12. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Læknablaðið í nútíð og framtíð: öflugt fræðirit fagfélags. Magnús Gottfreðsson

Magnús Gottfreðsson sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum| yfirlæknir við Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands|Ritstjóri Læknablaðsins

doi 10.17992/lbl.2020.12.608

Læknablaðið var stofnað árið 1915 og er því eldra en Læknafélag Íslands. Má ef til vill spyrja hvort með þessu endurspeglist forgangsröðun íslenskra lækna og ást þeirra á viðfangsefnum sínum, að stofna til útgáfu fræðirits áður en hafist var handa við stofnun stéttarfélags? Hvað sem því líður er ljóst að blaðið hefur gengið í gegnum fjölmargar breytingar á þessum langa tíma, en þó ávallt verið vettvangur fyrir fræðileg skrif lækna hér á landi og þannig stutt við starfsemi Læknafélagsins sem fagfélags. Blaðið hefur einnig verið mikilvægur vettvangur skoðanaskipta, viðtala og frétta. Læknablaðið hefur verið sjálfstæður miðill sem lætur sig vísindi, heilbrigðismál og málefni lækna miklu varða, enda verða þessir þættir seint aðskildir.

Blaðið hefur verið skráð í Medline síðan árið 2005 og í aðra mikilvæga og virta gagnagrunna, ISI og Scopus. Mikilvægt er að gæta að því að ekki verði hnökrar á þessari skráningu og að vísindaleg viðmið frá IMJCE (alþjóðleg samtök ritstjórna læknisfræðilegra tímarita) séu virt.

Ég læt nú af störfum eftir setu í ritstjórn í rúm 7 ár, þar af í fjögur ár sem ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins. Hlutverk ritstjórnar þarf að vera skýrt og sjálfstæði hennar og ábyrgðarmanns óumdeilanlegt. Ein af þeim áskorunum sem blaðið hefur þurft að takast á við í tæpan áratug er samdráttur í auglýsingatekjum. Við þessu hefur þurft að bregðast með margvíslegri hagræðingu, sem hefur einkennt rekstur blaðsins í mörg ár, ekki síst síðustu tvö ár. Kostnaður við útgáfu hefur verið minnkaður eins og frekast er unnt og starfsfólki fækkað. Á sama tíma hefur áskrifendum hins vegar fjölgað.

Miklu skiptir að mikill meirihluti eigenda blaðsins, félagar í Læknafélagi Íslands, er almennt ánægður með Læknablaðið eða um 80% samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var á vegum LÍ fyrir tveimur árum. Ábendingar sem félagar í LÍ gáfu ritstjórn þá með svörum sínum hafa nýst vel til að efla blaðið enn frekar og gera það enn sýnilegra en áður. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á útliti, þar á meðal forsíðu, en einnig höfum við tekið upp nýja efnisdálka, meðal annars fréttasíðu, lipra penna, dag í lífi læknis og sett inn flettiútgáfu á netinu og hlaðvörp sem hægt er að hlusta á þegar tækifæri gefst. Einnig er blaðið nú öflugt á samfélagsmiðlum og efnið vekur sem fyrr mikla athygli fjölmiðla. Mælanleg umferð um síður blaðsins hefur til að mynda aukist um meira en 50% síðustu 12 mánuði, sem endurspeglar mjög aukinn áhuga á efni þess. Mikilvægast er þó að gögn styðja að blaðið sé öflugt fræðitímarit í stöðugri þróun. Sterkasti vitnisburðurinn um það er umtalsverð fjölgun á innsendum handritum á þessu ári og mjög aukin netumferð um síður þess.

Mikilvægi blaðsins er ótvírætt, ekkert annað fagfélag á landinu getur státað af jafnmetnaðarfullum og öflugum miðli og Læknablaðið er. Það er að mínu mati til þess fallið að efla upplýsta umræðu, fagmennsku, samkennd og stolt innan stéttarinnar. Til þess að svo megi áfram verða þarf ný ritstjórn að vera jafnsjálfstæð í störfum sínum og tíðkast hefur og standa vörð um fræðimennsku í greinum blaðsins. Það næst best án beinnar aðkomu ritstjórnarmanna að stjórn félagsins eða annars staðar þar sem draga má hlutlægni þeirra í efa. Með því skapast traust sem er hverju fræðitímariti nauðsynlegt.

Útgáfa Læknablaðsins er í eðli sínu uppbyggingarstarf. Mér hefur verið treyst fyrir þessu hlutverki undanfarin fjögur ár og það er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér. Ég vil þakka þeim frábæru og samhentu kollegum sem setið hafa með mér í ritstjórn síðustu ár en þau eru Sigurbergur Kárason, Gerður Gröndal, Hannes Hrafnkelsson, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Elsa B. Valsdóttir, Magnús Haraldsson, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir og Margrét Ólafía Tómasdóttir. Jafnframt vil ég þakka núverandi og fyrrverandi starfsmönnum blaðsins fyrir frábæra vinnu, ekki síst Védísi Skarphéðinsdóttur ritstjórnarfulltrúa og Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur blaðamanni sem báðar hafa haft mikinn metnað fyrir hönd blaðsins. Síðast en ekki síst vil ég þakka þeim fjölmörgu sem hafa ritrýnt fræðilegt efni blaðsins af þekkingu og heilindum á síðustu árum. Án þeirra stæði blaðið ekki undir nafni sem vísindarit.

Breytingar eru aflgjafi framfara og mikilvægt er að reglulega sé skipt um ritstjóra, að mínu mati á 4-6 ára fresti að jafnaði. Ég tel mig hafa náð að mestu leyti að hrinda þeim breytingum í framkvæmd sem að var stefnt þegar ég tók við starfi ritstjóra. Árið 2020 verður væntanlega lengi í minnum haft, en tíminn líður áfram. Maður kemur í manns stað og nú eru kaflaskil. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir tekur við, en hún er fyrst kvenna í íslenskri læknastétt til að setjast í stól ritstjóra og ábyrgðarmanns í 106 ára sögu Læknablaðsins. Ég þakka fyrir mig og óska blaðinu og lesendum þess áframhaldandi velfarnaðar.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica