12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Heimsfaraldur, lausir samningar og glatað læknaráð. Berglind Bergmann

 

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Nú er bráðum ár liðið frá frægum fundi Læknaráðs Landspítala með heilbrigðisráðherra í janúar 2020 og því tilefni til að staldra við og minnast þessa fundar, sér í lagi í ljósi liðinna atburða. Ráðherra sagði svo eftirminnilega að það væri ,,töluverð áskorun fyrir ráðherra að standa með Landspítala þegar koma ályktanir á færibandi sem tala um það að þessi stofnun sé nánast hætt við“ og gagnrýndi um leið umsagnir frá starfsfólki spítalans þar sem frekar sé verið að tala starfsemina niður en byggja upp. Ályktanirnar sem ráðherra vísar til eru meðal annars ályktun Læknaráðs frá janúar 2020 þar sem áhyggjur eru tíundaðar af aðstæðum á bráðamóttöku Landspítala er varða álag, sýkingavarnir og öryggi. Aðrar ályktanir hafa fjallað um ófullnægjandi húsnæði og óhóflegt álag á mörgum deildum spítalans og hafa læknar oft boðið fram aðstoð sína og sérþekkingu við að finna lausnir. Síðan fundur ráðherra með Læknaráði var haldinn hefur margt á daga okkar drifið.

Læknaráð lagt niður

Frá fundinum eftirminnilega hefur heilbrigðisráðherra lagt niður 50 ára gamalt Læknaráð. Alþingi samþykkti nú í júní síðastliðnum frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og var þar fellt út ákvæði um að við heilbrigðisstofnanir starfi læknaráð og þess í stað skuli vera eitt sameiginlegt fagráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á hverri stofnun, forstjóra til ráðgjafar. Þetta fagráð, sem mögulega mun aðeins innihalda einn lækni, mun aldrei koma í stað Læknaráðs sem hefur verið vettvangur okkar lækna, bæði almennra lækna og sérfræðinga, fyrir faglega umfjöllun um starfsemi spítalanna. Þrátt fyrir að hafa margt til málanna að leggja, veigra margir læknar sér við að taka opinberlega þátt í umræðunni og tjá sig í fjölmiðlum. Undirrituð vill meina að það sé vandamál hversu mikið virðist oft þurfa til þess að læknar tjái sig í fjölmiðlum um brýn málefni. Þar hefur Læknaráð Landspítala verið nauðsynlegur vettvangur lækna spítalans til að koma áhyggjum sínum á framfæri, sem miðað við yfirlestur ályktana síðastliðinna ára hefði verið fullt tilefni fyrir stjórnmálamenn til að hlusta á og bregðast við.

Samningslausir læknar í heimsfaraldri

Frá fundinum eftirminnilega hefur farsótt herjað á landsmenn og samningslausir læknar staðið í stórræðum. Læknar hafa, líkt og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, smitast í vinnu sinni við að sinna COVID-19 sjúkum, og nýverið kom Landakotsskýrsl-an út sem fjallaði um alvarlega hópsýkingu á Landakotsspítala sem 98 kórónuveirusmit eru rakin til, þar af voru 46 sjúklingar og 52 starfsmenn. Í skýrslunni sést svart á hvítu hvernig aðbúnaðurinn og húsakosturinn er alls kostar ófullnægjandi fyrir spítalastarfsemina sem fram fer á Landakoti, en þetta á þó ekki einungis við um Landakot. Læknar hafa vakið máls á þessu síðastliðin ár og jafnvel áratugi, á meðan við bíðum eftir nýjum spítala sem hefur verið alltof lengi að rísa.

Takk fyrir ykkar framlag, læknar!

Það hefur verið mjög gefandi að fylgjast með baráttu lækna síðastliðna mánuði í kórónuveiruheimsfaraldrinum. Sérnámslæknar hafa staðið í framlínunni ásamt hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum við að sinna COVID-19 veikum, og hafa jafnframt komið að stefnumótandi ákvörðunum og skipulagningu aðgerða í faraldrinum sjálfum. Læknar hafa í faraldrinum sýnt og sannað mikilvægi þess að læknar komi að stjórnun, stefnumótun og skipulagi heilbrigðisþjónustu. Starf lækna í miðju stormsins hefur verið mikið og óeigingjarnt, og má þar nefna smitsjúkdómalækna, lungnalækna, gjörgæslulækna, almennra lyflækna og sérnámslækna. Auðvitað hefur heimsfaraldurinn haft áhrif á störf flestra lækna. Lófaklapp hefur heyrst óma víða og þakklæti fólks þannig sýnt. Ég er þó með hugmynd fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana að enn betri þökkum. Hvað með að leyfa læknum að nýta ráðstefnuréttindi sín fyrir árið 2020, árið 2021? Eðli málsins samkvæmt hafa fæstir læknar náð að nýta sér þessi kjarasamningsbundnu réttindi á liðnu ári. Eins og málin standa munu réttindi þessi fyrnast um áramótin og óljóst hvert fjármagnið rennur, sem annars hefði staðið straum af þessum ráðstefnukostnaði. Að lokum væru þó bestu þakkirnar þær ef loksins yrði samið við lækna svo við þurfum ekki að takast á við fjórðu bylgju faraldurs samningslaus.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica