um búsetu, menntun og hjúskapastöðu í Facebook hópnum.** 333 í Facebook hópnum og 102 í læknahópnum svöruðu spurningum um fæðuofnæmi; 330 og 102 spurningum um fæðuóþol.*** Kí-kvaðrat próf og t-próf voru notuð til að reikna mun milli hópa (p-gildi).

Eins og sést í töflu I voru konur í miklum meirihluti þátttakenda í báðum hópum. Rannsóknir með áherslu á fæðukveikjur sýna kynjahlutföll svipuð og í þessari rannsókn.12,14,16

Samantekt

Stór hluti meðlima í Facebook-hópnum „Mígreni“ og sjúklingar sem eru í eftirfylgd taugalæknis vegna mígrenis, töldu að matur gæti aukið líkur á mígreniskasti. Helstu fæðutengdu kveikjurnar sem þátttakendur greindu frá voru svipaðar þeim sem erlendar rannsóknir hafa sýnt. Hins vegar hafa fyrri rannsóknir ekki áður sýnt lakkrís sem algenga kveikju fyrir mígreni og reykt kjöt var algengari kveikja en sést hefur í erlendum rannsóknum. Þessi rannsókn veitir nýja þekkingu á fæðukveikjum mígrenis á Íslandi og niðurstöðurnar gætu nýst við meðferð mígrenisjúklinga.

Mynd-migreni

Mynd 1. Fæðutegundir og innihaldsefni matvæla sem algengast var að þátttakendur teldu oft eða alltaf vera fæðukveikju. MSG: Mónónatríum glútamat (monosodium glutamate).

 

 

Heimildir

1. Gazerani P. Migraine and Diet. Nutrients. 2020;12(6).
https://doi.org/10.3390/nu12061658
PMid:32503158 PMCid:PMC7352457
 
2. Dodick DW. A Phase-by-Phase Review of Migraine Pathophysiology. Headache. 2018;58 Suppl 1:4-16.
https://doi.org/10.1111/head.13300
PMid:29697154
 
3. Headache Classification Committee of the IHS. The International Classification of Headache Disorders, 3rd edition. Cephalalgia. 2018;38(1):1-211.
https://doi.org/10.1177/0333102417738202
 
4. Woldeamanuel YW, Cowan RP. Migraine affects 1 in 10 people worldwide featuring recent rise: A systematic review and meta-analysis of community-based studies involving 6 million participants. J Neurol Sci. 2017;372:307-15.
https://doi.org/10.1016/j.jns.2016.11.071
PMid:28017235
 
5. Arnardóttir SD. Mígreni með áru í íslensku þýði.: (Msc-thesis). University of Iceland, Faculty of Pharmaceutical Sciences.; 2018.
 
6. Ólafsdóttir SS, Eliasson JH, Guðmundsdóttir AM, et al. Algengi og nýgengi mígreni og ávísanir á lyf við mígreni í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Laeknabladid. 2023;109(1):11-7.
https://doi.org/10.17992/lbl.2023.01.724
PMid:36541907
 
7. Sun-Edelstein C, Mauskop A. Foods and Supplements in the Management of Migraine Headaches. Clin J Pain. 2009;25(5):446-52.
https://doi.org/10.1097/AJP.0b013e31819a6f65
PMid:19454881
 
8. Ferrari MD, Goadsby PJ, Burstein R, et al. Migraine. Nat Rev Dis Primers. 2022;8(1).
https://doi.org/10.1038/s41572-021-00328-4
PMid:35027572
 
9. Lipton RB, Pavlovic JM, Haut SR, et al. Methodological issues in studying trigger factors and premonitory features of migraine. Headache. 2014;54(10):1661-9.
https://doi.org/10.1111/head.12464
PMid:25339181
 
10. Wober C, Wober-Bingol C. Triggers of migraine and tension-type headache. Handb Clin Neurol. 2010;97:161-72.
https://doi.org/10.1016/S0072-9752(10)97012-7
PMid:20816418
 
11. Kelman L. The triggers or precipitants of the acute migraine attack. Cephalalgia. 2007;27(5):394-402.
https://doi.org/10.1111/j.1468-2982.2007.01303.x
PMid:17403039
 
12. Andress-Rothrock D, King W, Rothrock J. An Analysis of Migraine Triggers in a Clinic-Based Population. Headache. 2010;50(8):1366-70.
https://doi.org/10.1111/j.1526-4610.2010.01753.x
PMid:21044280
 
13. Mollaoglu M. Trigger factors in migraine patients. J Health Psychol. 2013;18(7):984-94.
https://doi.org/10.1177/1359105312446773
PMid:23104993
 
14. Tai MLS, Yap JF, Goh CB. Dietary trigger factors of migraine and tension-type headache in a South East Asian country. J Pain Res. 2018;11:1255-61.
https://doi.org/10.2147/JPR.S158151
PMid:29988763 PMCid:PMC6029602
 
15. Hajjarzadeh S, Shalilahmadi D, Nikniaz Z, et al. The comparison of the main dietary and non-dietary trigger factors in women with chronic and episodic migraine. Nutr Diet. 2022;79(5):616-22.
https://doi.org/10.1111/1747-0080.12761
PMid:35983599
 
16. Hauge AW, Kirchmann M, Olesen J. Characterization of consistent triggers of migraine with aura. Cephalalgia. 2011;31(4):416-38.
https://doi.org/10.1177/0333102410382795
PMid:20847084
 
17. Lisicki M, Schoenen J. Old Habits Die Hard: Dietary Habits of Migraine Patients Challenge our Understanding of Dietary Triggers. Front Neurol. 2021;12.
https://doi.org/10.3389/fneur.2021.748419
PMid:34867734 PMCid:PMC8636453
 
18. Peatfield RC, Glover V, Littlewood JT, et al. The Prevalence of Diet-Induced Migraine. Cephalalgia. 1984;4(3):179-83.
https://doi.org/10.1046/j.1468-2982.1984.0403179.x
PMid:6498931
 
19. Saglam Ö, Karapinar U, Dursun E, et al. The role of lifestyle modifications in the management of migraine associated vertigo. Journal of Clinical and Analytical Medicine. 2015;6(6):763-5.
 
20. Silva-Neto RP, Soares AD, de Vasconcelos CC, et al. Watermelon and others plant foods that trigger headache in migraine patients. Postgrad Med. 2021;133(7):760-4.
https://doi.org/10.1080/00325481.2021.1922211
PMid:33892616
 
21. Arnarsdóttir A. Ofgnótt (Ofgnótt :Greinargerð um sælgætissýningu): (Msc-thesis). University of Iceland, Faculty of Philosophy, History and Archaeology.; 2017.
 
22. Þjóðminjasafn Íslands. Jólamatur n.d. [Available from: https://www.thjodminjasafn.is/jol/jolasidir/jolamatur-1#.
 
23. Fukui PT, Goncalves TRT, Strabelli CG, et al. Trigger factors in migraine patients. Arq Neuro-Psiquiat. 2008;66(3a):494-9.
https://doi.org/10.1590/S0004-282X2008000400011
PMid:18813707
 
24. Touyz LZ. Liquorice health check, Oro-dental implications, and a case report. Case Rep Med. 2009;2009:170735.
https://doi.org/10.1155/2009/170735
PMid:19707475 PMCid:PMC2729489
 
25. Finocchi C, Sassos D. Headache and arterial hypertension. Neurol Sci. 2017;38(Suppl 1):67-72.
https://doi.org/10.1007/s10072-017-2893-x
PMid:28527058
 
26. Slavin M, Li HL, Frankenfeld C, et al. What is Needed for Evidence-Based Dietary Recommendations for Migraine: A Call to Action for Nutrition and Microbiome Research. Headache. 2019;59(9):1566-81.
https://doi.org/10.1111/head.13658
PMid:31603554
 
27. Marmura MJ. Triggers, Protectors, and Predictors in Episodic Migraine. Curr Pain Headache Rep. 2018;22(12):81.
https://doi.org/10.1007/s11916-018-0734-0
PMid:30291562
 
28. Ozon AO, Karadas O, Ozge A. Efficacy of Diet Restriction on Migraines. Noropsikiyatri Ars. 2018;55(3):233-7.
 
29. Costa ABP, Rodrigues AMD, Martins LB, et al. Nutritional intervention may improve migraine severity: a pilot study. Arq Neuro-Psiquiat. 2019;77(10):723-30.
https://doi.org/10.1590/0004-282x20190121
PMid:31664348
 
30. Ariyanfar S, Jahromi SR, Togha M, et al. Review on Headache Related to Dietary Supplements. Current Pain and Headache Reports. 2022;26(3):193-218.
https://doi.org/10.1007/s11916-022-01019-9
PMid:35254637
 
31. Thornton L, Batterham PJ, Fassnacht DB, et al. Recruiting for health, medical or psychosocial research using Facebook: Systematic review. Internet Interv. 2016;4:72-81.
https://doi.org/10.1016/j.invent.2016.02.001
PMid:30135792 PMCid:PMC6096238


Þetta vefsvæði byggir á Eplica