04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Saga læknisfræðinnar. Upphaf svæfinga og Eterhvelfingin í Boston. Ólafur Jónsson

Hér verður sagt frá merkum atburði í sögu lækninganna sem átti sér stað í Boston fyrir tæpum 180 árum. Sýnt var fram á að hægt væri að gera skurðaðgerð án þess að sjúklingur fyndi sársauka. Þetta var á Massachusetts General Hospital 16. október 1846. Skurðaðgerðin var vegna æxlis í kjálka sjúklings. Svæfingalyfið var Diethyl Eter og var í glerkúlu sem í var svampur, mettaður með lyfinu. Sjúklingurinn, Gilbert Abbot, andaði etergufunni að sér meðan á aðgerðinni stóð og virtist sofandi. Þegar aðgerðinni lauk og hann hafði rankað við sér sagðist hann ekki hafa fundið sársauka. Skurðlæknirinn John Collins Warren, sem var forseti læknadeildar Harvard-háskóla, sagði þá fræg orð: „Gentlemen, this is no humbug.” Sá sem annaðist svæfinguna hét William T. Morton og var tannlæknir. Á legstein á gröf hans stendur: „Inventor and revealer of inhalation anaesthesia. Before whom, in all time, surgery was agony. By whom pain in surgery was averted and annullet. Since whom, science has control of pain.“ Fréttin af þessum atburði barst fljótt til Evrópu og víðar þar sem aðferðin var tekin upp. Nýir tímar í sögu lækninganna voru hafnir.

Ólafur Jónsson svæfingalæknir

Fyrir tíma svæfinganna var staða skurðlækna og sjúklinga erfið vegna þess að nær engin úrræði voru til þess að stilla sársauka við skurðaðgerðir. Mikil áhersla var á mikinn hraða við aðgerðir, svo sem aflimanir, vegna geysilegs sársauka sjúklinga. Vegna þess munu skurðstofur hafa verið hafðar nokkuð afsíðis svo síður heyrðust sársauka- og örvæntingarvein sjúklinganna.

Skurðstofan þar sem þetta gerðist var í elstu byggingu spítalans. Hann var stofnaður árið 1811 og var sá fyrsti í Nýja-Englandi. Þessi bygging stendur enn og mun í fullri notkun. Hún ber nafn arkitektsins, Charles Bulfinch. Efst í byggingunni fyrir miðju undir veglegu hvolfþaki var skurðstofan sem síðar fékk nafnið Ether Dome.

Ether Dome og múmían Padihershef. Gömul mynd/ljósmyndarinn óþekktur.

Þessi skurðstofa var í notkun til 1867. Síðan var hún notuð sem geymsla, svefnskáli og síðar matstofa hjúkrunarkvenna. Frá árinu 1892 hefur húsnæðið verið notað til fræðslustarfa. Þar er hátt til lofts og upphækkaðar sætaraðir í tæpan hálfhring og nútímatækni til staðar.

Nálægt 150 ára afmæli atburðarins var ákveðið að minnast þessa með viðeigandi hætti. Nokkrir læknar tóku sig saman og fengu til liðs við sig listmálara, myndatökumenn og förðunarmeistara. Í leikhúsi fengu þeir búninga tíðarandans. Settu svo atburðinn á svið. Afraksturinn var málverk sem nú er á áberandi stað í Ether Dome.

Atburðurinn frá 1846 sviðsettur. Ljósmynd af málverki/Andrew Ryan

Til gamans má geta þess að árið 1823 var spítalanum gefin múmía frá Egyptalandi. Hún hefur áratugum saman verið geymd í Ether Dome og verið rannsökuð ítarlega, síðari árin með nútímatækni. Árið 1960 gat fræðimaður lesið myndletur (hýeróglífur) í kistunni. Múmían var af karlmanni sem uppi var í borginni Þebu um 600 f. Kr. á tímum 26. konungsættar. Hann hét Padihershef og starfaði sem leitarmaður að heppilegum grafarstæðum.

Þá er þarna stytta af guðinum Apolló sem meðal annars var guð visku og lækninga, sbr. upphaf hins forna Hippókratesareiðs: „Ég sver við Apolló, sem læknar, Asklepíus … að ég mun framkvæma eftir kunnáttu minni og dómgreind þennan eið.” Styttan var gefin spítalanum árið 1845. Þetta er afsteypa af styttu sem fannst í Róm á tímum endurreisnarinnar og er geymd í Páfagarði.

Árum saman hefur í Ether Dome farið fram fræðslustarfsemi ýmiss konar og fundir. Þar hafa meðal annars lengi farið fram vikulegar, formlegar, vandaðar, fræðandi og skemmtilegar æfingar í sjúkdómsgreiningum. Vel lærður læknir er látinn spreyta sig á greiningu á strembnu sjúkratilfelli og meðferð rædd. Þetta efni hefur síðan birst í New England Journal of Medicine undir heitinu: „Case Records of the Massachusetts General Hospital.“

Þessi staður hefur þótt sögulega merkur og árið 1965 var Ether Dome skráð sem „National Historic Site” og mun opið almenningi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica