10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi sérnámslæknis. Þórdís Kristinsdóttir

8:20 Vekjaraklukkan hringir. Kúri smá og tek 5 mínútna hugleiðslu til að setja tóninn fyrir daginn áður en ég fer framúr. Fæ mér múslí og vænan kaffibolla yfir fréttalestri og dáist að útsýninu af 4. hæðinni á þessum bjarta degi. Fátt betra en rólegur morgunn fyrir vakt.


Vel uppstillt í vinnugallanum, mynd í boði Silju hjúkrunarfræðings á vökudeildinni.

10:00 Tek klukkustundar sænskulærdóms„sess“. Brýn þörf fyrir það, enda tæpir 2 mánuðir þar til ég byrja í nýrri vinnu í Stokkhólmi. Ætlaði auðvitað að vera búin að læra miklu meira, en svona er þetta, þetta reddast, íslenska leiðin.

12:00 Komin í Vesturbæjarlaugina eftir hlaupatúr. Fylgist með krökkunum í skólasundi og hlusta á spjall heldri manna í heita pottinum. Tek nokkrar dýfur í heita og kalda áður en ég sturta mig í útiklefanum. Brakandi fersk og endurnærð á líkama og sál.

13:00 Deit með sjálfri mér á mínu uppáhalds Coocoo's nest. Hlusta á podcast meðan ég borða.

15:00 Renni inn í Laugardal að heimsækja æskuvinkonu og 8 vikna gamlan frumburð hennar sem er dásemdar glókollur með 5 stjörnu bollukinnar. Vinkonan hefur áhyggjur af því að hann hafi ekki kúkað í 5 daga. Viti menn, drengurinn kúkar um leið og ég tek hann í fangið, okkur öllum til mikillar ánægju.

17:30 Reyni að ná smá blundi fyrir vaktina. Næ ekki að sofna í þetta skiptið en fæ þó smá hvíld. Lúxus að „þurfa“ að leggja sig á daginn.

19:00 Græja nesti fyrir vaktina. Hef aldrei farið á kex og sómasamlokukúrinn á LSH og stefni ekki á það úr þessu.

20:00 Mætt tímanlega á vakt, eins gott, því endurnýjun á samningnum mínum reynist ekki vera komin í gegn svo aðgangskortið mitt virkar ekki. Redda lánskorti, kemst í vinnuföt og rétt næ að leysa dagvaktina af tímanlega eftir rúmlega 1 km auka göngutúr.

00:40 Vaktin verið hæfilega annasöm og skemmtileg. Enginn alvarlega veikur og engir sprettir milli hæða. Þema kvöldsins verið ofnæmisviðbrögð og ungabörn með kvef.

1:30 Viðstödd keisaraskurð. Barnið fæðist heilbrigt og ég þarf ekkert að skipta mér af, best þannig. Dáist að drengnum og óska foreldrunum til hamingju áður en ég læt mig hverfa.

2:15 Sjúkrabíll kallar á bráðamóttöku barna. Ungt og mjög alvarlega veikt barn er á leiðinni. Ég hringi í báða sérfræðingana á vaktinni og hjúkrunarfræðingurinn hringir neyðarhnappnum. Við tekur löng og erfið endurlífgun með aðkomu alls tiltæks fagfólks. Allt er reynt. Enginn er tilbúinn að sætta sig við það sem þó verður ljóst, að sama hvað við gerum, þá dugar það ekki til. Ég finn fyrir skelfilegum tómleika og óraunveruleikakennd. Svona á þetta ekki að fara. Námsferillinn og 3ja ára starfreynsla hefur engan veginn gert mig í stakk búna fyrir svona atvik, og vonandi verð ég það aldrei. Sérfræðilæknirinn og hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni ræða við aðstandendur en ég fæ símtal með ósk um að skoða nýfætt barn með öndunarfæraeinkenni. Eins bíða 3 börn á bráðamóttökunni skoðunar eða endurmats, því vaktin heldur jú víst áfram.

6:40 Aftur komin í keisaraskurð. Einhvern veginn líður tíminn og verkefnin vinnast eitt af öðru. Sprækur drengur fæðist og ég fæ að heyra að hann hafi fæðst með aðstoð tæknifrjóvgunar. Foreldrarnir eru í skýjunum að hitta loksins óskadrenginn sinn. Alls hafa fæðst 8 heilbrigð börn frá miðnætti.

8:05 Morgunfundur með læknum Barnaspítalans og læknanemum. Þau mæta glaðbeitt til vinnu, en ég á erfitt með að brosa á móti. Ég fer yfir mönnun dagsins, segi frá innlögnum og greini frá skelfilegu atviki næturinnar. Ég skila af mér vaktsímunum og yfirgef fundinn eins fljótt og ég get.

8:30 Brotna niður um leið og ég geng út í bíl. Er annars hugar á heimleiðinni og það er flautað á mig. Fæ orðlaust faðmlag þegar ég kem heim, ræð ekki við tárin en get ekki útskýrt hvað gerðist.

9:00 Reyni að ná mér niður og leggst upp í rúm. Vonast eftir draumlausum svefni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica