11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

In Memoriam - Gunnar Mýrdal sérfræðingur í brjóstholsskurðlækningum

Kveðja frá Læknafélagi Íslands og Félagi sjúkrahúslækna

Gunnar Mýrdal brjóstholsskurðlæknir lést fyrir aldur fram þann 10. september síðastliðinn eftir baráttu við erfiðan illkynja sjúkdóm. Hann var fæddur 11. apríl 1964 og því aðeins 56 ára gamall er hann lést.

Gunnar var stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands 1984 og lauk embættisprófi frá læknadeild vorið 1991. Gunnar fékk sérfræðiréttindi í almennum skurðlækningum 1998 og í brjóstholsskurðlækningum árið 2001 frá Uppsala Akademiska sjúkrahúsinu og Uppsalaháskóla. Hann varði doktorsritgerð sína við sömu stofnun árið 2003. Fjallaði hún um nýgengi og árangur meðferðar lungnakrabbameins í Svíþjóð.


Gunnar flutti heim til Íslands árið 2008 til starfa á brjóstholsskurðdeild Landspítala sem sérfræðingur og sem yfirlæknir frá árinu 2016. Hann lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík 2015.

Undirritaður kynntist Gunnari Mýrdal fyrst fyrir tæpum 30 árum þegar við störfuðum saman tveir ungir læknar á sjúkrahúsinu á Akranesi á tvískiptum vöktum. Ég að stíga mín fyrstu skref í starfi og hann að taka sitt annað ár eftir útskrift. Gunnars minnist ég sem hjálpsams og góðs félaga sem þá þegar var góð fyrirmynd í starfi. Hann var umhyggjusamur við sjúklinga sína og áhugasamur um starf sitt, vingjarnlegur og liðlegur í samskiptum. Enda vinsæll meðal samstarfsfólks og sjúklinga. Augljóst var strax á þessum árum hversu skurðlækningar lágu vel fyrir honum, lipur og áræðinn en ábyrgur við störf sín.

Gunnar Mýrdal var í samskiptum hreinskiptinn með þægilega nærveru og fjörugt og stundum gáskafullt skopskyn. Leiðir okkar lágu meira saman aftur síðustu misserin í störfum fyrir okkar nýstofnað Félag sjúkrahúslækna og var ljóst að þrátt fyrr þroska áranna bjó Gunnar enn að óspilltum sínum góðu eiginleikum. Gunnar sat meðal annars sem annar fulltrúi Félags sjúkrahúslækna í stjórn Læknafélags Íslands þar til veikindi hans hindruðu þátttöku.

Margir eiga um sárt að binda við fráfall Gunnars Mýrdal. Sérstaklega hans stóra fjölskylda en hann lætur eftir sig 8 börn og þar með talda eina nýfædda dóttur. Eftirlifandi eiginkona Gunnars Mýrdal er Ingibjörg Kristjánsdóttir sérfræðingur í hjartalyflækningum. Læknafélag Íslands og Félag sjúkrahúslækna vottar þeim sína dýpstu samúð.

Stórt skarð er höggvið í íslenska læknastétt með ótímabæru fráfalli Gunnars Mýrdal. Blessuð sé minning góðs drengs og kollega.Þetta vefsvæði byggir á Eplica