12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Við ætlum að veita heilbrigt aðhald, segir Þorbjörn Jónsson

„Við látum ekki kæfa raddir okkar lækna. Læknaráð mun lifa,“ segir Þorbjörn Jónsson, nýr formaður bráðabirgðastjórnar ráðsins. Hún á að skerpa á reglum þess og leggja línurnar fyrir hlutverk þess til framtíðar eftir að það var lagt niður með breytingu á lögum nú á haustdögum. Aðalfundur verður líklega haldinn í janúar og ný stjórn kosin.

„Lagabreytingin var óheillaskref,“ segir Þorbjörn. „Við upplifðum að reynt væri að þagga niður í okkur með lagabreytingunum. Þetta er ekki fyrirkomulag sem gafst illa, svo hvers vegna að breyta því?“ spyr hann og segir lækna og hjúkrunarfræðinga burðarstéttir spítalans. Því sé vert að hlusta á þær en Læknaráð hafi í nærri hálfa öld veitt ráðgjöf um fagleg málefni tengd lækningum á spítalanum.

Þorbjörn Jónsson, nýr formaður bráðabirgðastjórnar Læknaráðs, segir lækna á Landspítala hafa upplifað að þagga ætti niður í þeim þegar áhrif ráðsins voru gerð að engu með lagabreytingum. Mynd/gag

„Nýtt þverfaglegt fagráð innan spítalans á að taka við þessu kefli. Við vitum hins vegar ekki hverjir munu sitja í því. Heilbrigðisstéttir innan spítalans eru á fjórða tug og því ljóst að rödd lækna verður aldrei sterk í þeim hópi. Við óttumst að hjá slíku ráði muni læknisfræðileg sjónarmið ekki fá nægilega mikla vigt,“ segir Þorbjörn við Læknablaðið. Hann telur lagabreytinguna endurspegla vaxandi forstjóraræði í opinbera kerfinu.

„Mér finnst þessi ákvörðun lykta af því,“ segir Þorbjörn. „Menn eru að fara úr dreifstýringu yfir í fárra manna stjórnun.“ Hann bendir á að læknar hafi lengsta námið að baki og flestir reynslu og þekkingu frá erlendum spítölum og heilbrigðiskerfum og því gagnrýnisvert að minnka vægi þeirra.

„Nýja Læknaráðið mun því áfram veita faglegt aðhald og vonandi vera í góðri samvinnu við stjórnendur spítalans.“ Hafa verði í huga að sjónarmið, hagsmunir og skoðanir lækna fari almennt saman við skoðanir stjórnar spítalans: „Því við höfum sameiginlega hagsmuni af því að veita sjúklingum góða þjónustu og styrkja spítalann.“

Þorbjörn bendir á að Læknaráð Landspítala hafi veitt umsagnir um flest þingmál sem snertu rekstur spítalans og heilbrigðismál almennt. Heilbrigðisyfirvöld og velferðarnefnd hafi iðulega tekið mark á læknum.

„Rödd lækna þarf að heyrast innan spítalans sem utan og læknisfræðileg sjónarmið að vera þar ríkjandi í ákvörðunum spítalans,“ segir hann. „Læknaráð er mér hjartans mál. Ég var formaður þess um árabil og veit hverju ráðið getur áorkað. Starfið sem það vann var mikilvægt og því munum við halda áfram.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica