12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Kosningadagbók 3.-7. nóvember 2020. Sigurdís Haraldsdóttir

Þriðjudagur 3. nóvember kl. 08

Tólf ár í Bandaríkjunum og ég hef aldrei séð spennustigið hér hærra. Maður les fjölmiðla og fær á tilfinninguna að heimsendir nálgist. Hvernig svínar Trump á okkur núna? Hvaða brögðum munu repúblíkanar beita til að halda völdum? Og hvað fór eiginlega úrskeiðis í þessu landi? Hér býr fólk í hliðstæðum heimum, allt eftir því hvaða fréttamiðla horft er á og hvaða tísti þeir trúa. Tók Uber heim úr vinnu um daginn og hitti þar Brasilíumann sem hefur búið í Bandaríkjunum síðastliðin 8 ár. Eftir stutt kurteislegt samtal kom í ljós að hann trúir því að Bill Gates standi fyrir kórónuveirunni sem hafi verið ýkt úr öllu valdi og sé alls ekki svo skaðleg, Bolsonaro standi sig vel og Trump sé frábær forseti. Hann varð svo æstur af því að ræða þetta við sjálfan sig að ég gat ekki beðið eftir því að komast út úr bílnum. Ég er nú samt nokkuð bjartsýn á kosningarnar, held að Biden og Harris vinni þetta með nokkrum yfirburðum.

Þriðjudagur 3. nóvember kl. 11

Fór að kjósa í fyrsta skipti. Það er skylda að vera með grímu í Massachusetts fyrir utan heimili sitt, sama hvort maður sé í fjölmenni eða ekki. Það voru örfáir á kjörstað enda 60% af íbúum Newton búnir að kjósa, annaðhvort með póstatkvæði eða með því að fara á kjörstað fyrir kjördag.

Þriðjudagur 3. nóvember kl. 13

Er mætt í vinnu sem kosningastarfsmaður og verð að vinna á kjörstað þar til lokar klukkan 8 í kvöld. Nágranni minn er hér líka í fyrsta skipti að hjálpa. Við höfum bæði áhyggjur af hnignun lýðræðis í landinu og fannst sem við þyrftum að gera eitthvað til að hjálpa. Hér er vopnaður lögreglumaður og fjórir aðrir starfsmenn. Það er mjög rólegt fram að lokun. Einn neitaði að setja upp grímu en fékk samt að kjósa. Sótthreinsibrúsinn fór á loft á eftir.

Þriðjudagur 3. nóvember kl. 21

Jeminn minn eini hvað er erfitt að horfa á tölurnar koma inn. Þetta er alls ekkert eins öruggt og maður hafði búist við. Og þetta minnir ískyggilega á 2016, ég held það séu allir með netta áfallastreituröskun frá því ári. Biden heldur ræðu og biður fólk um að örvænta ekki, það eigi enn eftir að telja mörg póstatkvæði og hann sé viss um að þau eigi eftir að sigra. Við spúsa mín deilum rauðvínsflösku og förum í háttinn á miðnætti.

Miðvikudagur 4. nóvember kl. 04

Vakna og fer beint á CNN. Útlitið er eilítið betra núna og verður enn betra eftir því sem við fylgjum fréttum yfir daginn. Enn á eftir að telja mikið af póstatkvæðum í Pennsylvaníu, Georgíu, Arizona og Nevada. Allt starfsfólk við Dana-Farber fær tölvupóst með yfirliti yfir hvar sé hægt að nálgast geðheilbrigðisþjónustu og hugleiðsluprógrömm á þessum streituvaldandi tímum.

Fimmtudagur 5. nóvember kl. 08

Ég er heima að vinna í dag en það er erfitt að einbeita sér þegar svo mikið hangir á spýtunni. Tölurnar halda áfram að líta betur út fyrir Biden.

Föstudagur 6. nóvember kl. 08

Fer í vinnuna, er með göngudeild. 30% sjúklinga mæta ekki. Virðist stefna í nokkuð kláran sigur fyrir Biden í Arizona, Nevada, Pennsylvaníu og jafnvel í Georgíu. En sjónvarpsstöðvarnar eru eitthvað feimnar við að lýsa yfir sigurvegara.

Laugardagur 7. nóvember kl. 10

Fallegur dagur í dag, sólín skín og spáð 20 stiga hita. Biden hefur breikkað forskotið í Nevada og Pennsylvaníu. Förum í síðasta tónlistartíma haustsins með börnin niður á grasvöll. Ég á Facetime-stefnumót með íslenska saumaklúbbnum kl. 11:30. Erum á röltinu og Ísland á línunni þegar við tökum eftir því að fólk á labbi grúfir sig niður í símana sína. Vinkona okkar sendir skilaboð: „Did we just win?“ ... Ha, getur verið að þetta hafi tekist??!? Fólk fer að klappa og fagna á götunum, bílar að flauta og við að hoppa og faðmast – þvílíkur léttir! Kóróna hvað? Ekkert kemst að annað en gleðivíma, það eru allir skælbrosandi á götum úti. Kannski er þessu landi þá viðbjargandi eftir allt saman.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica